Árið 2001

Trausti Jónsson 9.1.2007

Árið 2001 var fremur hlýtt og hagstætt, ívið hlýrra en árið 2000 og um meginhluta landsins var það hið hlýjasta frá 1991 en árið 1987 var nokkuð hlýrra. Meðalhiti í Reykjavík á nýliðnu ári var 5,2°C, 0,9°C yfir meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn um 4,2°C og er það einnig 0,9°C ofan meðallags. Meðalhiti á Hveravöllum var 0,0°C og er það 1,0° ofan við meðallag. Í Akurnesi var meðalhitinn 4,9°C.

Úrkoma í Reykjavík mældist 792mm og er það nánast í meðallagi, á Akureyri mældist úrkoman í rétt tæpu meðallagi, 471mm, meðallagið er 489mm. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1389 og er það um 121 stund yfir meðallagi, þetta er álíka og var árið 2000. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1061 eða í rétt rúmu meðallagi, sem er talsvert minna en árið 2000.

Í janúar var mjög hlýtt og hagstætt veðurlag nema fyrstu dagana. Fyrstu vikuna var farið að bera á vatnsskorti sums staðar um vestanvert landið. Lengst af var óvenju snjólétt og samgöngur greiðar.

Í febrúar var tíðarfar víðast talið allgott þó vindasamt væri um tíma. Mjög snjólétt var á landinu miðað við árstíma. Tíð var einnig nokkuð góð í mars og í heildina var mánuðurinn sólríkur og úrkoma var fremur lítil um sunnanvert landið. Apríl var talinn hagstæður þó kalt væri framan af en upp úr miðjum mánuði hlýnaði. Lítið var um stórviðri og vindar voru fremur hægir. Sólríkt var á sunnanverðu landinu. Hlýtt var framan af maí en kalt síðari hlutann. Talsvert hret gerði um miðjan mánuð.

Júní var þurr og sólríkur en í svalara lagi, en tíð var lengst af talin fremur hagstæð. Heldur kalt var fram til 20. en eftir það komu allmargir góðir dagar. Óvenju þurrt var víða við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Norðaustanlands var mikill snjór í fjöllum eftir veturinn en óvenju lítill um vestanvert landið.

Tíð var hæglát í júlí, en lítið var um mjög hlýja daga og mikið var um síðdegisskúrir, einkum inn til landsins. Heyskapur gekk því misjafnlega en spretta var almennt mjög góð. Ágúst og september voru hagstæðir mánuðir í flestum landshlutum. Víða austanlands voru heyþurrkar þó daufir og nokkuð var úrfellasamt. Mjög hlýtt var lengst af í október og ekki kólnaði svo nokkru nam fyrr en þ. 25.

Nóvember var fremur umhleypingasamur en þegar á heildina er litið var hlýtt og vætusamt. Kalt var fram undir þ.10. en þá var vonskuveður um allt land. Eftir það voru talsverð hlýindi þar til undir lokin að gerði snarpt kuldakast og festi snjó víða um land og var snjór sunnanlands óvenju mikill um tíma.

Eftir vindasama daga í upphafi mánaðarins gerði óvenjulega veðurblíðu og hlýindi sem stóðu fram undir jól. Að kvöldi 13. komst hámarkshiti á Sauðanesvita við Siglufjörð í 18,4°C og er það mesti hiti sem mælst hefur í desember hér á landi. Jóladagana kólnaði mjög og var verulegt frost á landinu milli jóla og nýjárs. 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica