Laus störf

Sumarstörf á Veðurstofunni

Átak félagsmálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar

Veðurstofa Íslands tekur þátt í átaki félagsmálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar um að bjóða sumarstörf fyrir námsmenn. Alls eru 31 störf í boði á Veðurstofunni í sumar fyrir námsmenn sem eru á milli anna í háskólanámi sínu og eru 18 ára á árinu eða eldri. Miðað er við að ráðningartímabilið sé um það bil tveir mánuðir.

Störfin eru fjölbreytt og tilheyra öllum sviðum Veðurstofunnar. Hér fyrir neðan er stutt lýsing á störfunum og hvaða svið þau tilheyra.

Sækja þarf um störfin á vef Vinnumálastofnunar.

Umsóknarfrestur er til og með 8. júní 2020.

Störf á Úrvinnslu- og rannsóknasviði

Störfin eru fjölbreytt og henta þeim sem stunda nám á sviði raunvísinda, tölvunar- eða verkfræði. Sum starfanna gera kröfu um tölvufærni, góða þekkingu á R og tölulegri úrvinnslu gagna. Eins geta störfin hentað þeim sem eru stunda grunn- eða meistaranám á sviði náttúruvísinda.

Í boði eru 9 störf:

 • Þróun gaseftirlitskerfis
 • Aðstoð við þróun gasmælitækja
 • Úrvinnsla á vindsjárgögnum
 • Aðstoð við þróun á rauntímaeftirlitskerfi til að sannreyna veðurspár
 • Útfærsla á aðferðum við mat á breytingum á sjávarflóðahættu
 • GIS úrvinnsla á gögnum yfir manngerðar breytingar á vatnsfarvegum
 • Gagnasöfnum vegna hættumatsverkefna
 • Innsetning gagna um íslensk gjöskulög í ASKA-Gagnagrunninn
 • Þróun og uppsetning á sjálfvirkri úrvinnslu og myndvinnsluferli fyrir samfelld GPS gögn

Nánar um þessi störf á vef Vinnumálastofnunar

Störf á Athugana- og tæknisviði

Störfin eru fjölbreytt og henta þeim sem stunda nám í tölvunarfræði eða verkfræði. Umsækjendur þurfa í einhverjum tilfellum að hafa töluverða tölvuþekkingu s.s. í SQL python- og vefforritun. Önnur störf eru tækifæri fyrir þá sem stunda nám í náttúruvísindum og hafa áhuga á veðurfræði, mælitækni og jafnvel sagnfræði.

Í boði eru 5 störf:

 • Þróun eftirlitskerfa, kortlagning samskiptaleiða
 • Vefforritun vegna eftirlitskerfa fyrir mælikerfi
 • Skönnun og stafræn skráning vatnshæðarmæligagna
 • Skráning og úrvinnsla veðurathuganna.
 • Skráningar í tækja- og stöðvagagnagrunn

Nánar um þessi störf á vef Vinnumálastofnunar

Störf á Eftirlits- og spásviði

Störfin eru fjölbreytt og henta þeim sem stunda nám í tölvunarfræði eða hugbúnaðarverkfræði. Önnur störf henta nemum í jarðeðlisfræði sem kunna forritun t.d. í Python og C forritun og þekkja tímaraðir. Eins er að finna starf sem henta þeim stunda stunda nám í félagsfræði og/eða tungumálum.

Í boði eru 5 störf:

 • Breyta, bæta og hanna nýja forritunareiningu fyrir jarðskjálftaóróa
 • Gufusprengingar rýndar í jarðskjálftagögnum
 • Útfærsla á leiðbeiningum um náttúruvá á Íslandi fyrir nýbúa í samvinnu við Rauða Krossinn og Almannavarnir
 • Greining á áhrifum litakóðaðra veðurviðvarana og viðhorfskönnun meðal íbúa ofanflóðasvæða
 • Þróun smáforrits (App) fyrir flugmenn

Nánar um þessi störf á vef Vinnumálastofnunar

Störf á Upplýsingatæknisviði

Störfin henta þeim sem stunda nám í kerfis-, tölvunar- eða verkfræði.

Í boði eru 2 störf:

 • Ýmis verkefni er tengjast upplýsingatækni, þróun hugbúnaðar og kerfisreksturs
 • Sérfræðingur í notendaþjónustu

Nánar um þessi störf á vef Vinnumálastofnunar

Starf á Snjóflóðasetri Veðurstofunnar á Ísafirði

Starfið hentar þeim sem stunda nám í náttúruvísindum, t.d. jarð- eða landafræði. Viðkomandi þarf að hafa gott vald á íslensku og góð kunnátta í LUK (GIS) er æskileg.

 • Úrvinnsla og skráning ofanflóðagagna

Nánarum þetta starf á vef Vinnumálastofnunar

Störf á Skrifstofu forstjóra

Annað starfið hentar þeim sem stunda nám í hugvísindum eða á sviði mannauðstjórnunar. Hitt starfið hentar þeim sem stunda nám í upplýsinga-, skjala-, eða safnfræði.

Í boði eru 2 störf:

 • Greining mannauðstengdra upplýsinga
 • Vinna við skjala- og bókasafn Veðurstofunnar

Nánar um þessi störf á vef Vinnumálastofnunar

 


Nýjar fréttir

Jarðskjálftavirknin við Fagradalsfjall fer dvínandi

Jarðskjálftavirknin við Fagradalsfjall hefur farið dvínandi frá því að kröftug hrina hófst þar þann 18. júlí. Úrvinnsla gervihnattagagna frá 18. til 20. júlí hefur leitt í ljós skýr merki um yfirborðsbreytingar  sem samsvarar hér um bil 3 cm færslu um sprungu sem liggur í NA-SV rétt við Fagradalsfjall. Þessi sprunga kom í ljós í skjálftahrinu árið 2017 sem átti sér stað á sama svæði. Hrinan, sem nú er í gangi, er túlkuð sem hluti af lengri atburðarrás sem hófst á Reykjanesskaganum í enda árs 2019 og hefur náð allt frá Eldey fyrir vestan, og að Krýsuvík fyrir austan.

Lesa meira

Jarðskjálftahrina við Fagradalsfjall

Jarðskjálftahrina hófst við Fagradalsfjall 19. júlí um kl 1:30. Yfir 1700 jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu síðan. Stærsti skjálftinn varð í gærkvöldi kl 23:36 og var hann 5,1 að stærð. Fjölmargir eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið, stærstu eftirskjálftarnir voru 4,6 að stærð kl 05:46 og 5,0 að stærð kl 06:23 í dag, þann 20. júlí. Að auki hafa 22 jarðskjálftar stærri en 3 að stærð mælst eftir miðnætti. Tilkynningar hafa borist um að stærstu skjálftarnir hafi fundist frá Akranesi í vestri allt að Vík í austri. Jarðkjálftahrinan er enn yfirstandandi.

Lesa meira

Tíðarfar í júní

Hlýtt var á landinu í júní og tíð hagstæð. Hlýjast var á Norðausturlandi en tiltölulega svalara suðvestanlands. Vindur og úrkoma voru víðast hvar nærri meðallagi.


Lesa meira

Jarðskjálftahrina enn í gangi

Óvissustig Almannavarna á Norðausturlandi vegna jarðskjálftahrinunnar sem hófst 19. júni er enn í gildi. Á meðan hrinan stendur yfir eru auknar líkur á stórum jarðskjálftum á brotabeltinu norðan við land og áfram talin hætta á grjóthruni og skriðum úr bröttum hlíðum. Því er mikilvægt að fólk sem er að ferðast um brattlendi sé meðvitað um hrun- og skriðuhættu og takmarki tíma sinn undir bröttum hlíðum,  sér í lagi á þekktum skriðusvæðum. Í einstaka tilfellum fylgir fljóðbylgja stærri skjálftum og því er mikilvægt að fólk haldi sig fjarri strönd og höfn í nokkrar klukkustundir eftir stærri jarðskjálfta.

Lesa meira

Jarðskjálftahrina 20 km norðaustur af Siglufirði

Fréttin er uppfærð

Jarðskjálftahrina hófst um miðjan dag, 19. júní, um 20 km NA af Siglufirði þegar mældust 7 skjálftar af stærð M3-M3,8. Klukkan 15:05, 20. júní varð skjálfti af stærðinni M5,3 á svipuðum sloðum og honum hafa fylgt margir eftirskjálftar, þar af um 20 skjálftar af stærð M3,0 – 4,1. Skjálftavirknin er á  mótum Eyjafjarðaráls og Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins.

Lesa meira
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica