Febrúar 2002

Trausti Jónsson 9.1.2007

Nýliðinn febrúarmánuður var kaldur. Sólríkt og fremur úrkomulítið var um sunnanvert landið. Fyrstu helgi mánaðarins gerði mikið norðanveður sem olli tjóni allvíða um vestan- og norðvestanvert landið og samgöngutruflunum víða um land. Að öðru leyti var veðráttan tiltölulega meinlítil miðað við árstíma þó tímabundinnar ófærðar hafi gætt síðar í mánuðinum.

Meðalhitinn í Reykjavík var -3,3 stig. Þetta er lægsti meðalhiti í febrúar frá 1935 að telja. Febrúar 1989 og 1969 voru þó litlu hlýrri en febrúar nú. Febrúar 1935 og 1931 voru aðeins litlu kaldari en nú og þarf að fara allt aftur til ársins 1892 til að finna áberandi kaldari febrúar, en þá var meðalhitinn í Reykjavík -4,8 stig. Meðalhiti á Akureyri var nú -5,0 stig. Mánuðurinn er kaldasti febrúar frá 1973, en þá varð lítillega kaldara en nú á Akureyri, en nokkru kaldara var 1969. Meðalhiti í Akurnesi var -2,3 stig og er það hið lægsta í febrúar frá 1969 á þeim slóðum, en þá var nokkru kaldara en nú. Á Hveravöllum var meðalhitinn -10,3 stig, hinn sami og 1969.

Úrkoman í Reykjavík mældist 42 mm og er það um 60% af meðallagi. Þetta er þurrasti febrúar í Reykjavík frá 1995. Á Akureyri mældist úrkoman 84,4 mm og er það nærri tvöföld meðalúrkoma. Úrkoma var þar meiri í febrúar fyrir 2 árum en nú. Í Akurnesi mældist úrkoman 81,8 mm og 71,3 mm á Hveravöllum.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 108 eða 56 umfram meðallag, ekki hafa jafn margar sólskinsstundir mælst í febrúar í Reykjavík síðan 1966 en þá voru þær 9 fleiri en nú. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 26 og er það 10 stundum undir meðallagi. Sólskinsstundir mældust 82 á Hveravöllum, hið mesta frá 1977.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica