Fréttir

Tíðarfar í júlí 2025

Stutt yfirlit

1.8.2025


Júlí var óvenjulega hlýr, sérstaklega á Norðaustur og Austurlandi. Á landsvísu var þetta hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga, ásamt júlí 1933 sem var jafnhlýr. Mjög hlýtt var þ. 14. þegar hiti mældist 20 stig eða meiri á um 70% allra veðurstöðva. Hæstur mældist hitinn 29,5 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum, sem er á meðal hæstu hitatölum sem þekkjast hér á landi. Mánuðurinn var hægviðrasamur og lítið um hvassviðri. Töluverð gosmóða lá yfir stórum hluta landsins um miðjan mánuð vegna eldgossins á Reykjanesi og hægviðris.

Hiti

Meðalhiti í byggðum landsins var 12,0 stig og jafnar þar með fyrra met um hlýjasta júlímánuð frá 1933. Hlýjast var á Norðaustur- og Austurlandi og þar var mánuðurinn víða á meðal hlýjustu júlímánaða sem vitað er um. Mánuðurinn var t.a.m. hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga á Egilsstöðum og Hallormstað þar sem meðalhitinn var 14,2 stig á báðum stöðvum. Það er mjög óalgengt að meðalhiti eins mánaðar á Íslandi fari yfir 14 stig, en það gerðist fyrst á nokkrum veðurstöðvum í hlýindunum á Norðaustur- og Austurlandi sumarið 2021 og svo aftur nú.

Á Akureyri var meðalhitinn 13,5 stig, 2,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 2,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta var næsthlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga á Akureyri (mælt frá 1881), en þar var töluvert hlýrra í júlí 2021 (14,3 stig). Þetta var einnig næsthlýjasti júlímánuður á Grímsstöðum á Fjöllum (af 119 árum), Teigahorni (af 153 árum) og Dalatanga (af 87 árum).

Meðalhiti í Reykjavík mældist 12,1 stig í júlí. Það er 0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,6 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 12,1 stig sem er þriðji hæsti júlíhiti þar frá upphafi mælinga 1846.  

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2015-2024 °C
Reykjavík 12,1 0,5 20 155 0,6
Stykkishólmur 12,1 1,4 3 180 1,5
Bolungarvík 11,8 1,8 5 128 2,0
Grímsey 10,6 2,1 4 152 2,1
Akureyri 13,5 2,3 2 145 2,2
Egilsstaðir 14,2 3,4 1 71 3,6
Dalatangi 10,4 1,7 2 87 1,4
Teigarhorn 10,9 1,5 2 153 1,3
Höfn í Hornaf. 12,3


1,6
Stórhöfði 11,4 1,0 8 149 1,2
Hveravellir 9,9 1,7 4 61 1,8
Árnes 12,6 0,9 15 til 16 146 0,9

Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2025.

Hitavik miðað við síðustu tíu ár voru jákvæð alls staðar (sjá mynd 1). Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi, en að tiltölu kaldast suðvestanlands. Jákvætt hitavik var mest 4,3 stig á Gagnheiði, en minnst 0,6 stig við Hellisskarð.


Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 14,2 stig á Egilsstaðaflugvelli og Hallormsstað. Lægstur var meðalhitinn 7,7 stig á Þverfjalli. Á láglendi var meðalhitinn lægstur í Seley, 8,6 stig.

Hlýir dagar voru margir í mánuðinum. Dagar þegar hiti mældist 20 stig eða meiri einhversstaðar á landinu voru 28. Mjög hlýtt var þ. 14. þegar hiti mældist 20 stig eða meiri á um 70% allra veðurstöðva. Hámarkshitamet fyrir júlí voru sett á mörgum veðurstöðvum þann dag, flest í uppsveitum Suðurlands. Þann dag mældist hæsti hiti mánaðarins 29,5 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum, sem er á meðal hæstu hitatölum sem þekkjast hér á landi. Hiti hefur ekki mælst svo hár á Íslandi síðan 30. júlí 2008 þegar hitinn mældist 29,7 stig á Þingvöllum. Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu er 30,5 stig, á Teigarhorni við Berufjörð 22.júní 1939.

Mest frost í mánuðinum mældist -1,6 stig á Gagnheiði þ. 1. Mest frost í byggð mældist -1,3 stig á Haugi í Miðfirði þ. 7.

Á mynd 2 má sjá landsmeðalhita hvers dags það sem af er ári 2025, sem vik frá meðalhita síðustu tíu ára. Hiti var vel yfir meðallagi alla daga í júlí, fyrir utan fyrstu tvo daga mánaðarins þegar hiti var lítillega undir meðallagi.


Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 41,0 mm sem er 80% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 30,4 mm sem er 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 64,1 mm sem er næstum tvöföld meðalúrkoma áranna 1991 til 2020. Um helmingur mánaðarúrkomunnar í Stykkishólmi mældist þ.18., eða 32,6 mm. Á Dalatanga mældist úrkoman 38,9 mm sem er um 30% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13 sem er 3 fleiri en venjulega. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 7 daga sem eru jafnmargir og í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 141,3 sem er 41,9 stundum undir meðallagi. Það var sólríkara á Akureyri þar sem mældust 185,6 sólskinsstundir. Það er 33,1 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Mánuðurinn var hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var um 0,5 m/s undir meðallagi. Lítið var um hvassviðri í mánuðinum, en töluvert eldingaveður var á Austfjörðum þ. 6. og á Norðvesturlandi og Vestfjörðum þ. 16.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1007,2 hPa sem er 2,0 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1023,5 hPa á Kollaleiru í Reyðarfirði þ. 13. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 990,2 hPa á Reykjum í Fnjóskadal þ. 25.

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Það hefur verið hlýtt það sem af er ári.

Í Stykkishólmi er meðalhitinn það sem af er ári 5,5 stig, sem er 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þar hafa þessir fyrstu sjö mánuðir ársins aldrei verið hlýrri (af 180 árum). Meðalhiti fyrstu sjö mánuði ársins var 5,9 stig í Reykjavík sem er 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti mánaðanna sjö raðast í 5. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sjö 5,3 stig, sem er 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þar raðast meðalhiti fyrstu sjö mánaða ársins í 3. til 4. hlýjasta sæti á lista 145 ára.

Heildarúrkoma mældist 511,8 mm í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins. Það er um 10% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoman 353,2 mm sem er um 30% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir júlí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2025 (textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica