Fréttir
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júní miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Tíðarfar í júní 2024

Stutt yfirlit

4.7.2024

Júní var tiltölulega kaldur á landinu öllu, sérstaklega norðaustanlands. Nokkuð langvinnt norðanhret gekk yfir landið í byrjun mánaðar. Óvenjumikið snjóaði á norðanverðu landinu miðað við árstíma sem olli töluverðum vandræðum. Bændur lentu í tjóni, einhvað var um fugladauða og samgöngutruflanir voru á fjallvegum.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júní var 8,7 stig. Það er 1,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og líka 1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 8,2 stig, 1,4 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 2,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 8,1 stig og 8,7 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2014-2023 °C
Reykjavík 8,7 -1,1 119 154 -1,1
Stykkishólmur 8,1 -0,8 107 til 108 179 -1,1
Bolungarvík 7,3 -0,9 86 127 -1,3
Grímsey 5,5 -1,1 98 151 -2,0
Akureyri 8,2 -1,4 111 144 -2,3
Egilsstaðir 7,8 -1,1 54 70 -2,0
Dalatangi 6,5 -0,3 42 86 -0,8
Teigarhorn 7,5 -0,3 62 152 -0,9
Höfn í Hornaf. 8,7


-0,9
Stórhöfði 8,1 -0,6 98 til 99 148 -0,5
Hveravellir 4,5 -1,7 48 60 -2,1
Árnes 9,3 -0,7 90 til 91 145 -0,8

Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júní miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Júní var kaldur á öllu landinu og hiti var undir meðallagi á öllum veðurstöðvum. Að tiltölu var kaldast á Norðausturlandi en hlýjast á Suðurlandi. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -3,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum en minnst -0,2 stig á Vatnsskarðshólum.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júní miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Öræfum 10,1 stig. Lægstur var meðalhitinn á Gagnheiði, 1,4 stig. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 4,4 stig á Fonti á Langanesi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,4 stig á Bakkagerði á Borgarfirði eystri þ. 30. Mest frost í mánuðinum mældist -6,2 stig á Gagnheiði þ. 3. og 4. Mest frost í byggð mældist -3,0 stig í Möðrudal þ. 4.

Úrkoma

Júní var óvenjulega úrkomusamur á Norðausturlandi. 

Úrkoma í Reykjavík mældist 59,3 mm sem er um 35% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Júní var óvenjulega úrkomusamur á Norðausturlandi. Á Akureyri mældist úrkoman 54,9 mm sem er meira en tvöföld meðalúrkoma áranna 1991 til 2020. Júníúrkoma hefur aðeins fimm sinnum mælst meiri á Akureyri, síðast árið 2005.  

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 10 sem er 1 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 11 daga sem er 7 fleiri en í meðalári.

Snjór

Það snjóaði óvenjulega mikið miðað við árstíma á Norðurlandi í norðanhreti sem gekk yfir landið í byrjun júní. Mest mældist snjódýptin á Vöglum í Vaglaskógi (43 cm þ. 5.), Grímsstöðum á Fjöllum (32 cm þ. 4.), Dalsmynni í Hjaltadal (19 cm þ. 6.), Sökku í Svarfaðardal (15 cm þ. 5.), Þverá í Dalsmynni (13 cm þ. 5.). Á þessum stöðvum er þetta mesta mælda snjódýptin sem vitað er um í júní, það er af nýföllnum snjó. Snjórinn hélst í nokkra daga og því er fjöldi alhvítra daga einnig óvenjulega mikill á þessum stöðvum. Á Grímsstöðum á Fjöllum voru alhvítir dagar t.a.m. 6 sem er það mesta þar síðan árið 1990. Það snjóaði á Akureyri, en þar var þó engin alhvítur dagur skráður í júní, en einn flekkóttur.

Snjórinn olli miklum vandræðum. Bændur lentu í tjóni, fjöldi fugla dóu og töluverðar samgöngutruflanir voru á fjallvegum.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 197,5 sem er 8 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 187,9 sem er 2 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Það var nokkuð hvasst á landinu í júní. Vindur á landsvísu var um 1,0 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hvassast var dagana 4. og 5. (norðanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1008,8 hPa og er það 3,8 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1025,8 hPa á Sauðárkróksflugvelli þ. 10. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 986,1 hPa á Vattarnesi þ. 22.

Fyrstu sex mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sex mánuði ársins var 3,2 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti fyrstu sex mánaða ársins raðast í 64. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sex 2,0 stig sem er 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn þar raðast í 71. hlýjasta sæti á lista 144 ára.

Heildarúrkoma í Reykjavík fyrstu sex mánuði ársins mældist 353,6 mm sem er um 85% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma mánaðanna sex 296,7 mm sem er um 30% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir júní

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní 2024 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica