Fréttir
Hópur frá Jöklarannsóknafélaginu í Jökulheimum hinn 6. júní 2014.

Tíðarfar í júní 2014

Stutt yfirlit

1.7.2014

Júnímánuður var sérlega hlýr á landinu, einhver sá hlýjasti sem komið hefur síðan mælingar hófust. Víðast hvar um suðvestanvert landið – og víða vestan- og sunnanlands – var hann einnig í hópi úrkomusömustu júnímánaða sem vitað er um. Mat á tíðarfari var því nokkuð misjafnt.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavik var 11,2 stig og er það 2,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,9 stigum ofan við meðallag síðustu 10 ára. Þetta er fjórði hlýjasti júní í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871, júní 2003 og 1871 voru ómarktækt hlýrri, en júní 2010 var 0,2 stigum hlýrri. Meðaltal júnímánaðar 1871 verður að teljast óöruggt.

Í Stykkishólmi var meðalhiti júnímánaðar 2,8 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en 1,5 stigi ofan meðallags síðustu 10 ára. Júní hefur aldrei verið svo hlýr í Stykkishólmi frá upphafi mælinga 1845. Á Akureyri var meðalhitinn 12,2 stig sem er 3,1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 2,4 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Þetta er næsthlýjasti júní frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1881, meðalhiti í júní 1933 var 12,3 stig.

Meðalhiti í júní 2014 á nokkrum veðurstöðvum, ásamt viki frá meðalhita 1961 til 1990 og 2004 til 2013.

stöð mhiti vik 1961-1990 röð af vik 2004-2013
Reykjavík 11,2 2,2 4 144 0,9
Stykkishólmur 10,9 2,8 1 169 1,5
Bolungarvík 10,4 3,4 117 1,7
Akureyri 12,2 3,1 2 133 2,4
Egilsstaðir 11,2 2,5 2 60 2,2
Dalatangi 7,9 1,7 6 til 7 76 0,9
Teigarhorn 9,0 1,8 5 142 1,2
Höfn í Hornaf. 10,9 2,4
Stórhöfði 9,9 1,9 2 138 0,9
Hveravellir  8,8 3,9 1 50 2,2
Árnes 11,6 2,3 3 134 1,2

Hér má sjá að mánuðurinn er sá hlýjasti sem vitað er um í Stykkishólmi og á Hveravöllum og sá næsthlýjasti á Akureyri, Egilsstöðum og Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Torfum í Eyjafirði, 12,7 stig, en lægstur var hann á Brúarjökli, 3,2 stig. Á láglendi var meðalhitinn lægstur í Seley, 6,5 stig. Sé miðað við síðustu tíu ár var meðalhitinn að tiltölu hæstur við Mývatn, 3,1 stig yfir meðallagi, en lægstur var hann að tiltölu á Eyjabökkum, -0,3 stigum undir meðallagi. Stöðin á Eyjabökkum var sú eina á landinu þar sem hiti var undir meðallagi síðustu tíu ára og sker sig úr hvað það varðar ásamt Seley þar sem hiti var aðeins 0,2 stigum ofan meðallags.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 23,1 stig í Flatey á Skjálfanda þann 23. Þessi tala bíður frekari staðfestingar en næsthæstur mældist hitinn á Torfum þann 13. og á Húsavík þann 17., 22,7 stig. Hæsti hiti mánaðarins á mannaðri stöð mældist 21,2 stig á Skjaldþingsstöðum þann 13. Lægsti hiti á landinu mældist -0,8 stig á Brúarjökli þann 6. Frost mældist ekki í byggð í mánuðinum en lægstur var hitinn á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 5., 0,7 stig. Á mönnuðum stöðvum mældist hitinn lægstur í Miðfjarðarnesi, 1,8 stig, þann 2., þann 4. og þann 11. júní hefur ekki mælst alveg frostlaust í byggð síðan 2003. Auk þess hefur júní aðeins þrisvar sinnum áður verið frostlaus á veðurstöðvum í byggð. Það var í júní 1880, 1909 og 1933. Öll þessi síðastnefndu ár var stöðvakerfið mun gisnara en nú og fullnægjandi samanburður því ekki fyrir hendi.

Eitt nýtt landsdægurhámarksmet var sett í mánuðinum. Það var þegar hiti á Torfum í Eyjafirði fór í 22,7 stig þann 13. Gamla metið var á Teigarhorni 1916 og var 22,4 stig.

Úrkoma

Mánuðurinn telst úrkomusamur. Úrkoma var langt yfir meðallagi víðast hvar um suðvestan- og vestanvert landið, en undir því sums staðar fyrir austan.

Í Reykjavík mældist úrkoman 115,8 mm og hefur aldrei mælst svo mikil síðan samfelldar mælingar hófust 1920. Úrkoma var líka mæld á árunum 1885 til 1907 og var úrkoma í júní einu sinni á því tímabili meiri en nú. Það var 1887 en þá mældist hún 127 mm í Reykjavík. Á Akureyri mældist úrkoman nú 23,9 mm. Það er 14 prósentum undir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Í Stykkishólmi mældist úrkoman í júní 50,6 mm og er það ríflega fjórðungur umfram meðallag, mun meiri úrkoma var í Stykkishólmi í júní 2006. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 67 mm og er það aðeins 66 prósent meðalúrkomu þar. Úrkoma mældist 40,7 mm á Höfn í Hornafirði.

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 17 daga í Reykjavík. Það er sex dögum umfram meðallag. Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 4 daga á Akureyri, það er tveimur dögum undir meðallagi.

Góður júnídagur
""
Góðviðrisbólstrar yfir Borgarfirði og Borgarnesi 6. júní 2014. Ljósmynd: Áskell Þórisson.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 115 og er það 46 stundum undir meðallagi sé miðað við 1961 til 1990, en 96 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir hafa ekki verið færri í júní í Reykjavík síðan 1995. Í fyrra voru þær þó aðeins 6 fleiri en nú.

Sólskinsstundir mældust 170 á Akureyri. Það er  7 stundum minna en að meðallagi 1961 til 1990, en 4 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Vindhraði og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var um 1,3 m/s undir meðallagi og hefur ekki verið jafnhægur á mönnuðum stöðvum í júní síðan 1963. Júní var sá hægasti á sjálfvirkum stöðvum frá upphafi mælinga þeirra, eða í 19 ár.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1016,8 hPa og er það 6,7 hPa yfir meðallagi. Þótt þetta sé í hærra lagi var þrýstingur þó enn hærri í júní 2012. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1027,9 hPa í Bolungarvík þann 14. Þrýstingur varð lægstur í mánuðinum í Bolungarvík þann 30., 999,7 hPa.

Fyrstu sex mánuðir ársins 2014

Fyrstu sex mánuðir ársins 2014 hafa verið óvenjuhlýir og hafa aðeins þrisvar verið hlýrri í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Það var 1964, 1929 og 2003. Á Akureyri hafa fyrstu sex mánuðir ársins aðeins tvisvar sinnum verið hlýrri (frá 1882 að telja), það var 1964 og 1974. Munur á hita fyrstu sex mánaða ársins á Akureyri nú og áranna 1929 og 2003 er ómarktækur.

Á Akureyri hefur úrkoma aðeins einu sinni áður mælst meiri fyrstu sex mánuði ársins heldur en nú. Það var 1989. Úrkoman hingað til er nú um 50 prósent umfram meðallag og hefur náð 70 prósentum meðalársúrkomu.

Í Reykjavík var sérlega þurrt í janúar og febrúar og úrkoma var nærri meðallagi í apríl og maí. Aftur á móti var úrkoma langt yfir meðallagi í mars og í júní. Summa fyrstu sex mánaðanna er um 7 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var vel yfir meðallagi í júní en þyngra vegur hinn sérlega lági þrýstingur í janúar og febrúar þannig að meðalþrýstingur fyrstu sex mánaða ársins er enn langt undir meðallagi og hefur aðeins átta sinnum verið lægri frá því að samfelldar mælingar hófust 1823.

Sólskinsstundir það sem af er ári eru um 50 færri á Akureyri en að meðaltali 1961 til 1990. Í Reykjavík eru sólskinsstundirnar rúmlega 40 stundum færri en að meðaltali sama tímabil en 180 stundum færri heldur en að meðaltali fyrstu sex mánuði ársins síðustu 10 árin (2004 til 2013).

Skjöl fyrir júnímánuð

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní 2014
Þessa grein má einnig sækja eða lesa sem Tíðarfar í júní 2014 (pdf 0,4 Mb).

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica