Fréttir

Sameinuðu þjóðirnar hvetja til hraðari uppbyggingar snemmviðvörunarkerfa um allan heim

Á fundi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) í Genf hvatti aðalritari Sameinuðu þjóðanna, til samstilltra aðgerða gegn loftslagsvá. Veðurstofa Íslands er virkur þátttakandi í þróun og samhæfingu snemmviðvörunarkerfa gegn fjölþátta náttúruvá.

23.10.2025

  • Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hvetur til hraðari innleiðingar verkefnisins Early Warnings for All
  • Veðurspár og viðvaranir bjarga milljónum mannslífa og spara milljarða.
  • Aukin tíðni öfgaveðurs ógnar ávinningi sem unnist hefur

Engin þjóð er örugg fyrir skaðlegum áhrifum öfgaveðurs, sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, þegar hann ávarpaði Alþjóðaveðurfræðistofnunina (WMO) í gær. Hann hvatti til hraðrar útbreiðslu snemmviðvörunarkerfa gegn fjölþátta náttúruvá (multi-hazard early warning systems), það er að segja samræmt kerfi sem sameinar spár og viðvaranir um ólíka náttúruvá svo hægt sé að bregðast tímanlega við og verja líf og efnahag.

Þetta var í fyrsta sinn sem Guterres ávarpaði WMO, sem er sérstofnun Sameinuðu þjóðanna sem stuðlar að alþjóðlegu samstarfi á sviði veðurfræði, loftslags- og vatnamála og styður aðildarríki í spám, vöktun og mótvægisaðgerðum gegn náttúruvá. Hann lýsti stofnuninni sem eins konar „loftvog sannleikans, trúverðugri og skýrri heimild um ástand jarðarinnar“ og „fyrirmyndardæmi um vísindi í þjónustu mannkyns“.

„Án nákvæmra líkana og spáa ykkar vissum við ekki hvað væri fram undan eða hvernig við ættum að undirbúa okkur,“ sagði Guterres.
„Án langtímamælinga ykkar hefðum við ekki notið þeirra viðvarana og leiðbeininga sem verja samfélög og bjarga milljónum mannslífa og spara milljarða dollara á hverju ári.“

54872632970_3f3ad86860_h
António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, ásamt Celeste Saulo, framkvæmdastjóra WMO, og Abdulla Al Mandous, forseta stofnunarinnar, á 75 ára afmælisþingi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. 

Ljósmynd: WMO / Patrick Anderseck

Early Warnings for All – viðvörunarkerfi fyrir alla jarðarbúa

Aukaþing Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO), sem 193 ríki eiga aðild að, markar bæði 75 ára afmæli stofnunarinnar sem sérstofnunar Sameinuðu þjóðanna og miðpunkt áætlunarinnar Early Warnings for All. Áætlunin sem sett var á laggirnar árið 2022, miðar að því að tryggja að allir jarðarbúar njóti verndar snemmviðvörunarkerfa fyrir lok árs 2027.

Áhersla á samstilltar aðgerðir og áhrifamiðaðar spár

Á þinginu hvatti Celeste Saulo, framkvæmdastjóri WMO, til tafarlausra og samstilltra aðgerða og lagði áherslu á mikilvægi gagnamiðlunar, sjálfbærrar fjármögnunar, samræmdra alþjóðastaðla og vísindasamstarfs sem undirstöðu árangurs í snemmviðvörunarkerfum.

„Við stöndum á tímamótum þar sem hlutverk okkar hefur aldrei verið mikilvægara. Við stöndum ekki bara frammi fyrir áskorunum heldur einnig einstöku tækifæri til að nýta loftslagsvísindi og tækniþróun til að byggja upp áfallaþol allra þjóða.“

Saulo lagði áherslu á að efla snemmviðvörunarkerfi gegn fjölþátta náttúruvá og spár byggðar á áhrifamati (impact-based forecasting), það er að segja spár sem meta hvaða áhrif náttúruvá getur haft á fólk, innviði og samfélög. Hún hvatti til þess að styrkja landsstofnanir á sviði veðurfræði og vatnafræði, bæta mælanet og gagnaskipti og víkka samstarf bæði með nýjum samstarfsaðilum og samfélögum sem njóta viðvarana.
„Við megum ekki skilja neinn eftir,“ sagði hún að lokum.

Samkvæmt mati áætlunarinnar getur hver dollari sem fjárfest er í slíkum kerfum sparað allt að fimmtán dollara með því að draga úr tjóni af náttúruhamförum.

Undanfarin 50 ár hafa veður-, vatns- og loftslagstengd áföll kostað yfir tvær milljónir mannslífa, þar af 90% í þróunarlöndum. Efnahagslegt tjón eykst með tíðari og öfgakenndari veðuratburðum.

Árið 2024 höfðu 108 ríki getu til að reka snemmviðvörunarkerfi fyrir fjölþátta náttúruvá, meira en tvöfalt fleiri en árið 2015, og sú tala heldur áfram að hækka.

Þrátt fyrir þessar framfarir er ljóst að enn er mikið verk óunnið. Dauðsföll vegna hamfara eru um sexfalt fleiri í ríkjum sem ekki búa við slík kerfi og fjórfalt fleiri verða fyrir áhrifum þar sem viðvörunarkerfi vantar eða eru veik.

Guterres kynnti þrjú lykilsvið aðgerða til að ná markmiðinu:

  • Stjórnsýsla: Ríki þurfa að samþætta snemmviðvörunarkerfi í stefnumótun, stofnanir og fjárhagsáætlanir.
  • Fjármögnun: Auka þarf fjármagn, minnka skuldir þróunarríkja og styrkja alþjóðlegar fjármálastofnanir.
  • Loftslagsaðgerðir: Öll ríki verða að leggja fram ný, metnaðarfull áform sem samræmast 1,5 gráðu markmiðinu með áherslu á endurnýjanlega orku.

Abdulla al Mandous, forseti Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, fagnaði ávarpi António Guterres og hrósaði forystu hans í að efla snemmviðvörunarkerfi á heimsvísu.

„Forysta þín hefur tryggt að snemmviðvörunarkerfi séu órjúfanlegur hluti alþjóðlegra samninga. Þökk sé framtaki þínu eru þau nú viðurkennd á hæsta stjórnsýslustigi sem hagkvæmar, lífsbjargandi og þverfaglegar lausnir sem draga úr loftslagsáhættu og styðja við sjálfbæra þróun,“ sagði Al Mandous.

54872601678_291ac2c96d_k

Fulltrúar 193 aðildarríkja Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) á 75 ára afmælisþingi stofnunarinnar í Genf í október 2025. Ljósmynd: WMO / Mélissa Debray

Alþjóðlegt samstarf og þátttaka Veðurstofu Íslands

Áætlunin Early Warnings for All var sett á laggirnar af António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, árið 2022.
Verkefnið er leitt af Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) í samstarfi við Skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um að draga úr hættu á hamförum (UNDRR), Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) og Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC).

Veðurstofa Íslands er meðal aðildarstofnana WMO sem vinna að markmiðum verkefnisins. Stofnunin sinnir vöktun náttúruvár og miðlun viðvarana innanlands og tekur virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um þróun nýrra lausna sem styrkja viðbúnað og áfallaþol samfélaga.
Samkvæmt 15. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 70/2008 ber Veðurstofunni jafnframt að annast samskipti við Alþjóðaveðurfræðistofnunina og önnur milliríkjasamskipti á verksviði stofnunarinnar. Í því felst m.a. að tryggja framkvæmd skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðlegum samningum á sviði veðurfræði, loftslags, vatnamála og náttúruvár.

https://youtu.be/6HrcygjyS2Y?si=OFdId_dw1tL0-XAY

Hvað er snemmviðvörunarkerfi gegn fjölþátta náttúruvá?

Snemmviðvörunarkerfi gegn fjölþátta náttúruvá (multi hazard early warning system) sameinar upplýsingar um ólíka vá, til dæmis veður, flóð, eldgosaösku eða skriðuföll, í eitt samræmt kerfi.
Markmiðið er að tryggja að almenningur og yfirvöld fái tímanlega, áreiðanlega og skiljanlega viðvörun áður en hættan steðjar að, þannig að hægt sé að bregðast hratt og rétt við áður en náttúruvá verður að hamförum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica