Fréttir

Tíðarfar í desember 2025

Stutt yfirlit

6.1.2026


Desember var óvenjulega hlýr og var hiti langt yfir meðallagi á landinu öllu. Á landsvísu var þetta þriðji hlýjasti desembermánuður frá upphafi mælinga. Jólin voru sérstaklega hlý þegar sunnanhvassviðri gekk yfir landið. Nýtt desemberhámarkshitamet var sett þegar hiti mældist 19,8 stig á Seyðisfirði seint á aðfangadagskvöld.  

Hiti

Meðalhiti í byggðum landsins var 3,0 stig sem er þremur stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á landsvísu var þetta þriðji hlýjasti desembermánuður frá upphafi mælinga. Það var hlýrra í desember 1933 og 2002.

Meðalhiti í Reykjavík í desember var 4,0 stig. Það er 3,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 3,7 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,4 stig, 3,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 3,9 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 3,3 stig og 1,9 stig á Egilsstöðum. Á öllum þessum veðurstöðvum var þetta á meðal hlýjustu desembermánaða frá upphafi mælinga.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í desember 2025.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2015-2024 °C
Reykjavík 4,0 3,3 4 155 3,7
Stykkishólmur 3,3 2,9 3 180 3,4
Bolungarvík 3,7 3,6 2 128 3,8
Grímsey 3,4 2,7 5 152 3,0
Akureyri 2,4 3,1 4 145 3,9
Egilsstaðir 1,9 3,0 2 71 3,5
Dalatangi 4,0 2,3 4 88 2,2
Teigarhorn 3,8 2,7 1 til 2 153 2,8
Höfn í Hornaf. 3,9


3,0
Stórhöfði 5,4 3,1 3 149 3,2
Hveravellir -1,8 3,3 3 61 3,9
Árnes 2,7 3,5 4 146 3,9

Hiti var alls staðar langt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og síðustu tíu ára (sjá mynd 1). Að tiltölu var hlýjast inn til landsins en kaldara út við strendur, sérstaklega austanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 4,5 stig á Þingvöllum en minnst 2,2 stig í Seley.



Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 6,5 stig á Steinum undir Eyjafjöllum. Það er óvenjulega hár mánaðarhiti fyrir desembermánuð. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -3,4 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur -1,0 stig í Svartárkoti.

Hlýindi desembermánaðar náðu hámarki 24. og 25. desember. Hæsti hiti mánaðarins mældist 19,8 stig seint á aðfangadagskvöld á Seyðisfirði. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í desembermánuði. Fyrra met var 19,7 stig sem mældist þ. 2. desember 2019 á Kvískerjum í Öræfum.

Á mynd 2 má sjá landsmeðalhita hvers dags frá árinu 2025, sem vik frá meðalhita síðustu tíu ára. Þar sjást hlýindi desembermánaðar vel. Hiti var vel yfir meðallagi alla daga í desember, nema dagana 4., 15. og 16. þegar hiti var lítillega undir meðallagi.



Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags á árinu 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Úrkoma

Úrkoma var undir meðallagi um mestallt land í desember. Töluverð úrkoma var á vestanverðu landinu dagana 23. til 26, þá sérstaklega á Snæfellsnesi og Vestfjörðum.

Úrkoma í Reykjavík mældist 76,2 mm sem er 80% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 45,7 mm sem er um 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 83,8 mm og 110,6 mm á Dalatanga.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 14 sem eru jafnmargir og í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 8 daga, sem er 4 færri en venjulega.

Snjór

Mánuðurinn var snjóléttur.

Það voru 2 alhvítir dagar í Reykjavík í desember, eða 10 færri en í meðalári. Á Akureyri voru 16 alhvítir dagar í mánuðinum, 2 færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust 18,3 sólskinsstundir í mánuðinum sem er 5,7 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var sólarlaust eins og oft í desembermánuði.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,1 m/s yfir meðallagi.

Hvassast var á landinu þ. 1 (norðaustanáttir), dagana 9. til 11. (norðaustan- og austanáttir) og þ. 24. (sunnanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1000,0 hPa sem er 0,8 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1047,4 hPa á Önundarhorni þ. 27. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 958,5 hPa í Surtsey þ. 12.

Skjöl fyrir desember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2025 (textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.










Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica