Fréttir
ljósmynd
Sýni tekið í lóni við Kvíárjökul 18. nóvember 2017.

Niðurstöður úr gögnum

20.11.2017

Á samráðsfundi í dag var farið yfir stöðu mála og vöktun vegna Öræfajökuls rædd. Á fundinum voru sérfræðingar á Veðurstofunni og hjá Háskóla Íslands og fulltrúar Almannavarna.

Enn er verið að vinna úr gögnum og sýnum sem safnað var um helgina og má búast við niðurstöðum fyrir lok vikunnar. Áætlað er að setja upp síritandi mælitæki næstu daga en slæm veðurspá getur sett strik í reikninginn. Fram að því verður fylgst reglulega með ám sem renna frá Öræfajökli. Veðurstofan er með sólarhringsvakt þar sem fylgst er með jarðskjálftamælum.

Fundur í Vísindaráði almannavarna 21.11.2017

Vísindaráð almannavarna hittist til þess að ræða mælingar og vöktun vegna Öræfajökuls.
Kynntar voru niðurstöður úr mælingum á vatnssýnum sem tekin voru um helgina úr ám sem renna frá Öræfajökli.  Þær voru bornar saman við mælingar sem framkvæmdar voru 1988.  Í ljós kom að það vatn sem kemur fram í Kvíá er blanda bræðslu- og jarðhitavatns.  Ekki sjást greinileg merki um kvikugös í vatninu.  Af því má draga þá ályktun að stækkun á sigkatlinum í Öræfajökli stafi af aukinni jarðhitavirkni.

Aukin jarðhitavirkni getur stafað af meiri lekt og sprungumyndun í jarðhitakerfinu samfara jarðskjálftum og/eða auknum hita í jarðhitakerfinu tengt grunnstæðu kvikuinnskoti.
Vegna illviðris næstu daga hafa áætlanir um uppsetningar á síritandi mælitækjum riðlast, en þau verkefni verða kláruð um leið og tækifæri gefst. Fram að því verða gerðar reglulegar handvirkar mælingar á ám sem renna frá Öræfajökli. Mikilvægt er að fylgjast áfram vel þróun mála í eldstöðinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica