Fréttir
Vindaspá fyrir aðfaranótt fimmtudags kl. 01.

Hvessir aftur í kvöld

Dregur úr vindi vestantil um miðja nótt en á Norðurlandi í fyrramálið

19.10.2016

Viðvörun vegna óveðurs var send út í gær, þriðjudaginn 18. október, og veðurspá dagsins hefur gengið eftir.

Áberandi hvassast hefur verið á norðanverðu Snæfellsnesi en þar hefur einnig rignt umtalsvert. Sumsstaðar á sunnanverðum Vestfjörðum hefur vaxið talsvert í ám og lækjum og gætu líkur á grjóthruni úr bröttum hlíðum aukist þar sem úrkoman er mest. Nú síðdegis hefur dregið örlítið úr veðurofsanum en hvessir síðan aftur í kvöld og er þá búist við suðaustan- og síðan sunnan 20-30 m/s á vestanverðu landinu og norðanlands.

Áfram er búist við snörpum vindhviðum við fjöll, jafnvel yfir 40 m/s. Austanlands er búist við sunnan 15-20 m/s, en þar gæti orðið byljótt í kvöld og nótt. Talsverð rigning er áfram í kortunum og er útlit fyrir aukna úrkomu suðaustanlands þegar líður á kvöldið en svipaðri úrkomu vestantil og verið hefur.

Draga fer úr vindi vestantil um miðja nótt en á Norðurlandi í fyrramálið. Áfram er varað við vatnavöxtum í ám á Snæfellsnesi, á Hvítársvæðinu (bæði vestur og suður af Langjökli), í kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul.

Sjá einnig athugasemd veðurfræðings og athugasemd vegna vatnafars.

Vatnsflóð

Veðurstofan þiggur með þökkum hvers konar tilkynningar um vatnsflóð en nýtt og öflugt skráningarform er komið á vefinn. Veðurstofa Íslands áskilur sér rétt til að birta skráningar, sjá nánar í eldri frétt.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica