Maí 2003

Trausti Jónsson 9.1.2007

Fyrstu 6 daga mánaðarins var mjög kalt í veðri, en upp frá því var hiti oftar ofan meðallags en neðan þess. Hiti mánaðarins í heild var nákvæmlega í meðallagi í Reykjavík, 6,3 stig, en 5,2 stig á Akureyri og er það 0,3 stigum undir meðallagi. Meðalhiti í Akurnesi var 5,6 stig, en 1,7 á Hveravöllum. Meðalhiti í Reykjavík var nánast hinn sami og í apríl og á Akureyri var 0,4 stigum kaldara í maí en í fyrra mánuði. Apríl hefur ekki verið hlýrri en maí á Akureyri síðan 1979 og í Reykjavík hefur munurinn aðeins nokkrum sinnum verið jafnlítill á hita mánaðanna, síðast vorið 1955. Í Reykjavík var vorið það hlýjasta frá 1974 og sjötta hlýjasta vor frá upphafi mælinga. Á Akureyri var vorið það hlýjasta frá 1988. Úrkoma í Reykjavík mældist 40mm og er það um 10% undir meðallagi, á Akureyri mældist úrkoman 21mm sem er um 10% umfram meðallag. Í Akurnesi mældist úrkoman 71mm en aðeins 9mm á Hveravöllum. Svo þurrt hefur ekki verið á Hveravöllum í maí frá 1983.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 283 og hafa ekki orðið svo margar í maí síðan 1967, á Akureyri mældust 215 sólskinsstundir, flestar í maí frá 1988. Á Hveravöllum mældist sólskin í 262 klst og var maí hinn sólríkasti þar frá 1969.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica