Tíðarfar í nóvember 2025
Stutt yfirlit
Nóvember var kaldur og þurr um land allt. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á Norðausturlandi. Það var óvenjulega þurrt á Suður- og Vesturlandi, þá sérstaklega fyrri hluta mánaðarins. Norðaustlægar áttir voru tíðar í mánuðinum, en vindur var tiltölulega hægur og tíð góð.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 1,9 stig. Það er 0,4 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,3 stig, 1,9 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 2,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 1,8 stig og -2,1 stig á Egilsstöðum.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.
Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í nóvember 2025.
| stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2015-2024 °C |
| Reykjavík | 1,9 | -0,4 | 68 | 155 | -0,8 |
| Stykkishólmur | 1,8 | 0,0 | 70 | 180 | -0,6 |
| Bolungarvík | 1,0 | -0,4 | 63 til 64 | 128 | -1,1 |
| Grímsey | 0,8 | -1,0 | 84 | 152 | -1,6 |
| Akureyri | -1,3 | -1,9 | 113 | 145 | -2,2 |
| Egilsstaðir | -2,1 | -2,7 | 66 | 71 | -3,1 |
| Dalatangi | 1,6 | -1,4 | 68 | 88 | -1,9 |
| Teigarhorn | 0,9 | -1,6 | 120 | 153 | -2,1 |
| Stórhöfði | 3,8 | 0,3 | 37 | 149 | -0,1 |
| Hveravellir | -5,0 | -1,4 | 42 | 61 | -1,8 |
| Árnes | -0,4 | -1,2 | 91 | 146 | -1,3 |
Nóvember var kaldur á landinu öllu. Að tiltölu var kaldast inn til landsins norðaustanlands, en hlýjast við strendur suðvestan- og vestanlands (sjá mynd 1). Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -3,4 stig í Möðrudal, en jákvætt hitavik var mest 0,1 stig við Bláfjallaskála.

Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í nóvember miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 4,6 stig í Surtsey og á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -5,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -5,8 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 12,9 stig í Skaftafelli þ. 1. Mest frost í mánuðinum mældist -23,9 stig í Möðrudal.
Á mynd 2 má sjá landsmeðalhita hvers dags það sem af er ári 2025, sem vik frá meðalhita síðustu tíu ára. Það var hlýrra en að meðallagi í byrjun mánaðar, en flesta aðra daga var hiti vel undir meðallagi síðustu tíu ára.

Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).
Úrkoma
Nóvember var óvenjuþurr á Suður- og Vesturlandi, þá sérstaklega fyrri helmingur mánaðarins. Það var blautt í upphafi mánaðar á Norður- og Austurlandi en heildarúrkoma mánaðarins var þó víðast hvar vel undir meðallagi.
Það var óvenjuþurrt í Reykjavík. Þar mældist heildarúrkoma mánaðarins 27,3 mm sem er einungis um 30% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Svo lítil úrkoma hefur ekki mælst í nóvembermánuði í Reykjavík síðan 2000. Á Vatnsskarðshólum í Mýrdal mældist mánaðarúrkoman 43,6 mm. Það er aðeins 25% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2000 og minnsta nóvemberúrkoman þar síðan í nóvember 2000, líkt og í Reykjavík. Á Akureyri mældist úrkoman 62,7 mm sem er um 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Mestur hluti úrkomunnar á Akureyri féll um mánaðarmótin okt/nóv og fyrstu daga nóvembermánaðar. Á Dalatanga mældist mánaðarúrkoman 117,6 mm sem er um 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9, sem eru 4 færri en venjulega. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 8 daga, sem eru 2 færri en í meðalári.
Snjór
Það var 1 alhvítur dagur í Reykjavík í nóvember, sem er 4 færri en í meðalári. En um mánaðarmótin okt/nóv leysti upp allan snjóinn sem kyngdi niður á höfuðborgarsvæðinu í lok október. Á Akureyri voru 9 alhvítir dagar í mánuðinum, 3 færri en í meðalári.
Sólskinsstundafjöldi
Í Reykjavík mældust 60,6 sólskinsstundir í mánuðinum sem er 20,9 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundirnar mældust 19,0 á Akureyri sem er 3,8 stundum yfir meðallagi.
Vindur
Nóvember var hægviðrasamur og á landsvísu var vindur 1,5 m/s undir meðallagi. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var þ. 1. (NA-átt) og þ. 30. (A-átt).
Loftþrýstingur
Loftþrýstingur var yfir meðallagi um allt land í mánuðinum. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1007,5 hPa sem er 6,5 hPa yfir meðallagi nóvembermánaða áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1039,5 hPa í Húsafelli þ. 18. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 965,3 hPa í Surtsey þ. 1.
Fyrstu ellefu mánuðir ársins
Meðalhiti fyrstu ellefu mánuði ársins var 6,3 stig í Reykjavík. Það er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti mánaðanna ellefu raðast í 6. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri mældist meðalhiti janúar til nóvember 5,5 stig, sem er 0,8 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 6. hlýjasta sæti á lista 145 ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðanna ellefu 5,9 stig sem er 1,1 stigi yfir meðallagi 1991 til 2020. Þar hafa þessir fyrstu ellefu mánuðir ársins aldrei verið eins hlýir frá upphafi mælinga árið 1845. Þó er munurinn orðinn mjög lítill á efstu sætunum, en næst á eftir 2025 koma fyrstu ellefu mánuðir áranna 2003, 2014, 2016 og 2010.
Heildarúrkoma mældist 848,0 mm í Reykjavík fyrstu ellefu mánuði ársins. Það er um 10% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoman 558,5 mm sem er rúmlega 10% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Haustið (október og nóvember)
Haustið var tiltölulega kalt. Meðalhiti á landsvísu var 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Fyrri helmingur októbermánaðar var mjög hlýr en seinni hluti október og stór hluti nóvembermánaðar voru kaldir.
Meðalhiti haustmánaðanna tveggja í Reykjavík var 3,3 stig sem er 0,3 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti haustsins raðast í 63. til 64. hlýjasta sæti á lista 155 ára. Á Akureyri var meðalhiti haustsins 1,1 stig sem er 1,0 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Haustmeðalhitinn á Akureyri raðast í 95. hlýjasta sæti á lista 145 ára.
Samanlögð úrkoma október- og nóvembermánaða í Reykjavík mældist 177,2 mm sem er um 5% umfram meðalhaustúrkomu áranna 1991 til 2020. Október var mjög blautur í Reykjavík en nóvember óvenjulega þurr. Á Akureyri mældist úrkoma haustsins 108,6 mm sem er um 75% af meðalhaustúrkomu áranna 1991 til 2020.
Það voru 5 alhvítir dagar í Reykjavík þetta haustið, sem er einum færri en í meðalári. Fjórir þessara alhvítu daga í Reykjavík voru í lok október. En það snjóaði óvenjulega mikið í borginni þann 28. október og mældist snjódýptin mest 40 cm að morgni þess 29. október. Það er langmesta snjódýpt sem mælst hefur í októbermánuði í Reykjavík. Á Akureyri voru 20 alhvítir dagar í haustmánuðunum tveimur, sem er fjórum fleiri en í meðalári.
Skjöl fyrir nóvember
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2025 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.



