Fréttir
Leiðangursmenn á Snæfellsjökli við snjóbílinn. (Ljósmynd: Sigrún Tómasdóttir)
Leiðangursmenn á Snæfellsjökli við snjóbílinn. (Smelltu á myndina til að stækka.)

Vetrarafkoma á Snæfellsjökli mæld í fyrsta sinn

Líklegt að jökullinn verði að mestu horfinn um miðja þessa öld

24.4.2019

Vetrarafkoma á Snæfellsjökli var mæld í fyrsta sinn á annan páskadag, 22. apríl. 7 manns fóru á jökulinn á vegum Veðurstofu Íslands, Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og ferðaþjónustunnar Summit Guides. Ekið var frá Gufuskálum upp Eysteinsdal og síðan með snjóbíl upp að Jökulþúfum. Snjókjarni var boraður í um 1350 m hæð sunnan Miðþúfu. Kjarninn var vigtaður, eðlisþyngd hans ákvörðuð og lagskipting skráð. Einnig var hiti snævarins mældur og var innan við 2ja stiga frost í öllu vetrarlaginu.

Sýnileg lagskipting er jafnan notuð til að ákvarða þykkt vetrarlags á ákomusvæðum jökla hérlendis. Vetrarsnjórinn er fremur fínkorna og einkennalítill, en þegar komið er niður í snjó sem féll á haustmánuðum ber oft á haustblotum; þ.e. 1–10 mm þykkum íslinsum sem myndast við bráðnun og frystingu á hlýjum dögum. Svokölluð hausthvörf (sjá mynd hér að neðan) eru svo við neðra borð vetrarlagsins, þar skilur milli vetrarsnævarins og grófara hjarns frá fyrra vetri, sem þiðnað hefur og ummyndast um sumarið. Slík hausthvörf voru nokkuð greinileg á 4.6 m dýpi í kjarnanum. Ekki sást þó neitt vindborið ryk í hausthvörfunum, svo sem algengt er á meginjöklum miðhálendisins.

Brot úr kjarnanum sem fékkst úr Snæfellsjökli.

Brot úr kjarnanum sem fékkst úr Snæfellsjökli.

Afkoman þrefalt meiri en láglendisúrkoman

Vatnsgildi vetrarafkomunnar reiknaðist 2600 mm. Sé borið saman við úrkomutölur frá veðurstöðvum umhverfis jökulinn þá mældist t.d. meðal-ársúrkoma á Gufuskálum tæpir 1000 mm á árabilinu 1971–1993 en um 1400 mm á Arnarstapa 1961–1981. Ef gert er ráð fyrir að vetrarúrkoman sé um 2/3 ársúrkomunnar fást um 670 mm á Gufuskálum og um 940 mm á Arnarstapa, þ.e. að meðaltali nálægt 800 mm á láglendi umhverfis Snæfellsjökul. Hin mælda afkoma vetrarins 2018–19 nálægt tindi jökulsins er því rúmlega þrefalt meiri en láglendisúrkoman og er niðurstaðan í allgóðu samræmi við reiknaða afkomu úr Harmonie-veðurlíkaninu.

Til samanburðar má nefna að meðaltal vetrarafkomu á hábungu Hofsjökuls er um 3000 mm (í 1790 m hæð), á Mýrdalsjökli er meðaltalið um 5600 mm (um 1400 m hæð) og í 2000 m hæð á Öræfajökli mældist hún um 5700 mm í vorferð Jöklarannsóknafélagsins 2018.

Full ástæða til að mæla afkomu Snæfellsjökuls reglulega

Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur í jöklarannsóknum á Veðurstofunni, hefur mælt afkomu fjölda jökla á Íslandi og var einn leiðangursmanna á Snæfellsjökul. „Niðurstöður þessara mælinga koma okkur svo sem ekkert á óvart, en vissulega höfum við ekki samanburð úr öðrum mælingum á jöklinum þar sem þetta er sú fyrsta. Það væri hinsvegar full ástæða til að reyna að fjármagna reglulegar afkomumælingar á Snæfellsjökli,til að auka enn þekkingu okkar á viðbrögðum íslensku jöklanna við loftslagsbreytingum og ekki síður vegna þess að jökullinn hefur öðlast frægð í máli og myndum."

Tómas Jóhannesson, fagstjóri á sviði jöklarannsókna á Veðurstofunni, mundar kjarnaborinn í 1400 m hæð neðan Miðþúfu á Snæfellsjökli.  (Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson)

Tómas Jóhannesson, fagstjóri á sviði jöklarannsókna á Veðurstofunni, mundar kjarnaborinn í 1400 m hæð neðan Miðþúfu á Snæfellsjökli.  (Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson)

Önnur hola var boruð í um 1000 m hæð í norðurhlíðum Snæfellsjökuls og var vetrarlagið þar rúmlega 4 m þykkt og vatnsgildið 2250 mm. Þar liggja oft skaflar sumarlangt og var borað í eldra hjarni niður á 7 m dýpi.

Snæfellsjökull hefur rýrnað mjög í hlýnandi loftslagi síðustu áratuga og er flatarmál hans nú minna en 10 km2, en var um 22 km2 árið 1910. Jökullinn er að jafnaði aðeins um 30 m þykkur og er talið líklegt að hann verði að mestu horfinn um miðja þessa öld.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica