Veðurstofa Íslands 90 ára
afmælisfundur
Hluti gesta á afmælisfundi Veðurstofunnar.

Afmælisfundur Veðurstofunnar 2010

Veðurstofa Íslands 90 ára

Jóhanna Margrét Thorlacius 15.12.2010

Afmælisfundur Veðurstofu Íslands var haldinn á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu hinn 14. desember 2010. Um 150 manns sátu fundinn sem hófst með ávarpi umhverfsiráðherra, Svandísar Svavarsdóttur. Síðan flutti Árni Snorrason ágrip úr sögu stofnunarinnar (glærur pdf 5,0 Mb). Eftir það voru flutt sex erindi um loftslagsrannsóknir.

Eftir hádegishlé ávarpaði Ögmundur Jónasson samgönguráðherra fundinn og síðan voru flutt fimm erindi um eldgosavöktun og eldgosarannsóknir. Sveinbjörn Björnsson dró saman helstu niðurstöður fundarins og Árni Snorrason flutti stutt lokaorð. Að því loknu var móttaka í boði Veðurstofunnar.

Ávarp umhverfisráðherra
ráðherra í ræðustól
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti ávarp í upphafi afmælisfundarins. Ljósmynd: Snorri Zóphóníasson.

Hér á eftir fer umsögn Sveinbjörns Björnssonar um erindi afmælisfundarins. Sveinbjörn veitti Veðurstofunni góðfúslega leyfi til þess að birta samantekt sína og eru honum færðar bestu þakkir fyrir.

Loftslagsrannsóknir

Haraldur Ólafsson: Loftslagsreikningar fyrir Ísland og hin Norðurlöndin

Haraldur greindi frá líkanreikningum og klasaspám um loftslag á Íslandi og hinum Norðurlöndunum, sem byggðu á hugsanlegum breytingum í veðurfari. Búist er við tæplega 2 gráðu hækkun í hita á næstu 60 árum, einkum á vetrum, og dálítilli úrkomuaukningu, en um hvort tveggja ríkir þó veruleg óvissa. Þétting möskva í líkaninu úr 27 km í 3 km gefur töluverða aukningu í fjölda daga með aftakaúrkomu, sérstaklega í fjalllendi Íslands og Noregs.

Veðurtengdir atburðir, svo sem ísing eða snjóflóð, sem eru háðir fleiri en einum þætti veðurs, geta breyst með ýmsum hætti og m.a. verið mjög háðir hæð yfir sjó.

Sten Bergström: Nordic-Baltic hydropower in a new climate - highlights from the hydrological modelling and statistics groups of the CES project

Sten lýsti niðurstöðum sem fengist hafa innan norræna verkefnisins „Loftslag og orkukerfi“ um framleiðslugetu vatnsafls á Norðurlöndum og í baltnesku löndunum. Vatnafræðilíkön sem bera saman mismunandi spár um loftslagsbreytingar hafa aukið skilning á því hvaða áhrif breytt loftslag gæti haft á framleiðslugetu, rekstur miðlunarlóna og öryggi stíflna. Tímaraðir fyrir hugsanlegar loftslagsbreytingar voru bornar saman við gögn frá árabilinu 1961-90 og tölfræðileg greining gerð á hneigð og ýtrustu gildum. Niðurstöður benda til mikillar óvissu um áhrif mismunandi loftslagsbreytinga. Framleiðslugeta vatnsorkuvera mun aukast og stærð hámarksflóða breytast. Stærð flóða fer eftir samspili úrkomu og snjóbráðnunar og því fæst ekkert eitt svar við því hvaða áhrif hlýnun loftslags hefur á hámarksflóð. Þess vegna verður að bera saman mismunandi spár um loftslagsbreytingar og meta óvissu í forsögn þeirra.

Nils Erik Clausen: Wind energy challenges in the Nordic region

Nils Erik fjallaði um vindorku á Norðurlöndum. Hann dró saman helstu niðurstöður norræna verkefnisins „Loftslag og orkukerfi“ um áhrif loftslagsbreytinga á óvenjulegan vindhraða (50 ára vind) í Norður Evrópu.

Í öðru lagi lýsti hann sérstöku norrænu verkefni IceWind sem miðar að því að þróa og auðvelda tengingu vindraforku við orkukerfi Norðurlandanna. Kannað er

  1. hvar á landi er hætta á ísingu á vindmyllum, gerðar spár um ísingu og framleiðslutap af hennar völdum
  2. hvernig tengja megi raforku framleidda með vindi við orkukerfi á Íslandi
  3. virkjun vindorku á hafi, spár um vind, ölduhæð og öryggi í aðkomu að slíkum aflstöðvum.

Meginmarkmið verkefnisins er að miðla þekkingu milli Norðurlandanna og átta sig á því hvaða þættir hægja á eða koma í veg fyrir að vindorka verði marktækur þáttur í norrænu orkukerfi.

Tómas Jóhannesson: Íslenskir jöklar á tímamótum. Áhrif loftslagsbreytinga á jökla og afrennsli frá þeim á næstu öld

Tómas ræddi um áhrif loftslagsbreytinga á jökla og afrennsli frá þeim á næstu 100-200 árum. Gangi sú spá eftir að veðurfar hlýni næstu öldina munu jöklar hér á landi hopa jafnt og þétt og hverfa að mestu á þessum árum eins og flestir aðrir jöklar utan Suðurskautslandsins og Grænlands. Íslenskir jöklar geyma sem svarar 20 ára úrkomu á landið allt. Aukin jökulleysing og aukning á rennsli jökuláa sem af henni hlýst verður ein mikilvægasta afleiðingin af völdum hlýnandi veðurfars hér á landi. Mælingar og rannsóknir á jöklum eru með markverðasta framlagi Íslendinga og annarra Norðurlandaþjóða til umhverfisvísinda. Dæmi um það er nýtt áhugavert verkefni SVALI sem Tómas lýsti. Glærur erindisins (pdf 7,7 Mb) má skoða hér á vefnum en þær voru með enskum texta vegna erlendra áheyrenda. Einnig myndaröð (pdf 5,0 Mb) sem sýnir hörfun Langjökuls og Hofsjökuls.

Úlfar Linnet: Áhrif loftslagsbreytinga á rennsli og nýtingu virkjana

Úlfar lýsti áhrifum loftslagsbreytinga á rennsli vatnsfalla og nýtingu þess í virkjunum. Með hlýnandi veðurfari og auknu rennsli vatnsfalla eykst rennslisorka innan virkjanakerfis Landsvirkjunar. Mestu munar um aukið rennsli í jökulám, en einnig eru breytingar eftir árstíðum. Snjór bráðnar fyrr á vorin, rennsli í byrjun sumars er minna, en verður verulega hærra í lok sumars. Lítil vetrarflóð verða algengari. Vinnslugeta rafstöðva Landsvirkjunar mun aukast um 8,5% á næstu 40 árum og enn meira ef virkjanir eru lagaðar að breyttum aðstæðum. Mikilvægt er að taka tillit til þessara breytinga við hönnun nýrra virkjana, í áætlanagerð og rekstri.

Birger Mo: Climate change consequenses for the Nord Pool electricity system

Birger gerði grein fyrir áhrifum loftslagsbreytinga á norrænan raforkumarkað. Líkt var eftir hegðun áætlaðs kerfis raforkumarkaðar árið 2020 með loftslag á árabilinu 1961-90 sem viðmiðun. Einnig var prófuð hegðun kerfisins miðuð við tvær tilgátur um breytt loftslag á árunum 2021 til 2050. Niðurstöður benda til þess að virkjanlegt meðalrennsli aukist um 10-12%, að mestu vegna aukins vetrarrennslis. Raforka frá vatnsafli á norræna raforkumarkaðnum er talin aukast um 9-10% en rennsli á yfirfalli um 35-40%, einkum á vetrum.

Í heild má segja að þessum erindum beri vel saman um hvers er að vænta í vatnsorku og vindorku með hlýnandi veðurfari hér og á öðrum Norðurlöndum.

Árni Snorrason og Ögmundur Jónasson
Árni Snorrason og Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson samgönguráðherra ávarpaði fundinn eftir hádegishlé. Hér ræðir hann við Árna Snorrason, forstjóra Veðurstofunnar. Ljósmynd: Snorri Zóphóníasson.

Eldgosavöktun og eldgosarannsóknir

Sigrún Karlsdóttir: Eldgos í Eyjafjallajökli - hlutverk Veðurstofu Íslands

Sigrún ræddi um eldgosið í Eyjafjallajökli og hlutverk Veðurstofu Íslands í rannsókn og vöktun þess. Þar nýttust jarðskjálftamælar, þenslumælar, GPS færslumælar og vatna- og flóðamælar vel en aðaltækið við vöktun á gosmekkinum var veðursjáin á Miðnesheiði. Auk þess gögnuðust athuganir úr flugvélum mjög vel til að sannreyna veðursjárgögnin. Eldinganemar og mælitæki í loftbelgjum hjálpuðu einnig til að meta hæð gosmakkarins.

Ratsjá flugvélar Landhelgisgæslunnar var mikilvæg til að greina virkni undir skýjum. Myndir úr gervihnöttum voru notaðar til að fylgja gosmekkinum eftir og meta dreifingu ösku. Þá nýttust veðurathuganir og mælingar á öskufalli til að fylgja eftir dreifingu öskunnar innanlands. Gögnin sem safnað var gefa góða mynd af gangi gossins en ekki virðist vera einfalt samband milli gosvirkni gígsins og hæðar gosmakkarins. Útdrátt erindisins má lesa á enskum vef Veðurstofunnar.

Steinunn S. Jakobsdóttir: Vöktun á jarðvá með sérstöku tilliti til eldgosa

Steinunn greindi frá vöktun á jarðvá með sérstöku tilliti til eldgosa. Veðurstofan er ábyrg fyrir eftirliti með jarðvá og rekur til þess ýmis eftirlitskerfi svo sem SIL jarðskjálftamælanetið, GPS stöðvar sem fylgjast sífellt með landfærslum, þenslumæla í borholum og vatna- og flóðamæla í ám. Þegar eldgos er hafið nýtast einnig veðursjá og eldingamælar til vöktunar. Það er mikill styrkur í því fólginn að hafa alla þessa þætti innan sömu stofnunar. Aðdragandi eldgosa er mjög mismunandi eftir eldfjöllum. Í Heklu er hann 1-2 klukkustundir í skjálftavirkni, í Grímsvötnum 1-1 ½ ár og hann var alla vega 16 ár í Eyjafjallajökli. Skoða má glærur erindisins hér á vefnum (pdf 6,2 Mb).

Guðrún Nína Petersen: Gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli og samskipti hans við andrúmsloftið

Guðrún Nína ræddi um gosmökkinn úr Eyjafjallajökli og samskipti hans við andrúmsloftið. Þetta var miðlungsgos og umtalsvert öskufall varð aðeins á litlum hluta landsins. Gosmökkurinn náði sjaldan upp fyrir veðrahvörf. Háloftavindar báru þó ösku yfir Bretlandseyjar og meginland Evrópu, og helstu flugleiðir á Atlantshafi og hún olli þar mestu röskun á flugumferð síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta vakti margar spurningar um mat á framleiðslu ösku og eldfjallaryks í miðlungsstórum sprengigosum og áhrif háloftavinda á dreifingu gjósku undan vindi. Lesa má útdrátt erindisins.

Vegna óreglu í hegðan gossins varð einnig ljóst hve mikilvægt er að vakta framleiðslu eldfjallsins og endurmeta stöðugt styrk gossins og gjóskuframleiðslu þess. Slík vitneskja er nauðsynleg fyrir líkön sem eiga að spá um dreifingu öskunnar. Stöðugleiki umlykjandi lofthjúps er mikilvægur fyrir hraða á innblöndun lofts á hliðum makkar og sterkir háloftavindar draga úr hæð makkarins. Til þess að bæta spár um flutning gjósku langar leiðir er ljóst að gera þarf betri athuganir á gosmekkinum og umlykjandi lofthjúpi hans.

Í grein eftir Guðrúnu, sem stuðst var við við gerð þessarar samantektar, nefndi hún að aska getur orðið á sveimi og valdið vanda á svæðinu á næstu árum. Það er því mikilvægt að fylgjast með og spá fyrir hvenær slík aska getur valdið heilsuvanda fyrir menn og skepnur. Nákvæm líkangerð og auknar eftirlitsmælingar geta þess vegna verið nauðsynleg.

Ármann Höskuldsson: Öskudreif frá eldgosi í Eyjafjallajökli 2010

Ármann fjallaði um gjósku í eldgosunum á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli. Á Fimmvörðuhálsi var kvikan basísk og þar myndaðist gjóska á tvennan máta, í fyrsta lagi við gígana vegna afgösunar kvikunnar og í öðru lagi þegar hraun runnu ofan í gil og blönduðust snjó. Bæði ferlin mynda frekar grófa og þunga gjósku sem berst ekki langt frá upptökum.

Í Eyjafjallajökli var kvikan í fyrstu ísúr og þá myndaðist gjóska fyrst og fremst sökum sundrunar á kvikunni sjálfri vegna útlosunar eldfjallaeims í gosrás. Þar sem efnasamsetning kvikunnar í Eyjafjallajökli var breytileg á meðan á eldgosinu stóð breyttist gjósku-samsetningin líka. Þannig fór ferlið frá því að mynda gjósku í gosrás, er síðar var mulin enn frekar sökum hraðkælingar, í að mynda gjósku í gosstrók, keimlíka þeirri er myndaðist á Fimmvörðuhálsi og aldrei komst í snertingu við utanaðkomandi vatn.

Gjóskudreif frá Eyjafjallajökli barst um allt land, utan Vestfjarða, og allt til Evrópu. Þrátt fyrir tiltölulega lágan gosmökk barst askan þetta víða, enda var kornastærð svo fín að gjóskan gat haldist á lofti í allt að 4-7 daga. Heildarrúmmál gjósku er upp kom í eldgosi Eyjafjallajökuls er nálægt 0,27 km3 og af því munu hafa farið um 0,12 út fyrir landsteinana. Dagana 14. til 17. apríl ruddust upp um 35% allrar gjósku er kom upp á 39 dögum eldgossins. Heildarrúmmál gosefna frá Eyjafjallajökli var um 0,17 km3 reiknað sem ígildi hrauns en gossins á Fimmvörðuhálsi um 0,1 km3.

Oddur Sigurðsson: Flóðavöktun og jökulhlaup - Eyjafjallajökull

Oddur ræddi flóðavöktun og jökulhlaup í ljósi gossins í Eyjafjallajökli. Mikilvæg reynsla kom á viðvörunarkerfið þegar gosið hófst. Þar, sem og í Öræfum, eiga jökulhlaup styttri og brattari leið í byggð en annars staðar á landinu og því var þörf fumlausra viðbragða. Jökulhlaup samfara gosinu voru stundum með feikn af gjósku, jökum og krapi og komu mjög snögglega fram. Önnur voru að langmestu leyti vatn og brennheit. Sum runnu undir jöklinum alla leið frá eldstöðvunum og komu fram undan jökuljaðrinum en önnur brutu sér leið upp í gegnum jökulinn á leið niður hlíðar eldfjallsins og runnu ofan á jöklinum drjúgan hluta leiðar sinnar niður fjallið.

Mælitæki og búnaður Veðurstofunnar og Landhelgisgæslunnar gegndu lykilhlutverki við að stýra viðbúnaði almannavarna og annarra yfirvalda við hættunni sem stóð af þessum hlaupum. Rík ástæða var til að koma upp viðvörunarkerfi, sem varar við vatnavöxtum, svo sem gert hefur verið á Veðurstofu Íslands. Um leið og vart verður óvenjulegrar vatnsborðshækkunar, óeðlilegs hita í vatni eða að rafleiðni vatns eykst til muna, hringja viðvörunarbjöllur. Þannig fæst nokkurra klukkustunda eða jafnvel meira en sólarhrings forskot til að bregðast við yfirvofandi vá. Útdrátt erindisins má lesa annarsstaðar á vefnum.

Fleiri afmælisgreinar

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.

Gestir á afmælisfundi
veðurfræðingar sem alþjóð þekkir
Þór Jakobsson veðurfræðingur og Páll Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóri, ræða saman. Guðrún Nína Petersen veðurfræðingur og Esther Hlíðar Jensen landfræðingur til hægri. Ljósmynd: Snorri Zóphóníasson.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica