Ágúst 2003

Trausti Jónsson 9.1.2007

Nýliðinn ágústmánuður var óvenju hlýr um land allt. Í Reykjavík var hann sá hlýjasti síðan samfelldar og samanburðarhæfar mælingar hófust 1871. Meðalhiti var 12,8°C og er það 2,5°C yfir meðallagi áranna 1961-1990. Næsthlýjastur var ágúst 1880 með 12,4°C. Á Akureyri var meðalhitinn einnig 12,8°C og er það 2,8°C yfir meðallagi. Á Akureyri er vitað um einn hlýrri ágúst, það var 1947 en meðalhiti þá var 13,2°C. Ómarktækur munur er á ágúst nú og ágúst 1939 og 1936, en samfelldar mælingar á Akureyri hófust 1881. Í Akurnesi var meðalhitinn 12,3°C en á þeim stað hefur aðeins verið mælt í rúm 10 ár. Á Hveravöllum var meðalhitinn 9,8°C, þar hefur hitinn ekki orðið hærri í ágúst og aðeins einu sinni í júlí, 1991. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að mánuðurinn sé hlýjasti ágúst í Stykkishólmi, þar var byrað að mæla 1845 og var næsthlýjast í ágúst 1880 eins og í Reykjavík. Í Vestmannaeyjum er mánuðurinn einnig hinn hlýjasti frá upphafi mælinga 1877 (1880 næsthlýjastur). Í Bolungarvík var álíka hlýtt í ágúst 1947 og á Raufarhöfn hlýrra en nú bæði 1939 og 1947 og á Dalatanga var ívið hlýrra 1947 og 1955 en nú.
Úrkoma í Reykjavík mældist 76 mm og er það um 20% umfram meðallag, á Akureyri mældist úrkoman 38 mm og er það um 10% umfram meðallag. Í Akurnesi mældist úrkoman 123 mm og 59mm á Hveravöllum.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 158 og er það í meðallagi, en á Akureyri mældust sólskinsstundirnar aðeins 110 og er það 26 stundum minna en í meðalári.
Mánuðirnir júní til ágúst eru samtals þeir hlýjustu í Reykjavík frá upphafi mælinga (12,1°C), næst koma sömu mánuðir 1880 og 1939 með 11,7° og 11,6°C. Á Akureyri voru þessir mánuðir heldur hlýrri 1933 en nú og svipaðir 1955, 1976 og 1984 en öll þau sumur var stöðug rigning um sunnanvert landið.

 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica