Fréttir
Yfirlitskort_Joklar_Islands_v3
Yfirlitskort yfir jökla Íslands

Yfirlit um íslenska jökla í árslok 2021

Afkoma íslensku jöklanna hefur verið neikvæð síðan árið 1995 með einni undantekningu 

13.7.2022

Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver skýr­asti vitnis­burð­ur  hérlendis um hlýn­andi loftslag. Á árinu 2021 hopuðu jökul­sporðar víða um tugi metra en nokkrir brattir skriðjöklar gengu fram, mest Morsárjökull sem gekk fram um meira en 100 m. Af þeim jöklum sem mældir eru af sjálf­boða­lið­um Jöklarannsóknafélags Íslands hop­aði Skeiðarárjökull mest eða um 400 m þar sem mest var við austanverðan sporðinn en þar slitnaði sporðurinn frá dauðísfláka. Breiðamerkurjökull hopaði víða um eða yfir 150 m þar sem kelfir af hon­um í Jökulsárlón. (Sjá nánari upplýsingar á nýrri íslenskri jöklavefsjá.) Þetta kemur fram í nýútkomnu fréttabréfi á vegum verkefnisins „Hörfandi jöklar“. Verkefnið er samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs, fjármagnað af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, og unnið í samvinnu við Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans og Náttúrustofu Suðausturlands.

KB-LMI_Fjallsjokull_1988_Labeled-version-2KB-LMI_Fjallsjokull_2021_Labeled-version-2

Flugsýn af tungu Fjallsjökuls 1988 og 2021. Myndirnar byggja á ljósmyndum sem teknar voru úr flugvél 1988 og flygildi 2021 og landlíkönum sem reiknuð voru á grundvelli myndanna og sýna vel hörfun jökuljaðarsins og lækkun yfirborðs jökulsins á rúmlega 30 ára tímabili. (Myndvinnsla: Kieran Baxter, Háskólanum í Dundee.)

Afkoma ársins 2021

Afkoma stærstu íslensku jöklanna hefur verið nei­kvæð síðan 1995 með einni undantekningu, afkoma ársins 2015 var jákvæð í fyrsta sinn í 20 ár. Árið 2016 mældist afkoman aftur neikvæð eins og flest undan­farin ár og einnig fyrir Langjökul og Hofsjökul árið 2017 en Vatnajökull var þá nærri því að vera í jafnvægi. Allir þrír jöklarnir voru nærri jafnvægi 2018. Sumur hafa verið nokkuð hlý síðan 2018 og hefur afkoma allra þriggja jöklanna mælst neikvæð síðan þá. Jökl­arnir hafa alls tapað um 250 km3 íss síðan 1995 sem er um 8% af heildarrúmmáli þeirra. (Sjá nánari upplýsingar á nýrri íslenskri jöklavefsjá.)

Lhv-mb-til-2021-rb

Árleg og uppsöfnuð afkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls frá upphafi mælinga á hverjum jökli samkvæmt gögnum Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Þessir jöklar geyma yfir 95% af rúmmáli íss í jöklum landsins. Taflan sýnir vatnsgildið, þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn sem hann tapar/græðir á ári hverju.

Mýrdalsjökull hefur rýrnað um u.þ.b. 5 km3 síðan 2010 og yfirborð hans lækkað um 9 m að meðaltali

Íslensku jöklarnir eru kortlagðir reglulega til þess að fylgjast með rýrnun þeirra. Síðsumars 2021 voru Vatnajökull, Langjökull og Mýrdalsjökull kortlagðir með gervihnattamælingu og sýnir meðfylgjandi kort hæðarbreytingu yfirborðs Mýrdalsjökuls á tímabilinu 2010 til 2021. Á þessu tímabili lækkaði yfirborð neðanverðs leysingarsvæðisins víða um meira en 30 m og hann tapaði samanlagt um 5 km3 íss. Ofarlega á ákomusvæðinu hækkaði yfirborði hins vegar víðast um nokkra metra. Meðallækkun jökulyfirborðsins er um 9 m yfir þetta árabil. Nánar má fræðast um samband jökla og loftslags á fræðsluvef Vatna­jökuls­þjóðgarðs um jökla- og loftslagsbreytingar Hörfandi jöklar og á nýrri íslenskri jöklavefsjá islenskirjoklar.is.

Myrdalsjokull_geodiff_lidar2010_pleiades2021_v2

Breyting á hæð yfirborðs Mýrdalsjökuls skv. kortum sem byggð eru á leysimælingum úr flugvél (2010) og á ljósmyndum Pléiades gervihnatta (2021). (Pléiades © CNES (2021), Distribution AIRBUS DS. Kort: Maud Bernat.)

Nálgast má fréttabréfið í heild sinni hér.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica