Fréttir
Eldgos í Grímsvötnum árið 1998. ISVOLC mun m.a. rannsaka áhrif jöklabreytinga á eldvirkni í fjórum eldstöðvakerfum: Grímsvötnum, Bárðarbungu, Kötlu og Öskju. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands / Oddur Sigurðsson)

Verkefni um áhrif hopandi jökla á jarðskjálfta- og eldvirkni hlýtur styrk

Eitt af fjórum verkefnum sem hlutu öndvegisstyrk úr Rannsóknarsjóði

9.2.2023

Jöklar á Íslandi hafa hopað síðan 1890 og líkön af framtíðarþróun þeirra sýna að þeir verða að mestu horfnir innan nokkurra hundraða ára. Það er þekkt að hopandi jöklar hafa mikil áhrif á jarðskorpuna og  valda landrisi, samfara því að breyta kröftum og spennu í jarðlögum. Áhrif þessara breytinga á eldstöðvakerfi geta verið mikil og m.a. valdið því að meiri bergkvika myndist. Eldstöðvakerfi hulin jökli verða fyrir mestum áhrifum, en einnig jarðskorpa utan jökla. Eldvirkni getur aukist, eins og raunin varð í ísaldarlok á Íslandi.

Óvissa ríkir þó um hvort, hvernig og hvenær þessi nýja bergkvika berst til yfirborðs, hvort stöðugleiki kvikuhólfa breytist, hvort jöklarýrnun hafi nú þegar valdið samsöfnun aukinnar kviku í jarðskorpunni, og hvernig breytingar á spennusviði hafa áhrif á bæði eldvirkni og jarðskjálfta.

Dr. Michelle Maree Parks, sérfræðingur í jarðskorpurannsóknum á Veðurstofu Íslands ásamt Freysteini Sigmundssyni, jarðeðlisfræðingi á Norræna eldfjallasetrinu við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, leiða verkefni sem hlaut öndvegisstyrk úr Rannsóknarsjóði til að svara þessum spurningum. Þau munu í samstarfi við stóran hóp samstarfsaðila hérlends og erlendis rannsaka landris vegna jöklabreytinga og hvaða áhrif það hefur á jarðskorpuna, m.a. í fjórum eldstöðvakerfum og á tveimur jarðskjálftasvæðum.

Mikilvægt að skilja áhrif loftslagsbreytinga á eldvirkni og jarðskjálfta

Verkefnið, sem ber heitið ISVOLC mun meðal annars nota ný líkön af jöklabreytingum fyrri alda og sviðsmyndir af áframhaldandi jöklarýrnun til að meta áhrif jöklarýrnunar á jarðskorpuhreyfingar á Íslandi. Nú þegar er landris ríflega 20 mm/ári á stóru svæði í kringum Vatnajökul og hefur áhrif á allt landið. Áhrif þessara breytinga á eldvirkni og jarðskjálftavirkni á Íslandi verða svo metin, til aukins skilnings á náttúruvá. „Með þessum styrk felst mikið tækifæri  til að auka þekkingu okkar á áhrifum loftslagsbreytinga á virkni jarðar. Markmiðið er einnig að meta áhrif hopunar jökla á stöðugleika kvikahólfa, sem mögulega getur þá haft áhrif á vöktun eldstöðva og viðbrögð við eldgosum“, segir Michelle sem leiðir verkefnið fyrir hönd Veðurstofu Íslands. „Þetta er mjög spennandi verkefni og mikilvægt því áhrif loftslagsbreytinga gætir víða í náttúrunni og í raun langt niður í iður jarðar“, segir Freysteinn. Verkefnið eykur enn frekar á samstarf milli Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar HÍ og skapar ný tækifæri fyrir doktorsnema og unga vísindamenn til að taka þátt í því samstarfi.

Verkefnið er til þriggja ára, en styrkupphæð fyrir fyrsta ár verkefnisins sem fékkst úr Rannsóknarsjóði hljóðar upp á rúmar 57 milljónir kr.. Sjóðurinn styrkir verkefni á öllum sviðum vísinda, allt frá styrkjum fyrir doktorsnema til öndvegisstyrkja. Öndvegisstyrkir eru veittir til fárra, stórra verkefna sem skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega tengingu. Alls bárust 20 umsóknir um öndvegisstyrki og voru 4 verkefni styrkt.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica