Nýjar vefsíður fyrir snjóflóðaspár komnar í loftið
Veðurstofan hefur sett nýjar síður fyrir svæðisbundnar snjóflóðaspár í loftið. Síðurnar eru nýjasti áfanginn í endurnýjun á vef Veðurstofunnar og öllu tækniumhverfi vefsins.
Helstu breytingar og nýjungar:
- Allar upplýsingar frá snjóflóðavaktinni komnar á einn stað
- Skýrari framsetning á snjóflóðahættu í byggð og óbyggðum
- Svæðisbundnar spár, upplýsingar um nýleg snjóflóð og tilkynningar frá almenningi aðgengilegar saman
- Bætt og þysjanleg kort og fleiri gagnvirkar þekjur
- Hönnun sérstaklega unnin með þarfir farsímanotenda í huga
Nýja síðan er miðlægur vettvangur fyrir allar upplýsingar frá snjóflóðavaktinni. Þar er birt mat á snjóflóðahættu og aðstæðum bæði í byggð og óbyggðum, ásamt svæðisbundnum spám, gögnum um nýleg snjóflóð og tilkynningum sem berast frá almenningi. Fréttir frá snjóflóðavaktinni eru einnig mikilvægur hluti síðunnar og verða eftir flutning á nýtt vefumhverfi aðalbirtingarstaður þeirra. Með þessu verður einfaldara fyrir fjölmiðla, fagaðila og almenning að fylgjast með þróun aðstæðna í rauntíma á einum og sama stað.
Mat á aðstæðum og skynsamlegt leiðarval er lykilatriði fyrir þá sem ferðast um fjalllendi og fjallvegi landsins.
Hildigunnur H.H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands
„Snjóflóðaspár Veðurstofunnar gagnast öllum þeim sem þurfa að taka ákvarðanir sem tengjast snjóflóðahættu og er tilgangurinn að draga úr áhættu almennings vegna snjóflóða“, segir Hildigunnur H.H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands. „Mat á aðstæðum og skynsamlegt leiðarval lykilatriði fyrir þá sem ferðast um fjalllendi og fjallvegi landsins. Framsetning á spám og upplýsingum tengdum snjóflóðahættu á vefnum þarf því að vera skýr og aðgengileg til að gagnast okkar notendum sem best“, segir Hildigunnur.

Á nýjum síðum Veðurstofu Íslands er snjóflóðahætta sett fram á skýran og aðgengilegan hátt, með kortum, spám og vöktun.
Samvinna við notendur mikilvæg við þróun á nýjum vef
Þær vefsíður sem birtast undir vefslóðinni gottvedur.is eru enn þá í þróun og leggur Veðurstofan mikið upp úr því að fá viðbrögð frá notendum til að bæta birtingu upplýsinga í takti við þeirra óskir.
Notendur sem nýta sér snjóflóðaspár Veðurstofunnar eru því hvattir til að kynna sér nýju síðurnar og senda inn ábendingar á netfangið nyrvefur@vedur.is. Stefnt er svo að því að birta uppfærða útgáfu af snjóflóðaspám snemma á næsta ári, með viðbótareiginleikum sem styðja ákvarðanatöku enn betur fyrir bæði almenna notendur og þá sem ferðast um óbyggð og afskekkt svæði.
Þegar endurnýjun á vefsíðum er komin vel á veg munu nýju síðurnar sem í dag birtast undir vefslóðinni gottvedur.is færast á vefslóðina vedur.is.
„Við rekum vef sem er vinsæll og samfélagslega mikilvægur og við vonumst til að komast vel áfram með endurnýjun á öllu vefumhverfinu á næsta ári ásamt okkar öfluga teymi sérfræðinga hjá Origo. En á sama tíma viljum við vanda til verka og vefnum fylgir hátt tæknilegt flækjustig þannig að verkið þarf að vinnast í réttum skrefum sem sum taka tíma,“ segir Hildigunnur.
Frá og með deginum í dag eru eldri síður fyrir snjóflóðaspár sem birtast á vedur.is ekki aðgengilegar. Upplýsingar um hættumat vegna ofanflóða, viðbúnað og rýmingaráætlanir eru áfram aðgengilegar á ofanflóðasíðum á vedur.is. Einnig verða fréttir frá skriðuvakt Veðurstofunnar áfram aðgengilegar á vedur.is
Ný kortasýn og bætt framsetning
Stærstu breytingarnar eru þær að nú eru öll kort þysjanleg og hægt er að velja mismunandi þekjur, svo sem hallakort, sem nýtast við mat á aðstæðum. Þegar fólk lendir í snjóflóðum í óbyggðum er algengast að viðkomandi sjálfur eða einhver í hópnum hafi sett snjóflóðið af stað með því að ferðast um upptakasvæðið eða nærri því. Snjóflóð eiga sjaldnast upptök þar sem landhalli er undir 30 gráðum og má því draga úr áhættu með því að halda sig utan brattari svæða.
Framsetningin á spám og kortum er einnig hönnuð með þarfir farsímanotenda í huga en um 60% gesta vedur.is nálgast upplýsingarnar í gegnum farsíma.

Ef notandinn velur kortasýn má sjá hver hallinn er í fjallshlíðum. Hér sést dæmi um halla í fjallhlíðum á Tröllaskaga.
Líkt og á núverandi vef gefur Veðurstofan út svæðisbundnar snjóflóðaspár fyrir fimm landsvæði. Á tímabilinu frá 15. október til 31. desember eru spárnar gerðar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum klukkan 19 og uppfærðar oftar ef þurfa þykir. Frá 1. janúar til 1. júní eru spár gerðar daglega. Spárnar eru gerðar fyrir þrjá daga í senn og ná yfir stór svæði og taka bæði til snjóflóða af náttúrulegum orsökum og af mannavöldum.
Notendur geta séð upplýsingar um nýleg snjóflóð á sama korti og snjóflóðaspárnar, ásamt nánari upplýsingum um hverja atburðaskráningu. Á næstu misserum verður bætt við fleiri þekjum á kortið, til dæmis upplýsingum um snjólag, úrkomu, mælingar úr fjallaveðurstöðvum, skuggakort og fleira. Veðurstofan vill gjarnan fá ábendingar frá notendum um hvaða upplýsingar skipta mestu máli til að efla öryggi og bæta yfirsýn yfir aðstæður.




