Júní 2003

Trausti Jónsson 9.1.2007

Júnímánuður var hlýr um allt land og var víða mjög vætusamt á sunnan- og austanverðu landinu.
Meðalhitinn í Reykjavík var 11,3° sem er 2,3° yfir meðaltali áranna 1961-1990. Álíka hlýtt var í júní 1941 en þá voru mælingar gerðar á þaki Landssímahússins við Austurvöll. Flutningur stöðvarinnar skapar nokkra óvissu þegar þessi tvö meðaltöl eru bornin saman. Hitafarið í Reykjavík var óvenju jafnt í mánuðinum. Lægsti lágmarkshiti sem mældist í Reykjavík var 7,1 og hefur hann aldrei verið jafn hár áður. Á Akureyri var meðalhitinn 10,6° sem er 1,5° yfir meðallagi.

Úrkoman í Reykjavík var sú þriðja mesta síðan mælingar hófust. Mældust 85,0 mm sem er um ¾ hlutar umfram meðallag. Árið 1969 mældist júní úrkoman mest, 94,6 mm, og næst mest árið 1936, 91,4 mm. Á Akureyri var úrkoman í tæpu meðallagi, 25,6 mm.
Sólskinsstundir í Reykjavík voru 146,0 sem er 15 stundum færra en venja er. Á Akureyri voru sólskinsstundir 151,1 sem er 26 færri en venja er.
Á Hveravöllum var meðalhitinn 7,6° sem er það mesta síðan mælingar hófust þar árið 1966. Úrkoman mældist 53,6 mm og sólskinsstundir 176,9.
Í Akurnesi var meðalhitinn 9,9° og úrkoman þar mældist 155 mm. Þar hefur ekki mælst meiri úrkoma í júní síðan mælingar hófust fyrir rúmum áratug en hlýrra var í Akurnesi í fyrra og árið 1995.
Það sem af er árinu hefur verið hlýtt. Meðalhitinn í Reykjavík fyrstu 6 mánuðina er 5,1° sem er það þriðja hæsta síðan mælingar hófust. Hlýrra var á sama tímabili árið 1964, 5,8°, og árið 1929, 5,5°.
Á Akureyri er árið einnig það þriðja í röðinni með 4,3°. Hlýrra var þar 1964, 4,6°, og árið 1974, 4,4°. 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica