Fréttir

Næsti skammtur af viðvörunum

23.2.2022

Uppfært 23.02. kl. 9.00

Appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir Vestfirði og Breiðafjörð. Í kortunum er norðaustan stormur með vindhraða á bilinu 18 - 28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s. Einnig er spáð talsverðri snjókomu og skafrenning með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Gular viðvaranir eru í gildi fyrir Strandir og Norðurland vestra og Norðurland eystra.


Uppfært kl. 13.00

Gular viðvaranir hafa tekið við af þeim appelsínugulu, þó er ennþá appelsínugul viðvörun á Miðhálendinu. Það dregur úr vindi og úrkomu í kvöld og við tekur hæg suðlæg átt og snjókoma sunnantil seint í kvöld og nótt. Gengur í norðaustan 15-23 m/s með snjókomu eða éljum á morgun, fyrst á Vestfjörðum, en hægara og bjart með köflum sunnan heiða. Frost 0 til 7 stig, minnst við sjávarsíðuna.


Uppfært kl. 10.30

Hættustigi og óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið aflýst á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum. Austan óveður gekk yfir sunnanverða Vestfirði í gærkvöldi og fram á nótt og var hluti af rýmingarreit 4 á Patreksfirði rýmdur vegna snjóflóðahættu. Nýr varnargarður ver nú innri hluta rýmingarreits 4 en framkvæmdir eru hafnar á garði sem verja á ytri hlutann. Veðrið tók að ganga niður í nótt og lítil úrkoma mældist á norðanverðum Vestfjörðum. Tvö snjóflóð féllu uppúr miðnætti ofan við svæðið sem rýmt var á Patreksfirði í nótt og snjóflóð féll yfir veg á Raknadalshlíð innar í firðinum. Ekki hafa borist fréttir af fleiri flóðum.


Uppfært 22.02. kl. 8.45

Mjög djúp og kröpp lægð hreyfist norður yfir Breiðafjörð og Vestfirði, en hún olli miklu óveðri í gærkvöldi.

Staða lægðarinnar veldur tívskíptum vindstefnum á landinu: austanstormi og snjókomu eða skafrenningi á norðanverðu landinu, en suðvestanstormi eða -roki með rigningu eða slyddu syðra. Hiti yfirleitt nærri frostmarki.

Fjöldi veðurviðvarana eru í gildi, bæði gular og appeslínugular, en þær falla hver af annari úr gildi seinnipartinn. Ferðalagnar eru því hvattir til að vera á varðbergi gegn sviptingum í veðri og færð í dag. Mikil ölduhæð og há sjávarstaða getur einnig valdið vandræðum við suður- og vesturströndina, ekki síst á hafnarsvæðum.

Uppfært kl. 19.15

Veðrið á Patreksfirði hefur versnað mikið, vindur er kominn í austan rúmlega 20 m/s á Brellum, það snjóar töluvert og skefur. Því hefur verið lýst yfir hættustigi vegna snjóflóða. Veðurspáin fyrir nóttina gerir ráð fyrir austan og norðaustan 20-28 m/s með talsverði snjókomu í nótt. Ákveðið hefur verið að rýma hluta rýmingarreits 4 á Patreksfirði og hættustigi er lýst yfir. Minniháttar snjóflóð féll aðfaranótt sunnudags ofan við þennan rýmingarreit. Varnargarður ver hluta reitsins en framkvæmdir eru hafnar við garð sem á að verja þann hluta sem nú hefur verið rýmdur.


Uppfært kl. 16.25

Óvissustig vegna snjóflóðahættu á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar er spáð austanroki eða ofsaveðri í kvöld, 21. febrúar, og nótt með talsverðri eða mikilli snjókomu. Töluverður snjór er nú þegar á svæðinu og hefur skafið mikið í hvössum austanáttum síðustu daga. Minniháttar snjóflóð féll á Patreksfirði aðfaranótt sunnudags, ofan við varnargarð í byggingu. Ekki er talin hætta í byggð sem stendur en talið er að aðstæður geti versnað í kvöld á sunnanverðum Vestfjörðum. Fylgst verður náið með stöðunni. Nánar á bloggsíðu snjóflóðavaktar Veðurstofunnar.


Færsla 21.02., kl. 14.30

Gefnar hafa verið út rauðar, appelsínugular og gular viðvaranir vegna veðurs. Fyrsta viðvörunin tekur gildi kl. 16 í dag, mánudag og sú síðasta rennur út kl. 19 á morgun, þriðjudag. Alls hefur spádeildin gefið út 39 viðvaranir fyrir næsta sólarhringinn eða svo.

Ríkislögreglustjóri í samráði við alla lögreglustjóra á landinu ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna frá klukkan 17:00 í dag.  Samhæfingarmiðstöð Almannavarna verður starfrækt frá og með þá og fram til morguns.

Lægð hefur verið í foráttu vexti og hefur nálgast landið úr suðvestri. Síðdegis versnar veðrið ört, og í kvöld verður suðaustan rok eða ofsaveður á suðurhelmingi landsins með talsverðri rigningu, slyddu eða snjókomu og hita rétt yfir frostmarki. Veðrið versnar örlítið seinna norðanlands, en þar verður kominn austan og suðaustan stormur eða rok með snjókomu og skafrenningi nálægt miðnætti.

Í nótt gengur lægðin til norðurs yfir vestanvert landið, og þá snýst í suðvestan og vestan 18-28 m/s með rigningu eða snjókomu sunnanlands, hvassast við suðvesturströndina. Í fyrramálið snýst einnig í hvassa suðvestanátt norðantil á landinu og jafnframt styttir upp um landið norðaustanvert. Seinnipartinn á morgun dregur svo úr vindi með éljum sunnan- og vestanlands og kólnar smám saman.

Ekkert ferðaveður, líkur á foktjóni og einnig vatnstjóni vegna leysinga

Innan tímabils þeirra viðvarana sem gefnar hafa verið út, má gera ráð fyrir talsverðri rigningu eða snjókomu. Snjórinn getur valdið ófærð á götum og fjallvegum og því ekkert ferðaveður meðan viðvaranir eru í gildi. Rigning og leysing getur valdið vatnselg og því þarf að reyna að tryggja að vatn komist í fráveitukerfi og til að forðast vatnstjón. Eins eru líkur á foktjóni og er fólki ráðlagt að ganga frá lausum munum. Verktökum er bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica