Fréttir

Metfjöldi sumarstarfa í boði á Veðurstofunni

Störfin hluti af átaki félagsmálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar um að bjóða sumarstörf fyrir námsmenn

27.5.2020

Veðurstofa Íslands tekur þátt í átaki félagsmálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar um að bjóða sumarstörf fyrir námsmenn. Alls er 31 starf í boði á Veðurstofunni í sumar fyrir námsmenn sem eru á milli anna í háskólanámi sínu og eru 18 ára á árinu eða eldri. Miðað er við að ráðningartímabilið sé um það bil tveir mánuðir.

Störfin eru fjölbreytt og tilheyra öllum sviðum Veðurstofunnar og spanna verkefni á borð við úrvinnslu gagna, þróun mælitækja og eftirlitskerfa Veðurstofunnar. Störfin henta nemendum sem stunda nám t.d. í náttúruvísindum, tölvunarfræði og verkfræði svo eitthvað sé nefnt.

"Þetta er klárlega met í fjölda sumarstarfa hjá stofnuninni", segir Borgar Ævar Axelsson, mannauðsstjóri Veðurstofu Íslands. "Að öllu jöfnu höfum við getað boðið upp á 5-10 sumarstörf á hverju ári. Það er því sannarlega ánægjulegt að taka þátt í þessu átaksverkefni félagsmálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar. Þetta er prýðilegt tækifæri fyrir nemendur að spreyta sig á áhugaverðum verkefnum og kynnast þeim áskorunum sem felast í því að rannsaka og vakta náttúru Íslands. Að sama skapi er þetta mikilvægt tækifæri fyrir okkur á Veðurstofunni að kynnast mögulegum framtíðarstarfsmönnum sem koma til með að sinna verkefnum Veðurstofunnar á næstu árum - sem eru mörg og krefjandi, en líka áhugaverð og spennandi", segir Borgar.

Hér er hægt að kynna sér störfin sem eru í boði.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica