Textaspá - Yfirlit

Hugleiðingar veðurfræðings

Nú í morgunsárið er 980 mb lægð stödd syðst á Grænlandshafi. Lægðin er enn að dýpka og færist nær okkur. Í dag gengur í allhvassa eða hvassa suðaustanátt á Suður- og Vesturlandi með talsverðri eða jafnvel mikilli rigningu. Lausir munir geta fokið í þessum vindstyrk, t.d. garðhúsgögn og trampólín og því rétt að festa slíka hluti eða koma í skjól. Vindhviður við fjöll geta náð um eða yfir 30 m/s, t.d. við Eyjafjöll, á Kjalarnesi og við Hafnarfjall og getur verið varasamt að vera þar á ferðinni, sérílagi á ökutækjum sem viðkvæm eru fyrir vindi.

Á Norður- og Austurlandi verður hið ágætasta veður fram eftir degi, mun hægari vindur og þurrt að kalla.
Í kvöld hefur vindstyrkur jafnast út og má þá búast við strekkingsvindi víða um land. Mjög vætusamt verður þá á öllu landinu þegar hið volduga regnsvæði lægðarinnar hefur náð að breiða sig yfir það allt.

Umrædd lægð mun halda áfram að ráða öllu í veðrinu hjá okkur í byrjun næstu viku. Á mánudag er útlit fyrir sunnan strekking eða allhvassan vind. Þó ber að taka fram að norðvestanvert landið og vesturströndin verður væntanlega í mun hægari vindi - nokkurs konar svikalogni inni í lægðarmiðunni. Áfram rignir víða með þokkalegum hita eða 10 til 14 stig. Á norðaustanverðu landinu á mánudaginn er hins vegar útlit fyrir þurrt og bjart veður og allt að 20 stiga hita í hnjúkaþey (svo kallst hlýr vindur sem stendur af fjöllum).
Spá gerð: 25.08.2019 06:44. Gildir til: 26.08.2019 00:00.

Veðuryfirlit

Um 800 km SV af Reykjanesi er vaxandi 980 mb lægð sem þokast NA. 300 km S af Jan Mayen er 1002 mb lægð sem fer NA.
Samantekt gerð: 25.08.2019 05:12.

Veðurlýsing


Samantekt gerð: 25.08.2019 00:30.

Veðurhorfur á landinu

Vaxandi suðaustanátt með morgninum og fer að rigna, 13-20 m/s eftir hádegi og talsverð rigning, en sums staðar mikil úrkoma sunnanlands. Mun hægari vindur og þurrt að mestu á Norður- og Austurlandi fram eftir degi. Hiti 8 til 15 stig. Suðaustan 8-15 í kvöld og mjög vætusamt á landinu.

Sunnan 10-18 á morgun, en lengst af hægari vindur norðvestantil á landinu og með vesturströndinni. Víða rigning og hiti 10 til 14 stig, en þurrt og bjart um landið norðaustanvert með allt að 20 stiga hita.
Spá gerð: 25.08.2019 05:15. Gildir til: 26.08.2019 00:00.

Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu

Vaxandi suðaustanátt með morgninum og fer að rigna, 13-18 m/s uppúr hádegi. Talsverð rigning um tíma síðdegis. Suðaustan 8-13 í kvöld og áfram vætusamt.
Breytileg átt 3-8 á morgun og rigning með köflum, sunnan 10-15 annað kvöld.
Hiti 9 til 13 stig.
Spá gerð: 25.08.2019 05:04. Gildir til: 26.08.2019 00:00.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Sunnan 10-18 m/s, en lengst af hægari vindur norðvestantil á landinu. Víða rigning og hiti 10 til 14 stig, en þurrt og bjart um landið norðaustanvert með allt að 20 stiga hita.

Á þriðjudag:
Suðlæg átt með skúrum á vesturhelmingi landsins. Rigning suðaustanlands, en bjart veður norðaustantil. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á miðvikudag:
Breytileg átt og skúrir eða dálítil rigning í flestum landshlutum. Hiti 8 til 14 stig.

Á fimmtudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt. Skýjað og lítilsháttar væta um landið norðanvert, en skúrir sunnantil. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:
Norðaustanátt með dálítilli rigningu, en þurrt sunnan heiða. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á laugardag:
Útlit fyrir vaxandi austanátt með rigningu, en þurrt norðanlands.
Spá gerð: 24.08.2019 21:13. Gildir til: 31.08.2019 12:00.


Textaspár eru skrifaðar af vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica