Júní 1998
Mánuðurinn var í þurrara lagi um mestallt landið. Fremur hlýtt var suðvestanlands en annars kalt.
Meðalhiti í Reykjavík var 10,1 stig eða 1,1 stigi yfir meðallagi. Mánuðurinn er hlýjasti júní síðan 1966. Á Akureyri var meðalhitinn 7,9 stig og er það 1,2 stigum undir meðallagi, álíka kalt var 1994. Á Hveravöllum var meðalhitinn 5,7 stig.
Úrkoman í Reykjavík mældist 25mm og er það helmingur meðalúrkomu. Þurrara varð í júní 1991. Á Akureyri mældist úrkoman 9,1mm og er það tæpur þriðjungur af meðallagi. Nokkuð oft hefur orðið álíka þurrt eða þurrara í júní á Akureyri, síðast 1991. Í Akurnesi mældist úrkoman 59mm og 113 á Hveravöllum. Ekki hefur nema einu sinni mælst meiri úrkoma á Hveravöllum í júnímánuði, það var 1974.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 272. Það er 111 stundum umfram meðallag. Í júní 1991 mældust sólskinsstundirnar 295. Á Akureyri mældust 205 sólskinsstundir eða 28 umfram meðallag, en 204 á Hveravöllum.