Fréttir
Thumbnail_cap_Big

Viðvörun á viðvörun ofan

Áhugaverðar hliðar viðvörunakerfis Veðurstofunnar

18.2.2020

Viðvörunarkerfi Veðurstofunnar byggist á alþjóðlegum staðli sem kallast CAP (Common Alerting Protocol) og er fyrir miðlun neyðartilkynninga og viðvarana um náttúruvá. Hvert CAP skeyti inniheldur upplýsingar um þá náttúruvá sem varað er við, landshlutann sem viðvörunin nær til, gildistíma og mat á því hversu mikil áhrif umrædd vá getur haft á samfélagið.

Þegar mikið gengur á eins og í fárviðrinu sem geisaði í síðustu viku, þá geta margar viðvaranir verið í gildi fyrir sama spásvæðið. Eins er mögulegt að gefin sé út viðvörun fyrir fleiri en eina náttúruvá í einu innan sama spásvæðis.


Gott dæmi eru viðvaranir fyrir Suðausturland. Rauð viðvörun vegna ofsaveðurs og stórhríðar er í gildi frá kl. 6-11. Gul eldingaviðvörun gildir frá kl. 10-14. Appelsínugul viðvörun vegna stórhríðar frá kl. 11-13 og svo að lokum gul viðvörun vegna sunnan hvassviðris og slyddu frá kl. 13-22.

Táknin yfir spásvæðinu í myndinni hér að ofan sýna þannig rauða viðvörun vegna vinds og stórhríðar, gula eldingaviðvörun og svo gula viðvörun vegna vinds.

Thumbnail_capture_14022020Tölurnar í litlu yfirlitsmyndinni fyrir viðvaranir sem er efst í hægra horninu á vedur.is tákna þann fjölda viðvarana sem gefinn hefur verið út fyrir hvert svæði. Þegar þetta skjáskot var gert stendur talan 7 yfir einum fjórðungi landsins. Það þýðir að á þessum tímapunkti var búið að gefa út 2 viðvaranir fyrir höfuðborgarsvæðið, tvær fyrir Faxaflóasvæðið og 3 fyrir Suðurland, samtals 7 viðvaranir fyrir þann fjórðung landsins.

Og nú ættu allir að vera tilbúnir í næsta skammt af lægðum!

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica