Maí 2006

Trausti Jónsson 3.1.2007

Tíðarfar í nýliðnum maí var óvenju kaflaskipt. Fyrstu 10 dagarnir voru með allra hlýjasta móti, en vikan í kringum þann 20. var aftur á móti meðal þeirra köldustu á þessum tíma árs. Þá setti niður óvenju mikinn snjó í útsveitum á Norðurlandi og vetrarfærð var á vegum. Hiti komst víða yfir 20 stig í hlýindakaflanum. Hæstur varð hitinn á sjálfvirku stöðinni á Hjarðarlandi í Biskupstungum, 22,8 stig, þann 9., en lægsti hiti mánaðarins mældist var -11,0 stig á Brúarjökli þ. 17. Á mönnuðu stöðvunum varð hiti lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum þann 26., -7,0 stig. Sólríkt var um landið sunnanvert og úrkomusamt norðanlands.
Meðalhiti í Reykjavík var 6,4 stig og er það í meðallagi, á Akureyri var meðalhitinn 4,5 stig og er það 1 stigi undir meðallagi áranna 1961-1990. Í Akurnesi mældist meðalhiti 5,8 stig, en 1,3 stig á Hveravöllum.
Úrkoma í Reykjavík mældist 33mm og er það um 75% meðalúrkomu, á Akureyri mældist úrkoman 39mm sem er ríflega tvöföld meðalúrkoma í maí. Úrkoman í Akurnesi mældist 88mm.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 272 og er það 80 stundum umfram meðallag, þetta er nokkru minna en í fyrra. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 188 og er það 14 stundum yfir meðallagi. 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica