Fréttir
Yfirlitsmynd af GPS mælakerfinu sem er aðgengilegt á jarðhreyfingagátt Veðurstofunnar, aflogun.vedur.is

Truflun í GPS mælaneti Veðurstofunnar

11.7.2025

Síðustu daga hefur truflunar orðið vart í merkjum á GPS mælistöðvum Veðurstofunnar. Sambærileg truflun sést á öllum stöðvum mælakerfisins. Truflunin lýsir sér sem stökk í lóðréttum hreyfingum líkt og um skyndilegt landris væri að ræða.  Þar sem sambærilegt „stökk“ sést á öllum stöðvum er ekki um landris að ræða.

Truflun í gagnastraumum eða mælakerfi Veðurstofunnar hefur verið útilokuð. Um utanaðkomandi truflun er því að ræða og er verið að kanna hver örsökin er. 

Dæmi eru um að sólstormar valdi slíkum truflunum en ólíklegt er að um slíkt sé að ræða nú þar sem ekki mælist mikil aukning í sólstorma virkni.

Skjamynd-2025-07-11-130427_med-kassa

Skjáskot sem sýnir lóðrétt stökk í hreyfingum á GPS mæli (REYK) sem staðsettur er í Háskóla Íslands. Sambærileg „stökk“ í lóðréttri hreyfingu sjást á öllum GPS stöðvum á landinu. https://aflogun.vedur.is/reykjanesskagi

Sólstormur á síðasta ári hafði áhrif á GPS mælingar

Mælingar á landrisi byggja á því að reikna út breytingar á þeim tíma sem það tekur merkið að berast frá gervitunglum sem eru á sveimi umhverfis jörðina í GPS mæla á jörðu niðri. Ef tíminn sem það tekur merkið að ferðast á milli tungls og mælis styttist, þýðir það að land hefur risið. Það eru nokkur atriði sem geta truflað merkið t.d. sólstormar, en ólíklegt er að slíkt valdi trufluninni að þessu sinni.

Í maí varð hinsvegar einn öflugasti segulstormur síðustu ára þegar sólvindar frá stærðarinnar sólblettum á sólinni skullu á jörðinni. Síðast varð svo sterkur segulstormur 30. október 2003.

Sterkir sólvindar senda hlaðnar agnir inn í segulsvið jarðar sem hafa áhrif á merkjasendingar milli GPS mæla á jörðu niðri og gervitungla. Þessi truflun hefur áhrif á ferðatíma merkisins.

Truflanir vegna sólstorma hafa ekki áhrif á getu Veðurstofunnar til að vara við yfirvofandi kvikuhlaupi eða eldgosi.

Graph_inflation_mogi_is_21052024

Hér sést hvernig sólstormurinn í maí 2024 hafði áhrif á líkanútreikninga fyrir kvikusöfnun undir Svartsengi. Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem þá höfðu átt sér stað frá nóvember 2023. Þarna var eins og skyndilega hefði dregið úr kvikusöfnuninni, en það var ekki raunin heldur truflun í GPS merki sem líkanreikningarnir styðjast við.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica