Þjónusta

Þjónusta Veðurstofu Íslands

Veðurstofa Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 70/2008 um Veðurstofu Íslands.

Verkefni stofnunarinnar samkvæmt 3. gr. laganna eru meðal annars að:

  1. að annast vöktun vegna náttúruvár og gefa út viðvaranir og spár um yfirvofandi hættu af völdum veðurs og veðurtengdra þátta, jarðskjálfta, eldgosa, hlaupa, vatnsflóða og ofanflóða;
  2. að sjá um rekstur veðurfræðilegra grunnkerfa og annast veðurþjónustu, sbr. lög um veðurþjónustu;
  3. að annast almennar kerfisbundnar vatnamælingar í ám, stöðuvötnum, lónum, strandlónum, strandsjó og grunnvatni, þ.m.t. mælingar á rennsli, vatnshæð, vatnshita, aurburði og öðrum eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum vatns;
  4. að annast mælingar á snjóalögum og jöklabúskap og kortlagningu á ísalögum fallvatna og stöðuvatna;
  5. að annast mælingar á hvers kyns jarðhræringum, jarðspennu, kvikuhreyfingum og hægum jarðskorpuhreyfingum, auk þess að safna upplýsingum um eldgos og öskufall;
  6. að gera athuganir og mælingar á mengun í lofti, úrkomu og vatni;
  7. að annast langtímarannsóknir á vatnsauðlindinni, eðli hennar og skilyrðum til nýtingar samkvæmt samningi við viðeigandi stjórnvöld;
  8. að annast skráningu, varðveislu og miðlun gagna á starfssviði stofnunarinnar;
  9. að kortleggja veðurfar landsins og fylgjast með loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á þá þætti náttúrunnar sem stofnunin á að vakta;
  10. að kortleggja stöðuvötn og vatnsfarvegi landsins og gera vatnafars- og flóðakort;
  11. að kortleggja jarðskjálftavirkni landsins og fylgjast með breytingum á jarðskjálftavirkni;
  12. að sinna verkefnum á sviði ofanflóðavarna, sbr. lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum;
  13. að vinna hættumat vegna náttúruhamfara að beiðni almannavarnayfirvalda eða annarra stjórnvalda;
  14. að vinna að rannsóknum á starfssviðum stofnunarinnar er hafi það að höfuðmarkmiði að auka þekkingu á ýmsum eðlisþáttum lofts, láðs og lagar, auka þekkingu á vatnafari, veðurfari og jarðskjálftavirkni landsins, bæta þjónustuna og auka hæfni stofnunarinnar til að láta í té upplýsingar í þágu atvinnulífs, öryggismála, sjálfbærrar nýtingar auðlinda og annarra þarfa landsmanna;
  15. að annast samskipti við Alþjóðaveðurfræðistofnunina og önnur milliríkjasamskipti innan verkahrings stofnunarinnar;
  16. að vera ráðuneytinu og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni á verksviði stofnunarinnar;
  17. önnur verkefni sem ráðherra felur stofnuninni sérstaklega.

Gjaldskrá Veðurstofu Íslands

1. gr.
Gjald fyrir útselda vinnu sérfræðings.

Veðurstofa Íslands innheimtir gjald samkvæmt gjaldskrá fyrir þau verkefni og þjónustu sem stofnuninni eru falin í lögum og reglugerðum og sem heimilt er að taka gjald fyrir. Gjald fyrir hverja klukkustund skal vera eftirfarandi án vsk:

a.      Fyrir sérfræðinga I kr. 33.800,-

b.      Fyrir sérfræðinga II kr. 30.400,-

c.      Fyrir sérfræðinga III kr. 28.000,-

d.      Fyrir sérfræðinga IIII kr. 25.100,-

e.      Fyrir sérfræðinga V kr. 20.100,-

2. gr.
Ferðakostnaður

Veðurstofa Íslands innheimtir ferða- og uppihaldskostnað í samræmi við útlagðan kostnað stofnunarinnar þó aldrei meira en sem nemur viðmiðum í gildandi auglýsingu ferðakostnaðarnefndar fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

3. gr.
Tæki og búnaður

Veðurstofa Íslands innheimtir kostnað vegna notkunar á tækjum og búnaði sem þarf til að vinna verkefni eða veita þjónustu.

 

 

Gjaldskráin gildir frá 1.01.2025

 




Nýjar fréttir

GNSS-stöð sett upp á Gleiðarhjalla fyrir ofan Ísafjörð með aðstoð Landhelgisgæslunnar

Veðurstofan hefur sett upp nýja GNSS gervihnattastaðsetningarstöð á Gleiðarhjalla fyrir ofan Ísafjörð. Stöðin er knúin af sól og vindi og mun fylgjast með hreyfingum í lausum jarðlögum til að auka skilning á skriðuvirkni á svæðinu. Uppsetningin er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem felur einnig í sér greiningu gervitunglagagna og árlega myndatöku með flygildi.

Lesa meira

Snjókoma á Suðvesturlandi – veðurspár og óvissa

Óvenjulegt veður í byrjun vikunnar olli metsnjókomu á höfuðborgarsvæðinu og víðar á Suðvesturlandi. Snjódýpt í Reykjavík mældist 40 cm að morgni 29. október, sem er mesta dýpt sem mælst hefur í október frá upphafi mælinga. Veðurfræðingar uppfærðu spár í rauntíma eftir því sem veðrið þróaðist. Næstu daga er spáð bjartviðri suðvestantil en hvassviðri og rigningu austanlands um helgina.

Lesa meira

Mesta snjódýpt í Reykjavík í október frá upphafi mælinga

Morgunmælingar Veðurstofunnar sýna að snjódýptin í Reykjavík mældist 27 sentímetrar þann 28. október 2025. Það er mesta snjódýpt sem mælst hefur í höfuðborginni í október frá upphafi mælinga árið 1921.

Lesa meira

Appelsínugular viðvaranir vegna mikillar snjókomu á suðvesturhorni landsins

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular veðurviðvaranir vegna mikillar snjókomu og skafrennings á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðurlandi síðar í dag.
Gera má ráð fyrir talsverðum samgöngutruflunum og erfiðri færð, sérstaklega þegar líður á daginn og fram á kvöld. Fólk er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám, tryggja öryggi á ferðum og leggja fyrr af stað heim ef ferðast þarf yfir Hellisheiði eða Reykjanesbraut þar sem snjókoman gæti aukist hratt síðdegis. Lesa meira

Um 14 milljón rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi frá síðasta eldgosi

Um 14 milljónir rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi frá síðasta eldgosi. Út frá fyrri atburðum á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar jafn mikið af kviku hefur safnast fyrir undir Svartsengi og hljóp út í síðasta atburði.
Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og verður óbreytt til 11. nóvember nema ef virkni breytist.

Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica