Fréttir
Forsdiumynd-bjolfur
Samsetning á ratsjárkúlu á toppi Bjólfs (Ljósmynd: Njáll Fannar Reynisson/Veðurstofa Íslands).

Unnið að uppsetningu veðursjár á Bjólfi

Veðursjáin er hluti af umfangsmikilli uppbyggingu á veðursjárkerfi til vöktunar á veðri á íslandi og á miðunum í kring um landið

5.9.2023

Veðurstofa Íslands er þessa dagana að koma upp veðursjá á toppi Bjólfs fyrir ofan Seyðisfjörð. Þetta er hluti af uppbyggingu á veðursjárkerfi Íslands sem unnið hefur verið að síðustu ár og er áætlað að ljúki á þessum áratug. Í því felst að bæta mælingar og vöktun á veðri yfir öllu Íslandi og stórum hluta miðana í kring um landið. Veðurstofan hefur verið með tvær veðursjár í rekstri, á Miðnesheiði við Keflavík og á Miðfelli á Fljótsdalsheiði, síðan 2012 og er með áætlun að fjölga þeim í sex á þessum áratug. Á síðasta ári var sett upp ný veðursá á Selfelli á Skaga og nú er verið að endurnýja veðursjá á Austurlandi með uppsetningu á Bjólfi. Eldri veðursjáin var á Miðfelli en ákveðið var að færa hana uppá Bjólf m.a. til að geta betur séð úrkomubakka á Austfjörðum.

20230828_kef_ska_bjo--002-

Hér fyrir ofan sést hve stórt vöktunarsvæði Veðursjáa verður núna í haust eftir uppsetningu Veðursjár á Bjólfi. Litlu hringirnir á myndunum er svæðið sem Veðursjár ná að greina og flokka mismunandi úrkomutegundir en stóru hringirnir er heildardrægni Veðursjár gagnvart úrkomu og magni.

Doppler-radar--003-

Veðursjá er ratsjá og á henni er diskur eða loftnet sem sendir frá sér örbylgjur í allt að 240km fjarlægð frá veðursjánni. Þegar örbylgjurnar komast í snertingu við agnir kemur endurkast frá þeim sem veðursjáin greinir eins og bergmál í helli.

Veðursjár lykilatriði við eldfjallavöktun og fylgjast með úrkomu

Veðursjár spila lykilhlutverki í vöktun veðurs og er ein helsta stoð í rauntímavöktun veðurkerfa og eru öflugustu tækin til mælinga á veðri, vindi og úrkomu á stórum svæðum. Með veðursjánni á Selfelli á Skaga er  hægt að fylgjast betur með úrkomubökkum sem nálgast landið úr norðri hvort heldur úrkoman kemur niður sem snjór eða rigning. Aukin tíðni ákafari úrkomu vegna loftslagsbreytinga gerir hlutverk veðursjáa enn mikilvægara. Ekki má heldur gleyma mikilvægu hlutverki veðursjár við eldfjallavöktun og þá sérstaklega til að fylgjast með dreifingu gosösku í andrúmsloftinu. Enda er það megin ástæða þess að Alþjóðaflugmálastofnunin leggur til mikla fjármuni í þessa uppbyggingu.

20230828_kef_ska_bjo_bol_mel_kla--002-

Hér á myndinni fyrir ofan sést vöktunarsvæði Veðursjáa þegar þær eru orðnar sex talsins sem áætlað er að ljúki á þessum áratug.

Mikil áskorun að reisa veðursjá á fjallstoppi

Verklag-vid-steypuvinnu

Verklag við steypuvinnu á veðursjárturni á toppi Bjólfs. Ljósmynd: Hermann Arngrímsson/Veðurstofa Íslands.

Að koma upp veðursjá á toppi Bjólfs er flókið verkefni því byggja þurfti steinsteyptan sex metra háan turn og flytja allan búnað upp í 1085 metra hæð. Unnið er að þessu verki í góðu samstarfi við verktaka á svæðinu sem þekkja aðstæður vel.

Onnur-mynd-njall

Ljósmynd: Njáll Fannar Reynisson/Veðurstofa Íslands.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica