Fréttir

Viðbúnaðarstig vegna flugs hækkað úr grænu í gult fyrir Grímsvötn

Almannavarnarstig hefur ekki verið hækkað

30.9.2020

Virkni í Grímsvötnum hefur farið hægt vaxandi undanfarin misseri.  Því hefur Veðurstofa Íslands hækkað viðbúnaðarstig fyrir flug úr grænu í gult . Flestar mælingar sem gerðar eru til að vakta Grímsvötn sýna meiri virkni umfram það sem skilgreint er sem bakgrunnsvirkni eldstöðvarinnar. Mælingar nú eru að nálgast þau gildi sem sáust fyrir eldgosið 2011:

  • Skjálftavirkni síðasta mánuðinn hefur mælst vel yfir meðallagi
  • Jarðhitavirkni hefur farið vaxandi síðustu mánuði, sem sést á dýpkandi jarðhitakötlum í og við Grímsvatnaöskjuna.
  • GPS stöð á Grímsfjalli sýnar að þensla (kvikuþrýstingur) er komin að eða yfir þau mörk sem þau voru í fyrir eldgosið 2011.
  • Gasmælingar frá því í sumar benda til þess að kvika sé nálægt yfirborði.

Þessu til viðbótar fer vatnshæð í Grímsvötnum ört vaxandi og er áþekk því sem hún var skömmu fyrir Grímsvatnahlaupin 2004 og 2010. Það er því líklegt að hlaup úr Grímsvötnum hefjist á næstu mánuðum. Eldgos í Grímsvötnum koma stundum í lok jökulhlaupa samfara þrýstingslétti vegna lækkunar vatnsborðs og eru því taldar nokkrar líkur á að þrýstingsléttir í vötnunum samfara jökulhlaupi komið af stað gosi. Gos gæti einnig hafist án jökulhlaups sem fyrirvara.

Litakóði fyrir flug lýsir ástandi eldfjalla

Breyting á litakóða fyrir flug þýðir ekki að eldgos sé yfirvofandi, en líkur á að gos hefjist á næstu mánuðum fara hækkandi. Litakóðinn er í samræmi við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og gefur flugmönnum, almenningi og flugmálayfirvöldum upplýsingar um ástand eldfjalla. Litur hverjar eldstöðvar er í stöðugri endurskoðun og er honum breytt til að endurspegla stöðuna á hverjum tíma. Hann hefur verið notaður þónokkrum sinnum á síðustu árum. Nú síðast á Reykjanesi í janúar 2020, fyrir Öræfajökul 2017, Kötlu 2016 og Bárðarbungu 2014-2015 í tengslum við eldgosið í Holuhrauni. Hæst hefur litakóðinn farið í appelsínugult og rautt í tengslum við eldgosið í Holuhrauni. Nánar má lesa um litakóðann hér.

Almannavarnir funda reglulega með Veðurstofunni og eru upplýstar um stöðu mála. Enn sem komið er, þá hefur ekki verið talin ástæða til þess að breyta almannavarnastigi vegna Grímsvatna.

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica