Október 2005

Guðrún Þ. Gísladóttir 3.1.2007

Grein

Tíðarfar í október var fremur hráslagalegt og illviðrasamt.

Hlýtt var í nokkra daga um miðjan mánuð, en annars var tíðarfar í kaldara lagi. Meðalhiti í Reykjavík mældist 3,0 stig og er það 1,4 stigum undir meðallagi. Svona kalt hefur ekki verið í október síðan 1998 en þá var ívið kaldara en nú. Á Akureyri mældist meðalhitinn 1,0 stig og er það 2,0 stigum undir meðallagi og þarf að fara allt aftur til 1981 til að finna kaldari október þar, þá var mun kaldara um land allt en nú. Í Akurnesi var meðalhitinn 3,9 stig og -2,7 á Hveravöllum, í báðum tilvikum það kaldasta frá 1998.

Úrkoma var mikil um norðanvert landið og víða óvenju mikill snjór miðað við árstíma. Snjór og hvassviðri ollu nokkrum samgöngutruflunum undir lok mánaðarins. Mánaðarúrkoman mældist 104 mm á Akureyri og er það um 80 prósent umfram meðallag, svo mikil úrkoma er nokkuð algeng á Akureyri í október, síðast í fyrra. Suðvestanlands var þurrt, úrkoma í Reykjavík mældist 49 mm eða ríflega helmingur meðalúrkomu. Oft hefur þó verið þurrara í Reykjavík í október. Í Akurnesi mældist úrkoman 330 mm, þar af féllu 148,5 mm á einum sólarhring, 14. til 15. Ekki er vitað um svo mikla sólarhringsúrkomu á þeim slóðum áður enda urðu talsverð flóð á Höfn og skemmdir nokkrar.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 104 og er það 21 stund umfram meðallag, á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 38 eða 14 undir meðallagi.



 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica