Fréttir
Meðalhiti fyrstu sjö mánuði ársins (janúar – júlí ) í Stykkishólmi. Súluritið sýnir árin þegar þessir fyrstu 7 mánuðir ársins voru hlýjastir og kaldastir, ásamt meðaltali áranna 1991 til 2020.

Tíðarfar 2025: Hlýindi, met og sögulegar hitatölur

26.8.2025

Tíðin það sem af er ári hefur einkennst af óvenjulegum hlýindum. Sérstaklega í vor og sumar.

Helstu tíðindi:

  • Hlýjasti maí á landsvísu og á langflestum veðurstöðvum frá upphafi mælinga.
  • Hlýjasta vor (apríl og maí) sem skráð hefur verið á landsvísu.
  • Hlýjasti júlí á landsvísu frá upphafi mælinga, ásamt júlí 1933 sem var jafnhlýr.
  • Nýtt landsmet í maí: 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli 15. maí.
  • Nýtt landsmet í ágúst: 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli 16. ágúst.
  • Hlýjustu fyrstu sjö mánuðir ársins í Stykkishólmi á 180 ára sögu mælinga.

Hlýjasti maí frá upphafi mælinga með tíu daga hitabylgju, hlýjasta vor sem skráð hefur verið, júlí sem jafnaði metið frá 1933 og nýtt hámarkshitamet í ágúst. Fyrstu sjö mánuðir ársins hafa jafnframt verið þeir hlýjustu í 180 ára mælingaröð Stykkishólms. Árið 2025 hefur þegar skráð sig í sögubækurnar sem eitt það hlýjasta sem mælst hefur á Íslandi og ný met hafa verið sett bæði í einstökum mánuðum og á landsvísu.

 Mynd-1-Landsmedalhiti-hvers-dags-thad-sem-af-er-ari-2025

Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025 (1.janúar – 21.ágúst), miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Mynd2_stykkisholmur_fyrstu7man
Meðalhiti fyrstu sjö mánuði ársins (janúar – júlí ) í Stykkishólmi. Súluritið sýnir árin þegar þessir fyrstu 7 mánuðir ársins voru hlýjastir og kaldastir,  ásamt meðaltali áranna 1991 til 2020.

Nánar um þessi hlýindi:

Vorið (apríl og maí)

Vorið 2025 var það hlýjasta sem mælst hefur á landsvísu. Sérstaklega hlýtt var í byrjun apríl og maímánuður reyndist hlýrri en nokkru sinni áður. Með þessu var slegið út fyrra met sem hafði staðið frá 1974.

Maí – hlýrri en nokkru sinni fyrr

Maí 2025 var jafnframt sá hlýjasti frá upphafi mælinga. Meðalhiti í byggðum landsins var 8,4 stig og fór þar með yfir fyrra met frá 1935 þegar meðalhitinn var 7,6 stig. Mánuðurinn var einnig sá hlýjasti á langflestum veðurstöðvum landsins. Afar óvenjuleg tíu daga hitabylgja stóð yfir dagana 13.-22. maí og er hún sú mesta sem vitað er um í maímánuði.

Þann 15. maí var sett nýtt landsmet í hámarkshita í maí þegar hitinn fór í 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli. Eldra metið, 25,6 stig á Vopnafirði, hafði staðið frá árinu 1992. Ný hámarkshitamet í maí voru skráð á nánast öllum veðurstöðvum landsins eða á 94% allra sjálfvirkra stöðva með að minnsta kosti 20 ára mælingasögu. Hiti fór í 20 stig eða meira alls 11 daga í maí, þar af 10 daga í röð í hitabylgjunni. Hlýindin náðu hámarki dagana 17. og 18. þegar hitinn fór í 20 stig eða meira á um helmingi allra veðurstöðva landsins.

Mynd-3-hitavik

Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í maí miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024). Mánaðarhitinn í maí var langt yfir meðallagi á öllu landinu. Að tiltölu var hlýjast á hálendinu norðaustan- og austanlands þar sem meðalhitinn var um fimm stigum yfir meðallagi undanfarinna tíu ára. 

Mynd-4-landsmedalhiti

Landsmeðalhiti í maí 1931-2025. Brotna línan sýnir meðaltalið 1991-2020, árin sem eru hlýrri en meðaltalið eru merkt með rauðum punkt en þau sem eru kaldari með bláum punkt. Maí 2025 var 3 stigum hlýrri en í meðalári og  langhlýjasti maímánuður frá upphafi mælinga.

Mynd-5-sjalfvirkar-vedurstodvar
Sjálfvirkar veðurstöðvar þar sem ný maíhámarkshitamet voru sett í hitabylgjunni í maí 2025. Þetta eru eingöngu veðurstöðvar sem hafa að minnsta kosti 20 ára mælisögu. Nýtt maímet var sett á  94% þeirra stöðva. Mismunandi litir punktanna sýna hvaða dag í maí nýtt met var sett, en það var ólíkt eftir landsvæðum hvaða daga hlýindin náðu hámarki.

Greining sem unnin var af alþjóðlegum vísindahópi (World Weather Attribution), með þátttöku Veðurstofu Íslands, sýnir að loftslagsbreytingar af mannavöldum hafi gert hitabylgjuna í maí allt að fjörutíu sinnum líklegri en ella og að hún hafi orðið að meðaltali um þrjár gráður heitari. Áður voru slíkir atburðir svo sjaldgæfir að endurkomutíminn var talinn lengri en byggðarsaga Íslands nær yfir, en við núverandi loftslag er líklegt að svipuð hitabylgja geti átt sér stað að jafnaði einu sinni á hundrað ára fresti. Ef hnattræn hlýnun heldur áfram og nær 2,6°C á þessari öld er talið að atburðir sem þessir geti orðið að minnsta kosti tvöfalt algengari og að meðaltali enn heitari en nú. Nánar má lesa um greininguna hér.

Júlí – jafnaði met frá 1933

Júlí 2025 reyndist hlýjasti júlímánuður á landsvísu frá upphafi mælinga, ásamt júlí 1933 sem var jafnhlýr. Hlýindin voru sérstaklega áberandi á Norðaustur- og Austurlandi og meðalhiti fór yfir 14 stig á Egilsstöðum og Hallormsstað. Slíkt er afar sjaldgæft á Íslandi og hafði áður aðeins gerst á fáeinum stöðvum í hlýindunum sumarið 2021.

Á landinu öllu mældist hiti 20 stig eða meiri í 28 daga júlímánaðar. Sérstaklega hlýtt var þann 14. júlí þegar hitinn fór yfir 20 stig á um 70% allra veðurstöðva. Þennan dag féllu fjölmörg hámarkshitamet fyrir júlí. Hæstur mældist hitinn á Hjarðarlandi í Biskupstungum, 29,5 stig, sem er meðal hæstu hitatala sem nokkru sinni hafa verið skráðar hér á landi.

Mynd-6-medalhiti-i-juli

Meðalhiti í júlí á sjálfvirkri veðurstöð á Egilsstaðaflugvelli.  Meðalhitinn í júlí 2025 var 14,2 stig og hefur aldrei mælst hærri  frá upphafi mælinga á Egilsstöðum. Það er mjög óalgengt að meðalhiti eins mánaðar á Íslandi fari yfir 14 stig.

Mynd-7-sjalfvirkar-vedurstodvar-thar-sem-julihamarksmet-voru-sett-2025

Sjálfvirkar veðurstöðvar þar sem ný júlíhámarkshitamet voru sett 2025. Þetta eru eingöngu veðurstöðvar sem hafa að minnsta kosti 20 ára mælisögu. Flest metin voru sett 14. júlí  (dökkrauðir punktar), en mismunandi litir punktanna sýna hvaða dag í júlí nýtt met var sett. Hæstur fór hitinn í 29,5 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum.

Ágúst – hæsti hiti í nærri 80 ár

Dagana 16. og 17. ágúst var mjög hlýtt á Austurlandi. Þann 16. ágúst fór hitinn í 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli og var það nýtt landsmet í hámarkshita fyrir ágúst. Eldra metið, 29,4 stig á Hallormsstað, hafði staðið frá árinu 2021. Þetta er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á sjálfvirkri veðurstöð á Íslandi og hæsti hiti sem skráður hefur verið í landinu frá árinu 1946, þegar hitinn fór í 30,0 stig á Hallormsstað.

Sumarið (júní til ágúst)
Heildaryfirlit um sumarið 2025 verður tekið saman og birt um næstu mánaðamót.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica