Fréttir
Fánar að húni við vígslu ofurtölvunnar.

Ofurtölvan vígð

Danskir og íslenskir samstarfsmenn gleðjast

28.4.2016

Veðurstofa Íslands og danska veðurstofan (DMI) stóðu í sameiningu að dagskrá og móttöku fimmtudaginn 28. apríl 2016 til að fagna samstarfi stofnananna og vígslu ofurtölvu, Cray XC30. Þetta er í fyrsta sinn sem Cray ofurtölva er tekin í notkun á Íslandi en Cray hefur verið leiðandi fyrirtæki við gerð ofurtölva í 45 ár.

Dagskráin hófst kl. 13:30. Boðið var upp á skoðunarferð í tölvusal og var það einstakt tækifæri þar sem aðgengi að tölvusölum Veðurstofunnar er afar takmarkað.

Viðstödd við vígsluna voru m.a. Marianne Thyrring, forstjóri DMI og fulltrúar hins opinbera hér á landi.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði gesti ásamt forstjórum beggja stofnananna. Sérfræðingar á vegum stofnananna fjölluðu um aðgerðir vegna komu tölvunnar; hverju staðsetning hennar á Íslandi mun breyta og spáðu í tækifæri framtíðarinnar.

 

Sagan, tæknin og tækifærin

Samningur stofnananna um sameiginlegan rekstur ofurtölvu var undirritaður í nóvember 2014. Tölvan kom til landsins ári seinna, keyrsluprófun lauk í febrúar á þessu ári og er tölvan nú í fullum rekstri.

Tölvan er í eigu DMI, staðsett í húsnæði Veðurstofunnar og afurðirnar samnýttar af báðum aðilum. Cray XC30 notar yfir 20 sinnum meiri orku en allt tölvukerfi Veðurstofunnar. Hún þrefaldar reiknigetu DMI og notar að allt að 400 kW af rafmagni sem hefði gert rekstur hennar mun dýrari væri hún staðsett í Danmörku. Full uppsett mun hún geta framkvæmt 700.000 milljarða reikniaðgerða á hverri sekúndu eða 700 TFLOPS. Örgjörvarnir eru af gerðinni Intel Xeon með samtals um 24 þúsund tölvukjörnum (e. cores).

Samningurinn um sameiginlega nýtingu veitir Veðurstofunni aukin tækifæri á sviði loftslagsrannsókna og við þróun spálíkana. Möguleikar í veðurþjónustu munu aukast, s.s. í þjónustu við alþjóðaflug. Aukið aðgengi að gögnum mun efla rannsóknir, jafnt á fortíðarloftslagi sem framtíðarsviðsmyndum loftslags og er þess vænst að stofnanirnar muni eiga samstarf um loftslagsmál á norðurslóðum.

Dæmi eru um að veðurstofur samnýti ofurtölvur og má gera ráð fyrir að aðrar veðurstofur og stofnanir, einkum norrænar, taki til athugunar að hýsa ofurtölvur í gagnaverum á Íslandi í framtíðinni.

Viðbótarefni

Streymi af fundinum má skoða hér á vefnum (vafrinn Chrome hefur reynst best)

Fleiri ljósmyndir frá þessum viðburði eru birtar í sérstakri grein.

Fyrri fréttir af komu ofurtölvunnar:

Undirbúningur fyrir væntanlega ofurtölvu

Aukið samstarf við dönsku veðurstofuna

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica