Fréttir
tveir stórir gufubólstrar
Fimmvörðuháls 1. apríl 2010.

Ársfundur Future Volc

Fyrsti ársfundur samevrópsks verkefnis um eldfjallavá

23.9.2013

Dagana 23.-27. september 2013 stendur yfir fyrsti ársfundur verkefnisins FutureVolc en það er samvinna um eldfjallavá.

Fundurinn fer fram á Hótel Heklu og sækja hann fulltrúar frá öllum samstarfsaðilum verkefnisins. Upphafsfundurinn var haldin fyrir ári síðan og eru þáttakendur orðnir um 80 frá 26 stofnunum í 12 löndum. Ársfundurinn hefst með sameiginlegum kvöldverði á mánudegi, fundað verður á þriðjudegi og miðvikudegi en að lokum verður farið í vettvangsferð að rótum hins þekkta eldfjalls, Heklu.

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofa Íslands leiða þetta samevrópska verkefni sem fellur undir sjöundu rammaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, FP7. Meginmarkmið verkefnisins eru eftirtalin: Að koma á fót samhæfðu vöktunarkerfi á eldfjöllum, að þróa nýjar aðferðir til að meta hættuna af einstökum viðburðum, að efla skilning vísindasamfélagsins á kvikuferlum í jarðskorpunni og að bæta upplýsingagjöf til almannavarna og yfirvalda.

Framgangur verkefnisins

Merki FUTUREVOLC

Verkefnið hefur farið vel af stað og fyrstu afurðir þess eru farnar að skila sér. Samningagerð og öðrum formlegum atriðum gagnvart Evrópusambandinu lauk á síðasta ári. Flestum tækjauppsetningum er lokið og gögn farin að streyma úr nýjum tækjum. Tilraunaútgáfa af vefsvæðinu Íslensk Eldfjöll hefur verið tekin í notkun og áætlað er að opna gögn úr eldgosunum 2010 og 2011 á ársfundinum. Áframhaldandi hönnun á vefsvæðinu er fyrirhuguð á næstu mánuðum.

Framundan er frekari tækjauppsetningar, túlkun gagna og fyrirhuguð viðbragðsáætlun vegna eldgoss á prófunarsvæði verkefnisins (Iceland Supersite). Auk þess var samstarf við annað Evrópuverkefni, EPOS, sem einnig þiggur styrk úr 7. rammáætlun, staðfest með vinnufundi á Íslandi í júní síðastliðinn.

Frekari upplýsingar má fá á vefsvæði Future Volc og myndir af tækjauppsetningum og því um líku má sjá á facebook síðu verkefnisins.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica