Þjónusta

Þjónusta Veðurstofu Íslands

„Veðurstofa Íslands gerir veðurspár fyrir Ísland og skilgreind hafsvæði umhverfis landið og sendir út sérstakar viðvaranir um yfirvofandi óveður. Einnig sér stofnunin um flugveðurþjónustu á flugvöllum og á flugleiðum í samræmi við óskir flugmálayfirvalda og samkvæmt alþjóðlegum reglum og samþykktum.“ (Úr reglugerð um starfsemi Veðurstofu Íslands nr. 367/1996.)

Stofnunin vaktar hættu á snjóflóðum, vatnsflóðum, aurskriðum, jarðskjálftum, eldgosum, hlaupum, sjávarflóðum og ísingu, svo og hafísútbreiðslu og sendir út viðvaranir og upplýsingar til að draga úr hættu á manntjóni og öðrum skaða.

„Stofnunin veitir almenningi, atvinnulífi og stjórnvöldum ráðgjöf og þjónustu þar sem sérþekking hennar kemur að notum s.s. vegna skipulagsmála, mannvirkjagerðar, ofanflóðavarna og áætlanagerðar.“ (Úr reglugerð um starfsemi Veðurstofu Íslands nr. 367/1996.)

Grunnþjónusta

„Veðurstofa Íslands skal inna af hendi grunnþjónustu með því að:

  • veita öryggisþjónustu vegna veðurs á landi, í lofti og á legi;
  • miðla rauntímagögnum og sjá um að gerðar séu almennar veðurspár eins og þær eru skilgreindar á hverjum tíma fyrir Ísland og umhverfi þess;
  • veita veðurþjónustu fyrir flugvelli og flugumferð í samræmi við lög, fyrirmæli stjórnvalda og samkvæmt alþjóðlegum reglum og samþykktum;
  • veita öryggisþjónustu vegna veðurtengdra þátta; e. veita aðra þá grunnþjónustu sem ráðherra ákveður eða samið er um í alþjóðlegum samningum.“ (Lög um veðurþjónustu nr. 142/2004, 6. gr.)

Viðvaranir

„Veðurstofu Íslands er skylt að gefa út viðvaranir um yfirvofandi hættu af völdum veðurs og veðurtengdra þátta eftir því sem tilefni er til hverju sinni og í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir.“ (Lög um veðurþjónustu nr. 142/2004, úr 9. gr.)

„Stofnunin annast gerð hættumats vegna snjóflóðahættu og hættu á jarðskjálftum auk hættumats á hverri þeirri náttúruvá sem stofnuninni er ætlað að vakta.“ (Úr reglugerð 367/1996 um Veðurstofu Íslands, 4. gr.)

Stofnunin sendir út viðvaranir um yfirvofandi hættu bæði til almennings og almannavarnayfirvalda. Veðurstofa Íslands skal m.a., að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefnd, gefa út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsa yfir hættuástandi. Skal fólk þá flytja eða það flutt á brott úr öllu húsnæði á svæði eða svæðum, sem tilgreind skulu í viðvörun Veðurstofunnar, í samræmi við gildandi neyðaráætlun. Þetta þjónustuhlutverk Veðurstofunnar á sér ekki hliðstæðu, að því best er vitað um verkefni veðurstofa í heiminum.

Gagnaaðgengi

Veðurstofan veitir almenningi opið aðgengi að gögnum eftir því sem við verður komið.

Vottorð

Veðurvottorð eru oft notuð í bæði einkamálum og sakamálum alls konar. Algengast er að um tryggingatengda atburði sé að ræða. Veðurstofan gefur út vottorð um veðurathuganir og veðurspár. Þessi þjónusta er gjaldskyld. Greitt er grunngjald, en auk þessa er lagt á viðbótargjald eftir umfangi vottorðsins. Fyrirspurnir og beiðnir um veðurvottorð skal senda á netfangið: fyrirspurnir (hjá) vedur.is og skal þá fylgja nafn, heimilisfang og kennitala beiðanda.

Vindrósir

Vindafar getur verið staðbundið og áhugavert að þekkja vindafar á ákveðnu svæði. Hjá Veðurstofu Íslands er hægt að kaupa vindrósir sem lýsa tíðni vindátta á ákveðnum stað. Beiðni skal senda á netfangið fyrirspurnir (hjá) vedur.is. Gjald fyrir venjulega einfalda vindrós er kr. 7.000 en sé viðbótarvinnu þörf er innheimt sérstaklega fyrir hana skv. gjaldskrá fyrir tímavinnu.

Sérþjónusta

Veðurstofa Íslands veitir margs konar sérþjónustu, bæði veðurfræðilega og á sviði jarðvísindalegra verkefna sem eru á forræði stofnunarinnar. Stofnunin annast stakar rennslismælingar og rekstur vatnshæðarmæla með tilheyrandi síritum víða um land. Þessi sérþjónusta er að jafnaði veitt gegn greiðslu. Til þessarar þjónustu telst margs konar ráðgjöf, úrvinnsla, uppsetning og rekstur mæla og mælistöðva, hættumat vegna náttúruhamfara, umsagnir, t.d. vegna umhverfismats o.fl. Þegar um er að ræða þjónustu á samkeppnismarkaði er hún veitt á forsendum jafnræðis gagnvart einkareknum fyrirtækjum og öðrum ríkisveðurstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Gögn í eigu stofnunarinnar eru ekki seld nema sem nemur afhendingarkostnaði.

Stofnunin veitir svokallaða iframe-þjónustu og XML-þjónustu við afhendingu veðurgagna. Veðurstofan annast mengunarmælingar, bæði vegna eigin rannsókna og vegna þjónustu við alþjóðastofnanir og erlenda háskóla sem vilja safna gögnum hér á landi.

Vottun

Uppfærðar upplýsingar um vottun er að finna á sérstakri vefsíðu.

Eldri upplýsingar um vottun

Öll veðurspástarfsemin var gæðavottuð í júní 2007 af bresku gæðavottunarstofnuninni BSI samkvæmt alþjóðlega gæðastaðlinum ISO 9001. Hálfu ári fyrr var veðurþjónusta við flugið gæðavottuð. Leggur stofnunin áherslu á að öll þjónusta lúti skilgreindum og skilvirkum verkferlum og að veðurþjónustan uppfylli þær gæðakröfur sem til hennar eru gerðar. Reglubundnar mælingar á gæðum veðurspáa er hluti af þeirri viðleitni.

Þá voru vatnamælingar, jarðváreftirlit og ofanflóðavöktun gæðavottuð í júní 2012. Nýtt vottunarskjal var gefið út í kjölfarið. Markmið Veðurstofunnar er að gæðavottun taki til allar starfsemi stofnunarinnar 2016.


Nýjar fréttir

MEDiate verkefnið á lokametrunum – alþjóðlegt samstarf um áhættustjórnun náttúruvár

Evrópska rannsóknarverkefnið MEDiate er komið á lokametrana eftir þriggja ára samstarf 18 aðila frá sjö Evrópulöndum. Verkefnið miðar að því að þróa nýjar aðferðir til áhættustjórnunar vegna náttúruvár og var nýlega haldin vinnustofa á Veðurstofu Íslands með fulltrúum frá íslenskum og breskum þróunarhópum.

Lesa meira

Talsverð óvissa um tímasetningu á næsta mögulega gosi á Sundhnúksgígaröðinni

Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram og nú er talið að safnast hafi 6–7 milljón rúmmetrar af kviku frá síðasta gosi. Óvissan er þó mikil, þar sem bæði magn kviku og lengd kvikusöfnunartímabila hafa verið breytileg í fyrri gosum. Vöktun og viðbragð miðast við að gos geti hafist hvenær sem er og fyrirvarinn gæti orðið mjög stuttur. Nýtt hættumat gildir til 16. september og er áfram talin nokkur hætta á og við nýju hraunbreiðuna. Lesa meira

Tíðarfar í ágúst 2025

Ágúst var hlýr, þá sérstaklega síðari hluti mánaðarins. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi. Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 16. og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Talsvert hvassviðri var á sunnan- og vestanverðu landinu um verslunarmannahelgina.

Lesa meira

Minnkandi skriðuhætta og skúrir

Úrkoma hefur minnkað á Austfjörðum eftir tvo úrkomusama daga og engar fregnir hafa borist af skriðuföllum. Sjatnað hefur í lækjum og ám og spáð er skúrum næstu daga en ekki samfelldri úrkomu. Með minnkandi vatni í jarðvegi dregur úr skriðuhættu, þótt líkur á skriðuföllum fylgi áfram úrkomu víða um land.

Lesa meira

Tíðarfar það sem af er ári: Hlýindi, met og sögulegar hitatölur

Árið 2025 hefur hingað til einkennst af sögulegum hlýindum og nýjum hitametum. Maí var sá hlýjasti frá upphafi mælinga með tíu daga hitabylgju og nýtt landsmet, 26,6°C á Egilsstaðaflugvelli. Vorið var jafnframt það hlýjasta sem skráð hefur verið og júlí jafnaði metið frá 1933 sem hlýjasti júlí á landsvísu. Í ágúst mældist 29,8°C á Egilsstaðaflugvelli sem er hæsti hiti á landinu í nærri 80 ár og fyrstu sjö mánuðir ársins í Stykkishólmi voru þeir hlýjustu í 180 ára sögu mælinga þar í bæ. Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna, fer yfir helstu tíðindi á árinu hingað til. Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica