Desember 2006

Stutt tíðarfarsyfirlit frá Veðurstofu Íslands

Trausti Jónsson 18.1.2008

Tíðarfar mánaðarins var talið erfitt víða um land sökum umhleypinga. Mánuðurinn var þó alveg tvískiptur hvað veðurfar varðar. Fyrri hlutann ríktu aðallega norðlægar og austlægar vindáttir. Hiti var þá nærri meðallagi og nokkuð snjóþungt var um landið norðanvert. Síðari hlutinn, frá og með 18. var hins vegar mjög hlýr og vindasamur. Úrkoma var þá mikil um landið sunnan- og vestanvert. Úrkoma og leysingar ollu vatnavöxtum víða um land og flæddu ár yfir bakka sína. Sérlega mikið kvað að flóðum í Hvítá og Ölfusá í Árnessýslu og skriðuföllum í Eyjafirði og varð tjón umtalsvert. Tíð hvassviðri ollu einnig tjóni í mánuðinum.

Meðalhiti í Reykjavík var 2,2 stig og er það 2,4 stigum ofan við meðallag í desember, en það er ámóta og í desember 2005. Hiti hefur verið ofan við meðallag í öllum desembermánuðum í Reykjavík frá aldamótum, langhlýjast var þó í desember 2002. Á Akureyri var meðalhitinn 1,9 stig og er það 3,8 stigum yfir meðallagi, nokkru hlýrra var þar í desember 2002. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 3,6 stig og mínus 2,8 stig á Hveravöllum og er það 3,5 stigum yfir meðallagi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 95 mm og er það 20% umfram meðallag, á Akureyri mældist úrkoman 80 mm og er það um 50% umfram meðallag. Á Höfn mældist úrkoman 243 mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 20 og er það 9 stundum umfram meðallag. Ekkert sólskin mældist á Akureyri, en það er venjan í desember.

 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica