Fréttir
Kveðja til Óskars J. Sigurðssonar
Í dag var Óskar Jakob Sigurðsson borinn til grafar. Með honum kveður Veðurstofa Íslands einn af merkustu samstarfsmönnum sínum og einstakan fulltrúa þeirra sem lögðu grunn að veðurathugunum og umhverfisvöktun í Vestmannaeyjum. Óskar tók þátt í þessu starfi nær allt sitt líf og skilaði því af mikilli trúmennsku, nákvæmni og þrautseigju, í erfiðu umhverfi á Stórhöfða.Ferill hans nær yfir meira en sex áratugi og spannar allt frá sendingu fyrsta veðurskeytisins árið 1952 til síðustu úrkomuskeytisins árið 2014. Auk þess vann hann að mengunarmælingum sem urðu hluti af alþjóðlegu umhverfisvöktunarkerfi og veitti mikilvægar upplýsingar um þróun gróðurhúsalofttegunda á norðurslóðum.Harðsótt hefur verið að brjótast út í hitamælaskýli í fárviðrum vetrar og næturmyrkri til veðurathugana en þó féll aðeins einu sinni niður veðurathugun á þessum áratugum. Það var þegar Óskar fór til kirkju ásamt öðrum Vestmannaeyingum vegna eldgossins í Heimaey. Sonur hans, Pálmi Freyr, fjórði ættliðurinn, starfaði einnig að athugunum á Stórhöfða með föður sínum.Árið 2005 fékk veðurstöðin á Stórhöfða viðurkenningu frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) fyrir að uppfylla ströngustu kröfur alþjóðlega veðurathuganakerfisins (World Weather Watch), ásamt stöðvunum í Keflavík og á Akureyri.Óskar var jafnframt einn afkastamesti fuglamerkingamaður heims og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, þar á meðal riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu og viðurkenningu NOAA sem „hetja umhverfisins“. Þau verðlaun voru afhent honum af Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, árið 2007.Við á Veðurstofunni minnumst hans með þökk og virðingu.
Þeir sem vilja kynna sér ævistarf hans betur er bent á eftirfarandi efni:
- Kveðjuorð við starfslok Óskars (2014)
Kveðjuorð sem flutt voru þegar Óskar lét af störfum eftir 62 ára óslitið starf fyrir Veðurstofuna. - Óskar J. Sigurðsson heiðraður (19. júní 2007)
Frétt um þegar Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, veitti Óskari verðlaunin „Hetja umhverfisins“ fyrir framlag hans til loftgæðaeftirlits á Stórhöfða. - Vitaverðir á Stórhöfða
Grein um sögu vitavarðarstarfa á Stórhöfða og framlag Óskars og fjölskyldu hans til veðurathugana og náttúruvöktunar í rúmlega heila öld.