Fréttir
ský við sólsetur að vetri
Sólarlag og ský yfir Reykjanesi í janúar 2011.

Alþjóðlegi veðurdagurinn 2011

Veðurfar varðar þig

23.3.2011

Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) grundvallast á fjölþjóðasamþykkt sem tók gildi 23. mars 1950. Hefð er fyrir því að minnast samþykktarinnar þennan dag ár hvert sem alþjóðaveðurdagsins. Þá er athygli vakin á ákveðnum þáttum í starfsemi stofnunarinnar. Að þessu sinni er dagurinn haldinn undir einkunnarorðunum Veðurfar varðar þig (Climate for you) og augum beint að áföngum alþjóðasamvinnu á sviði veðurfarsmála síðustu fimm ára - einskonar uppgjöri í anda lustrum en slíkt fimm ára skeið var öldum saman fjárhagstímabil rómverska ríkisins.

Áfangar síðustu fimm ára

Upphaf síðasta lustrum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar markaðist af ráðstefnu sem hún hélt í Beijing í nóvember 2005 og kallaðist WMO Technical Conference on Climate as a Resource (tækniráðstefna um veðurlag sem auðlind). Þar var þeirri áskorun beint til þjóðlanda að virkja rannsókna- og þjónustustofnanir til að mæta aukinni eftirspurn eftir veðurfarsþjónustu. Sérstaklega var bent á að slík þjónusta auðveldi auðlindanýtingu sem og notkun endurnýjanlegra orkugjafa auk þess sem hún nýtist til að liðka fyrir ýmiskonar félagslegri ákvarðanatöku. Ráðstefnan benti sérstaklega á hagnýtingu veðurfarsupplýsinga við landbúnaðarframleiðslu, hún stuðli að auknu fæðuöryggi, hagkvæmari stjórnun vatnsauðlindarinnar, framförum í heilbrigðismálum og fleiru.

Í júlí 2006 hélt stofnunin ráðstefnu í Espoo í Finnlandi undir heitinu The WMO Conference on Living with Climate Variability and Change: Understanding the uncertainties and managing the risks. (Ráðstefna Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar um sambúð við veðurlag og til aukins skilnings á óvissu og áhættustjórnun). Þar var einnig lögð áhersla á veðurlag sem auðlind, en jafnframt að samfélagið væri mjög viðkvæmt fyrir breytileika þess og hugsanlegum breytingum. Vönduð áhættustjórnun gagnvart veðurlagi væri einnig verðmæt sem upplýsingaauðlind og myndi stuðla að hagkvæmri nýtingu náttúruauðlinda.

Þriðja ráðstefnan var International Conference on Secure and Sustainable Living: Social and Economic Benefits of Weather, Climate and Water Services. (Alþjóðaráðstefna um efnahagslegan ávinning veður-, veðurlags- og vatnsauðlindaþjónustu). Þar gafst tækifæri til skoðanaskipta um tengsl veðurlags og samfélagsþróunar. Þessi ráðstefna var haldin í Madrid í mars 2007.

Á sama ári studdi Alþjóðaveðurfræðistofnunin við útgáfu fjórðu matsskýrslu IPCC um hnattrænar veðurfarsbreytingar. Í framhaldi af því fékk IPCC friðarverðlaun Nobels. Á 15. aðalþingi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar þá um vorið var ákveðið að efna til hins þriðja þings um veðurfarsbreytingar (World Climate Conference 3) í anda fyrri þinga um sama málefni, (1979 og 1990). Þingið var haldið síðla sumars 2009. Þar var m.a. unnið uppkast að rammasamningi um veðurfarsþjónustu (Global Framework for Climate Services pdf 1,0 Mb). Um ástæður samningsins segir í ályktun ráðstefnunnar: Takmarkið er að gera vísindalegar upplýsingar um veðurfars-breytingar og -breytileika aðgengilegar þannig að þær nýtist við áhættustýringu og aðlögun að breytilegu og breyttu veðurfari um heim allan.

Síðan segir, í mjög lauslegri þýðingu1, að rammi um veðurfarsþjónustu sé fjórþættur og felist í (i) virku notendaviðmóti/aðgengi, (ii) heimsveðurfarsþjónustu, (iii) veðurfarsrannsóknum og (iv) veðurathugunum og sífellueftirliti. Þættir þrjú og fjögur eru þegar í góðum gangi en þeir fyrri tveir eru nýir og þar þarf samræmingar við.

Sérstakur vinnuhópur (High level task force) hefur verið settur á laggirnar til frágangs á því samningsuppkasti um veðurfarsþjónustu sem lagt verður fyrir 16. aðalþing Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar nú í vor (2011). Þingið mun taka afstöðu til samningsuppkastsins. Framkvæmdastjórn stofnunarinnar bindur vonir við að fljótlega muni fara í gang vinna við að koma tillögum uppkastsins til framkvæmda.

Velferð og öryggi

Það er nú almennt viðurkennt að starf Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar sé ein undirstaða velferðar og öryggis á heimsvísu. Ný markmið um veðurfarsþjónustu munu vonandi stuðla að því að árið 2019 hafi tekist að helminga ársmeðalfjölda dauðsfalla af völdum veðurhamfara, flóða og þurrka auk þess að styðja við sjálfbæra þróun.

Veðurstofa Íslands hefur frá stofnun tekið virkan þátt í alþjóðastarfinu enda hefur það reynst ómetanlegt fyrir starfsemi hennar og þar með fyrir íslenskt samfélag. Mikilvægt er að menn láti ekki deigan síga.

Að þessari samantekt lokinni fylgir tilvitnun í ávarp Michel Jarraud aðalritara Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar á 14. fundi aðila rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um veðurfarsbreytingar (UNFCCC) í Poznan í Póllandi í Desember 2008:

Ein höfuðskylda allra ríkisstjórna ætti að vera að tryggja aðgengi íbúa að vísindalega sannfærandi og fullnægjandi upplýsingum um veðurfar og veðurfarsspár.

merki Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar

1 Úr Global Framework for Climate Services, concept note, bls. 7.

Eldra efni um veðurdaginn

Alþjóðlegi veðurdagurinn 2010, 2009, 2008.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica