Fréttir

Tíðarfar í október 2025

Stutt yfirlit

4.11.2025


Októbermánuður var tvískiptur og bauð bæði upp á hlýja og kalda daga. Fyrri hluti mánaðarins var mjög hlýr en seinni hlutinn var kaldur og talsverður snjór var á norðurhluta landsins. Þann 28. snjóaði óvenjumikið á höfuðborgarsvæðinu. Að morgni þess 28. mældist jafnfallinn snjór í Reykjavík 27 cm og þann 29. mældist snjódýptin 40 cm. Það er langmesta snjódýpt sem mælst hefur í októbermánuði í Reykjavík. Snjórinn olli miklum samgöngutruflunum og umferðaröngþveiti í borginni.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í október var 4,7 stig sem er 0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 3,4 stig sem er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,4 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 4,7 stig og 5,1 stig á Höfn í Hornafirði.

Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í október 2025.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2015-2024 °C
Reykjavík 4,7 -0,2 65 til 66 155 -0,7
Stykkishólmur 4,7 0,2 53 180 -0,4
Bolungarvík 4,1 0,4 41 128 -0,3
Grímsey 3,5 -0,3 68 152 -0,9
Akureyri 3,4 -0,1 64 145 -0,4
Egilsstaðir 3,3 -0,5 39 71 -0,9
Dalatangi 5,3 0,3 34 88 -0,4
Teigarhorn 4,9 -0,1 56 153 -0,4
Höfn í Hornaf. 5,1


-0,6
Stórhöfði 5,9 0,4 37 149 -0,1
Hveravellir -0,7 -0,1 30 61 -0,6
Árnes 3,7 -0,1 63 146 -0,5


Meðalhiti mánaðarins var víðast hvar aðeins lægri en að jafnaði undanfarinn áratug (sjá mynd 1). Þegar litið er til síðustu 30 ára var hann þó víða nokkuð nærri meðallagi. Miðað við síðustu tíu ár var jákvætt hitavik mest 0,2 stig á Hólmavík. Neikvætt hitavik var mest -1,3 stig  á Raufarhöfn.



Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 6,9 stig á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægstur mældist hann -1,8 stig í Sandbúðum. Lægsti meðalhiti í byggð mældist -0,6 stig í Svartárkoti.

Októbermánuður var tvískiptur og bauð bæði upp á hlýja og kalda daga (sjá mynd 2). Þannig var meðalhiti mánaðarins ekki fjarri meðallagi. Óvenjuhlýtt var á landinu um miðbik mánaðar. Þann 12. og 14. var sérlega hlýtt á norðausturhorninu og hitinn fór yfir 20 stig á nokkrum stöðvum á Austurlandi og einnig við Sauðanesvita á Norðurlandi. Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,2 stig þ. 12. í Bakkagerði. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á þeirri stöð í októbermánuði, en einnig voru sett sambærileg met á nokkrum öðrum stöðvum á Norður- og Austurlandi.

Kalt var á landinu síðari hluta mánaðar. Kaldast var þ. 30. og þá mældist lægsti hiti sem mælst hefur í október á mörgum sjálfvirkum stöðvum. Lægsti hiti mánaðarins mældist -20,2 stig við Setur sunnan Hofsjökuls. Í byggð mældist hitinn lægstur -19,0 stig í Víðidal í Reykjavík þ. 30.


Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Úrkoma

Október var tiltölulega þurr á Norður- og Austurlandi. Þar rigndi þó talsvert síðasta dag mánaðarins, sérstaklega á Austfjörðum. Mánuðurinn í heild var úrkomusamari á Suðvesturlandi.

Það var sérlega úrkomusamt í Reykjavík. Þar mældist heildarúrkoma mánaðarins 149,9 mm sem er um 90% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Um þriðjungur mánaðarúrkomunnar féll sem snjór í lok mánaðar. Á Akureyri mældist úrkoma mánaðarins 45,9 mm sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 57,2 mm sem er um 85% af meðalúrkomu.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 19 í Reykjavík, sem er sex fleiri en venjulega. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 12 daga sem er einum fleiri en í meðalári.

Snjór

Nokkuð var um að snjór ylli vandræðum í mánuðinum. Þ. 22. var fjallvegum lokað á Norður- og Austurlandi í norðaustan hríð. Þá snjóaði talsvert í þeim landshlutum og þar var víða alhvítt síðari hluta mánaðar.

Jörð var alauð á suðvesturhorninu þar til þ. 26. og sums staðar lengur. Að kvöldi þess 27. tók að snjóa og það kyngdi niður snjó þ. 28., þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þar olli snjórinn miklum samgöngutruflunum og umferðaröngþveiti. Að morgni þ. 28. mældist jafnfallinn snjór í Reykjavík 27 cm og þ. 29. mældist snjódýptin 40 cm. Aldrei áður hefur viðlíka snjódýpt mælst í októbermánuði í Reykjavík, en fyrra met var 15 cm sem mældust þ. 22. október 1921. Einnig snjóaði töluvert á Suðurnesjum, þó ekki eins mikið og á höfuðborgarsvæðinu. Á Keflavíkurflugvelli mældist snjódýptin 18 cm að morgni þ. 28.  Þar hefur snjódýptin mælst mest 25 cm í október 2005.

Jörð var alhvít 4 morgna mánaðarins í Reykjavík. Vanalega er lítill sem enginn snjór í Reykjavík á þessum árstíma og í meðalári er enginn alhvítur dagur þar í október.  Alhvítir dagar voru 11 á Akureyri í mánuðinum, sem er 7 fleiri en í meðaloktóbermánuði árin 1991 til 2020.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir mánaðarins mældust 70,4 í Reykjavík sem er 21,2 stundum undir meðallagi októbermánaða árin 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 60,7 sólskinsstundir, eða 12,8 stundir umfram meðallag.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var 0,4 m/s hægari en að jafnaði árin 1991 til 2020. 

Hvassast var 8. (VSV átt), 22. (NNA átt) og 31. (ANA átt) dag mánaðarins. Þ. 8. fylgdi sjógangur vestan hvassviðri sem gekk yfir sunnan- og vestanvert landið og þ. 22. olli norðaustanhríð nokkru foktjóni og vandræðum á Norður- og Austurlandi. Þ. 31. olli hvassviðri truflunum á bæði vega- og flugsamgögnum og eitthvað var um foktjón.

Loftþrýstingur

Í Reykjavík mældist meðalloftþrýstingur októbermánaðar 1005,7 hPa sem er 1,4 hPa yfir meðallagi októbermánaða árin 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1028,6 hPa í Urriðaholti í Garðabæ þ. 16. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 964,1 hPa í Surtsey þ. 31.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Meðalhiti fyrstu tíu mánuða ársins var 6,7 stig í Reykjavík. Það er 0,9 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti mánaðanna tíu raðast í 4. hlýjasta sæti á lista 155 ára.  Á Akureyri mældist meðalhiti janúar til október 6,1 stig sem raðast 5. hlýjasta sæti á lista 145 ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðanna tíu 6,4 stig sem er 1,2 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020. Þar hafa þessir fyrstu tíu mánuðir ársins aldrei verið eins hlýir frá upphafi mælinga árið 1845.

Heildarúrkoma mældist 820,7 mm í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins. Það er um 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoman 495,8 mm sem er um 15% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2025 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.









Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica