Apríl 2004

Guðrún Þ. Gísladóttir 3.1.2007

Tíðarfar í nýliðnum apríl var hagstætt um land allt. Meðalhiti í Reykjavík var 5,2 stig og er það 2,3 stigum ofan meðallags. Þó hlýtt sé, er þetta 1 stigi kaldara en var í apríl á síðastliðnu ári. Aðeins er vitað um 5 hlýrri aprílmánuði í Reykjavík síðan samfelldar mælingar hófust fyrir um 140 árum. Hiti hefur nú verið yfir meðallagi í 25 mánuði samfellt í Reykjavík og er það einsdæmi. Meðalhiti á Akureyri var 4,6 stig og er það 3 stigum ofan meðallags. Apríl í fyrra var á Akureyri 1 stigi hlýrri en nú, eins og í Reykjavík. Meðalhiti í Akurnesi í Hornafirði var 5,7 stig, en 0,4 stig á Hveravöllum.

Úrkoma í Reykjavík mældist 107mm, meiri úrkoma hefur ekki mælst í apríl síðan 1989 og er meir en þrjá fjórðu umfram meðallag. Á Akureyri var hins vegar fremur þurrviðrasamt, úrkoman mældist aðeins 19 mm eða um tveir þriðju meðalúrkomu. Algengt er að þurrviðrasamt sé á Akureyri. Í Akurnesi mældist úrkoman 119mm og 59mm á Hveravöllum.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 168 og er það 28 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar aðeins 83 eða 47 færri en í meðalári. Sólskinsstundir hafa ekki verið jafn fáar í apríl á Akureyri síðan 1992. 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica