Fréttir
HB-og-Gulli
Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands, afhendir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar.

Fjórða samantektarskýrsla vísindanefndar

Loftslagsbreytingar valda vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru landsins

18.10.2023

Í nýrri skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi segir að ekki verði um villst, að loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Til að tryggja að þær áskoranir verði ekki meiri en við er ráðið þarf umbyltingu í lífsháttum og umgengni við náttúruna.

Þetta er fjórða samantektarskýrsla sem kemur út á vegum vísindanefndar sem skipuð er í hvert sinn af ráðherra. Fyrsta skýrslan kom út árið 2000, en síðasta skýrsla kom út 2018.

Forsida-betri

Ágrip úr skýrslunni og skýrsluna sjálfa má nálgast á vefsíðunni www.loftslagsbreytingar.is

Í þessari skýrslu er lögð ríkari áhersla á samfélagsleg áhrif en í fyrri skýrslum og fjallað um loftslagsbreytingar í samhengi við menningu, listir og gildismat, siðfræði og menntun. Að auki er fjallað um lýðheilsu, heilbrigðiskerfi og samfélag í sérstökum kafla, sem er breyting frá fyrri skýrslum. Þessi munur á efnistökum ræðst að nokkru af skipunarbréfi ráðherra, en ekki síður af því að þekkingu á þessum þáttum hefur fleygt fram frá útkomu síðustu skýrslu. Þrátt fyrir að þekking á málefninu hafi aukist á undanförnum árum skortir þó enn tilfinnanlega upp á rannsóknir á flestum þáttum sem snúa að áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi. Í samantekt og ályktunum nefndar er því ekki síst lögð rík áhersla á mikilvægi þess að efla vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga sem og rannsóknir, þá sérstaklega hvað varðar efnahag og samfélag.

Veðurfar og náttúruaðstæður verða í lok aldarinnar án fordæma frá landnámi

Loftslagsbreytingar hafa haft umtalsverð áhrif á náttúru Íslands, s.s. afkomu jökla, vatnafar, lífríki á landi og aðstæður í sjó. Veðurfar og náttúruaðstæður á landinu, og í hafinu umhverfis það, verða í lok aldarinnar án fordæma frá upphafi byggðar á Íslandi. Súrnun sjávar og hlýnun munu breyta umhverfisaðstæðum og útbreiðslusvæðum tegunda í hafi.

„Það stefnir í það að veðurfar á Íslandi í lok aldarinnar verði gjörólíkt því sem verið hefur frá landnámi“ segir Halldór Björnsson, formaður nefndarinnar. „Við nefnum það í skýrslunni að ef ekki verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda verður veðurfar á Íslandi hugsanlega án fordæma síðan síðasta jökulskeiði lauk fyrir um tíu þúsund árum“, segir Halldór. Niðurstöður líkanreikninga benda til þess að hlýnun verði meiri norðan við landið en sunnan við það. Í mörgum líkönum gætir tímabundinnar, staðbundinnar kólnunar. Líkanreikningar sýna einnig að ársúrkoma gæti aukist um rúmlega 1% fyrir hverja gráðu sem hlýnar. Aftakaúrkoma gæti aukist um 5 til 15%, sem er aukning um 4 til 15 mm á sólarhring frá núverandi úrkomu fyrir flest svæði. „Þetta þýðir í raun að ef við horfum á heitari sviðsmyndir má gera ráð fyrir að aftakaúrkoma sem nú er ætlað að gerist á 100 ára fresti, fari að gerast á 12 til 17 ára fresti“, segir Halldór.

HB-lengra-fra

Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands útskýrir niðurstöður skýrslunnar.

Loftslagsvandinn er efnahagsmál

Umtalsverð áhrif loftslagsbreytinga á atvinnuvegi, byggða innviði og efnahag skapa verulegar áskoranir, jafnvel í geirum þar sem viðbrögð við hlýnun geta haft jákvæð áhrif í för með sér. Sjávarstöðubreytingar og aukin náttúruvá geta aukið samfélagslegt tjón og áhrif loftslagsbreytinga erlendis skapað umtalsverða kerfisáhættu hérlendis, t.d. með áhrifum á aðfangakeðjur, fæðuöryggi og lýðheilsu. Loftslagsbreytingar eru talin stærsta heilsufarsógn sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Loftslagsvandinn er efnahagsmál sem mun hafa áhrif á verðlag, fjármálastöðugleika og öryggi fjármálakerfisins. „Það er mikilvægt að leggja áherslu á að draga úr losun, en við verðum líka að undirbúa samfélagið undir breytingar sem þegar eru farin að hafa áhrif á okkar líf“, segir Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. Í skýrslunni kemur fram að aðlögun og viðbrögð við loftslagsbreytingum hafa í för með sér áskoranir sem krefjast umbyltingar í neyslu, iðnaði og tækni. Þessi áhrif ná meðal annars til félagslegra innviða, menningar, sjálfsmyndar þjóðar og vekja upp siðferðilegar spurningar gagnvart öðrum þjóðum, komandi kynslóðum og vistkerfum. „Í skýrslunni kemur fram að skortur er á fjárhagslegum hvötum og fjármögnunaraðgerðum þess að hraða aðlögunaraðgerðum. Í því samhengi er mikilvægt að skilgreina hvar ábyrgðin liggur og muna að gæta þarf jafnræðis þegar kemur að kvöðum á mismunandi aðila, svo sem almenning, sveitarfélög eða fyrirtæki. Því þarf að greina betur áhrif loftslagsbreytinga þvert á landamæri á efnahag og samfélag á Íslandi“ segir Anna Hulda.

Pallbordsumraedur-3

F.v. Þórunn Wolfram Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, sem stýrði pallborðsumræðum. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, orku og loftslagsráðherra, Anna Hulda Ólafsdóttir skrifstofustjóri loftslagsbreytinga og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, Ólafur Árnason forstjóri Skipulagsstofnunar og Halldór Björnsson formaður vísindanefndar um loftslagsbreytingar og hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands.

Víðtækt samráð lykillinn að árangri

Þessi skýrsla er skrifuð af vísindanefnd um loftslagsbreytingar sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði þann 3. maí 2021. Nefndinni var ætlað að vinna að gerð vísindaskýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrfar og samfélag á Íslandi. Tekið var fram að skýrslan skyldi taka mið af skýrslum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og byggja á víðtæku samráði við íslenskt vísindasamfélag. Á þeim grunni skyldi nefndin setja fram nýjustu og bestu upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.

Gulli-einn

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarpaði fundinn.

„Niðurstöður skýrslunnar eru ekki óvæntar. Loftslagsbreytingar hafa áhrif og við ætlum byggja upp samfélag sem er undirbúið fyrir þær breytingar sem eru þegar farin að hafa áhrif á samfélagið hér líkt og annars staðar. Einnig komu út fyrr á árinu tvær skýrslur frá ráðuneytinu um aðlögun að loftslagsbreytingum og náttúruvá. Þær skýrslur, líkt og þessi sem nú er verið að afhenda, eru nauðsynlegar til að við höfum sem bestar upplýsingar. Við verðum að skipuleggja okkur til langs tíma og þær áætlanir verða að vera byggðar á traustum grunni þekkingar. Ráðuneytið mun nú taka skýrsluna og rýna með það að markmiði að styrkja stefnumótun og áætlanagerð vegna áskorana í loftslagsmálum þvert á stjórnarráðið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagráðherra.

Arni_croppedforweb„Ég hef sagt það áður að áskoranir vegna áhrifa loftslagsbreytinga er stærsta verkefni okkar samfélags“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. „Okkar viðbrögð þurfa að byggja á bestu vísindalegri þekkingu á mjög fjölþættum fræðasviðum og þessi skýrsla og fyrri skýrslur eru gott dæmi um það. Það að ná árangri í að takast á við áskoranirnar og byggja upp loftslagsþolið samfélag, krefst síðan víðtæks samráðs á öllum stigum samfélagsins. Ég vil taka undir ályktanir vísindanefndar að það þarf að tryggja undirstöður loftslagsþolins skipulags með skýrum markmiðum, leiðbeiningum, hvatningu og ekki síst stuðningi við skipulagsyfirvöld í héraði. Í því samhengi er einnig mikilvægt að tekið sé meira tillit til aukinnar náttúruvár og tengsla hennar við loftslagsbreytingar við alla skipulagsgerð og landnýtingu“, segir Árni.


Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands.

Árið 2022 stóð nefndin fyrir 11 málstofum um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Þangað var boðið þeim vísindamönnum sem hafa fengist við loftslagsrannsóknir hér á landi, sem og fulltrúum helstu stofnana og fyrirtækja sem efninu tengjast. Alls voru þátttakendur rúmlega 240 og þar af fluttu rúmlega 100 erindi, en margir þeirra lögðu nefndinni til efni.

Ágrip úr skýrslunni má finna á www.loftslagsbreytingar.is

Þar er einnig hægt að nálgast alla skýrsluna á PDF formi sem og einstaka kafla hennar.

Hér má sjá upplýsingar um nefndina og höfunda skýrslunnar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica