Nóvember 2006

Elín Björk Jónasdóttir 3.1.2007

Nóvembermánuður var 0,1 stigi yfir meðaltali í Reykjavík þrátt fyrir mikið kuldakast um miðbik mánaðarins. Á Akureyri var meðalhitinn -1,1 stig, en það er 0,7 stigum undir meðaltali. Á Höfn var meðalhitinn 1,4 stig sem er 0,6 stigum minna en í meðalári og á Hveravöllum mældist meðalhiti -5,3 stig, 0,5 stigum kaldara en að meðaltali.

Í kuldakastinu, sem kom um miðjan mánuðinn, mældist lægsti hiti í Reykjavík 18. nóvember og mældist þá 13,6 stiga frost. Lægstur hiti á Akureyri mældist einnig þann 18. og var -15,2 stig. Á Höfn mældist lægsti hiti -9 stig þann 19. og á Hveravöllum var lægstur hiti mældur 17. nóvember, 18,8 stiga frost .

Hæsti hiti sem mældist á landinu var 14,8 stig, á Seyðisfirði 2. nóvember. Lægsti hiti mældist þann 18. á Brúarjökli, -25,2 stig.

Úrkoma var 20% yfir meðaltali í Reykjavík, og mældist 87 mm. Á Akureyri var mikil úrkoma, 75% yfir meðallagi, og mældist 94 mm. Úrkoman á Höfn mældist 97 mm.

Illviðri voru tíðari en venja er í nóvember, töluvert tjón varð í fyrsta storminum sem kom í byrjun mánaðarins. Mesti vindhraði mánaðarins mældist þann 5. nóvember, 44,9 m/s á Gagnheiði, og vindhviður náðu 56,8 m/s á sama stað. Mesti vindur í byggð þennan sama dag mældist 32 m/s á Stórhöfða og þar fóru vindhviður upp í 43,3 m/s.

Sólskinsstundir í Reykjavík voru 43,5, 4,5 stundum yfir meðaltali. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar tæpar 10 eða 5 stundum undir meðaltali. 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica