Fréttir

Tíðarfar í nóvember 2022

Stutt yfirlit

2.12.2022


Mánuðurinn var hlýr um allt land og víða á meðal hlýjustu nóvembermánaða frá upphafi mælinga. Á landsvísu var meðalhitinn sá hæsti sem mælst hefur í nóvember. Mjög úrkomusamt var á Austurlandi.

Hiti

Nóvember var hlýr um allt land. Meðalhiti mánaðarins var sá hæsti sem mælst hefur í nóvember á landsvísu. Hann var um þremur gráðum hlýrri en að meðallagi og sló naumlega hitamet nóvembermánaðar frá 1945. Mánuðurinn var með hlýjustu nóvembermánuðum sem mælst hafa á mörgum veðurstöðvum, t.a.m. sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Grímsey, á Teigarhorni og á Hveravöllum, og aðeins einu sinni hefur mánaðarmeðalhiti nóvember verið jafn hár í Árnesi. Það var árið 2014, en sá nóvembermánuður er einnig á meðal þeirra hlýjustu frá upphafi mælinga.

Í Reykjavík var meðalhiti mánaðarins 5,1 stig sem er 2,9 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 2,6 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Hæsti hiti sem mælst hefur í nóvember í Reykjavík mældist 12,7 stig þ. 13., en nóvemberhitametið í Reykjavík var 12,6 stig frá 19. nóvember 1999. Á Akureyri var meðalhiti mánaðarins 4,2 stig sem er  3,5 stigum umfram meðallag 1991 til 2020 en 3,4 stigum umfram meðallag síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,6 stig og á Höfn í Hornafirði var hann 6,3 stig. Nýliðinn nóvembermánuður var sá þriðji hlýjasti frá upphafi mælinga í Reykjavík og á Akureyri og sá næsthlýjasti í Stykkishólmi.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

Meðalhiti (t) í nóvember 2022 á nokkrum stöðvum. Einnig má sjá vik miðað við meðalhita nóvember 1991 til 2020 (vik 30) annars vegar og 2012 til 2021 (vik 10) hins vegar í °C, ásamt röðun meðalhita mánaðarins í samanburði við aðra nóvembermánuði eftir að mælingar hófust.

stöð t vik 30 röð af vik 10
Reykjavík 5,1 2,9 3 152 2,6
Stykkishólmur 4,6 2,8 2 177 2,5
Bolungarvík 4,6 3,3 2 125 2,9
Grímsey 4,3 2,5 1 149 2,2
Akureyri 4,2 3,5 3 142 3,4
Egilsstaðir 4,3 3,6 2 68 3,6
Dalatangi 5,1 2,1 7 85 1,8
Teigarhorn 5,7 3,2 1 150 2,9
Höfn í Hornaf. 6,3


3,6
Stórhöfði 6,2 2,7 3 146 2,5
Hveravellir -0,1 3,4 1 58 3,2
Árnes 4,7 3,7 1 til 2 143 3,8

Hitavik mánaðarins var jákvætt um allt land, mánuðurinn var hlýrri en að meðaltali undanfarinn áratug á öllum veðurstöðvum landsins. Að tiltölu var hitavikið mest á miðhálendinu en minnst á Austfjörðum. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 4,2 stig við Setur en minnst 1,6 stig í Ólafsvík.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í nóvember miðað við síðustu tíu ár (2012 til 2021).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 7,3 stig á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægsti mánaðarmeðalhitinn mældist -1,5 stig í Sandbúðum. Í byggð mældist mánaðarmeðalhitinn lægstur 0,4 stig í Svartárkoti.

Hæsti hiti sem mældist á landinu var 16,3 stig á Miðsitju í Skagafirði þ. 13. Lægstur mældist hitinn -15,5 stig þ. 13. í Svartárkoti, en það er jafnframt lægsti mældi hiti í byggð þennan mánuðinn.

Úrkoma

Mjög úrkomusamt var í mánuðinum á Austurlandi. Nýliðinn mánuður var t.a.m. næst úrkomusamasti nóvembermánuður í 85 ára langri mælisögu á Dalatanga, þar sem úrkoman mældist 375,5 mm. Úrkoma á Austfjörðum mældist sums staðar vel yfir 600 mm í mánuðinum. Álíka úrkomusamt var á Austfjörðum í nóvember 2014, en árið 2002 mældist töluvert meiri úrkoma í nóvember.

Í Reykjavík mældist heildarúrkoma mánaðarins 76,6 mm, en það er um 89% af meðalúrkomu nóvembermánaða tímabilsins 1991 til 2020. Úrkoma mánaðarins mældist 67,5 mm á Akureyri sem er nærri meðalmánaðarúrkomu nóvember áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældust 31,6 mm og 254,2 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 12 bæði í Reykjavík og á Akureyri. Það er einum degi sjaldnar en í meðalári í Reykjavík en tvisvar oftar en í meðalári á Akureyri.

Snjór

Mánuðurinn var að mestu snjólaus á láglendi.

Alautt var í Reykjavík allan mánuðinn. Að meðaltali 1991 til 2020 er alhvítt 5 daga í Reykjavík í nóvember. Nóvember var síðast alveg snjólaus í Reykjavík árið 2014.

Mánuðurinn var líka alveg alauður á Akureyri en það hefur ekki gerst áratugum saman. Að meðaltali eru 12 alhvítir dagar á Akureyri í nóvember.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 40,8 í nóvember, en það er 1,1 stund yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundir mánaðarins 8,8 sem er 6,4 stundum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var við meðallag áranna 1991 til 2020.

Austlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var 23. og 24. daga mánaðarins (norðaustanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 991,5 hPa og er það 9,5 hPa undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1017,5 hPa á Egilsstaðaflugvelli þ. 13. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 967,4 hPa á Fagurhólsmýri þ.10.

Fyrstu ellefu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu ellefu mánuði ársins var 5,9 stig sem er 0,3 stigum yfir meðallagi janúar til nóvember árin 1991 til 2020 og 0,1 stigi yfir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn raðast í 17. sæti á lista 152 ára. Meðalhiti mánaðanna ellefu var 5,1 stig á Akureyri. Það er hálfu stigi yfir meðallagi 1991 til 2020 og 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Þar raðast meðalhitinn í 9. sæti á lista 142 ára.

Úrkomusamt hefur verið í Reykjavík það sem af er ári, en heildarúrkoma fyrstu ellefu mánaða ársins hefur aldrei mælst meiri í borginni. Í janúar til nóvember mældust 1031,3 mm í Reykjavík sem er 32% umfram meðalheildarúrkomu sömu mánaða árin 1991 til 2020 og 24% umfram meðallag undanfarins áratugar. Á Akureyri mældust 535,5 mm úrkoma mánuðina ellefu, en það er 7% umfram meðallag 1991 til 2020 en um 98% af meðalúrkomu undanfarinna tíu ára.

Haustið (október og nóvember)

Haustið var hlýtt í Reykjavík. Þar var meðalhiti október og nóvember mánaða 5,0 stig, en það er 1,4 stigum hlýrra en að meðallagi 1991 til 2020 og 1,0 stigi yfir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhiti haustsins raðast í 8. sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhiti haustsins 3,5 stig sem er 1,4 stigum hlýrra en að meðallagi 1991 til 2020 og 1,2 stigum yfir meðalhita síðustu tíu hausta. Haustmeðalhitinn raðast í 12. sæti á lista 142 ára á Akureyri.

Samanlögð úrkoma október og nóvember mældist 157,5 mm í Reykjavík. Það er 8,9 mm undir, eða um 95% af, meðallagi áranna 1991 til 2020 en 28,6 mm undir, eða 85% af, meðallagi síðustu tíu ára í Reykjavík. Heildarhaustúrkoman mældist 176,5 mm á Akureyri sem er 24%, eða 34,4 mm, yfir meðallagi 1991 til 2020 og um 20%, eða 29,6 mm, umfram meðallag undanfarins áratugar.

Skjöl fyrir nóvember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica