Bárðarbunga/Holuhraun - eldgos 2014-2015
Jarðskjálftar í Bárðarbungu um miðjan ágúst 2014 voru fyrirboði eldgoss í Holuhrauni, norðan Vatnajökuls, sem stóð frá 29. ágúst 2014 allt til 27. febrúar 2015. Skjálftavirkni sem hófst innan öskjunnar undir jöklinum færðist til norðausturs undir Dyngjujökul og út í sprungsveim í Holuhrauni, þangað sem bergkvika streymdi úr kvikuhólfi undir Bárðarbungu. Þessu fylgdu hundruð skjálfta á sólarhring, innan og utan Bárðarbunguöskjunnar, sá stærsti M5,7. Töluverð mengun fylgdi gosinu og talið er að það hafi losað allt að 60 þúsund tonn af brennisteinstvíildi á dag sem mældist víða um land. Hraunið sem rann í gosinu var mesta hraun landsins frá Skaftáreldum 1783, um 85 km2.
Gosið var á eldstöðvarkerfi Bárðarbungu. Eldstöðvakerfi landsins samanstanda af megineldstöð og/eða sprungusveimum sem teygja sig út frá þeim og dregur eldstöðvakerfið nafn sitt af megineldstöðinni.
Holuhraun í október 2014. Ljósmynd: Morten S. Riishuus.
Samatekt um eldgosið í Holuhrauni 2014-2015
Veðurstofan birti á vef sínum mikið af efni sem tengdist jarðhræringunum í Bárðarbungu og eldgosinu í Holuhrauni veturinn 2014-2015. Efnið var sett fram í formi upplýsingagreinar fyrir hvern mánuð meðan á atburðurinn stóð og eru þar nýjustu upplýsingarnar efst. Samtals veita þær heildaryfirlit um atburðinn.
- Sjá ágúst, september, október, nóvember, desember, janúar, febrúar, mars, apríl og maí.
- Í samantektargrein eru tenglar á fleiri fróðleiksgreinar og fréttir.