Janúar 2006

Trausti Jónsson

Tíð var óróleg í nýliðnum janúar. Hlýtt var í veðri lengst af og úrkomusamt um landið sunnan- og vestanvert, en fremur þurrt á norðaustanverðu landinu. Mesti hiti mánaðarins mældist á Seyðisfirði þ.4., 15,4 stig. Snarpt kuldakast gerði í nokkra daga í kringum miðjan mánuðinn. Þá fór frost í meir en 20 stig í Borgarfirði, sem er óvenjulegt á þeim slóðum. Mesta frostið í Reykjavík var 11,4 stig, en mesta frost á landinu í mánuðinum mældist í Veiðivatnahrauni, 23,2 stig þ.17.

Meðalhiti í mældist Reykjavík 2,0°C og er það 2,5 stigum yfir meðallagi. Þetta er hlýjasti janúar frá 1996. Meðalhiti á Akureyri var 1,8 stig og er það 4 stigum ofan við meðallag. Þetta er hlýjasti janúar á Akureyri frá 1992. Á Hveravöllum var meðalhitinn -3,4 stig og er það 3,2 stigum ofan meðallags, hlýjast frá 1996. Í Akurnesi var meðalhitinn 2,2 stig.

Úrkoma í Reykjavík mældist 153mm, tvöföld meðalúrkoma janúarmánaðar og mesta úrkoma í janúar frá 1947, en hún var þó aðeins lítillega minni í nokkrum öðrum mánuðum á tímabilinu - síðast 1972. Úrkoma á Akureyri mældist 27mm - helmingur meðalúrkomu, en allmörg nýleg dæmi eru um minna - síðast 2001. Úrkoma í Akurnesi mældist 266 mm. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 13 og er það 14 stundum undir meðallagi, en sólskinsstundir hafa oft orðið færri í janúar, síðast 2000. 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica