Fréttir
mynd
Hitavik.

Tíðarfar í júlí 2018

Stutt yfirlit

2.8.2018

Mánuðurinn var hlýr og bjartur austanlands en fremur svalur og sérlega sólarlítill sunnan- og vestanlands. Úrkoma var yfir meðallagi um mest allt land og mánuðurinn var víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið. Snögg hitabylgja gekk yfir landið þ. 29. þegar hiti fór allvíða yfir 20 stig.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 10,6 stig sem er jafnt meðaltali áranna 1961 til 1990, en -1,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 11,4 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en jafnt meðaltali síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 10,0 stig og 11,1 stig á Höfn í Hornafirði. Á Dalatanga var meðalhitinn 10,2 stig sem er hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga á þeim stað.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2008-2017 °C
Reykjavík 10,6 0,0 94 148 -1,5
Stykkishólmur 10,0 0,1 93 173 -1,2
Bolungarvík 9,1 0,1 93 121 -1,2
Grímsey 8,5 1,0 49 145 -0,4
Akureyri 11,4 0,8 49 138 0,0
Egilsstaðir 11,9 1,6 8 64 1,2
Dalatangi 10,2 2,2 1 80 1,4
Teigarhorn 10,4 1,7 5 146 0,8
Höfn í Hornaf. 11,1


0,2
Stórhöfði 9,3 -0,4 123 til 124 142 -1,5
Hveravellir 7,6 0,6 28 54 -0,9
Árnes 10,9 0,1 89 til 92 138 -1,3

Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2018

Í júlí var hlýtt í veðri á Austurlandi en svalara sunnan- og vestanlands. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Þar má sjá, líkt og síðustu tvo mánuði, skörp skil á milli landshluta. Munurinn er þó ívíð minni en var í fyrri mánuðunum tveimur. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,6 stig á Fjarðarheiði, en neikvætt hitavik var mest við Hraunsmúla, -1,7 stig. 


Hitavik sjálfvirkra stöðva í júlí 2018 miðað við síðustu tíu ár.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Hallormsstað 12,1 stig en lægstur 3,6 stig á Brúarjökli. Í byggð var meðalhitinn lægstur 7,9 stig á Hornbjargsvita.

Snögg hitabylgja gekk yfir landið þ. 29. og fór hitinn yfir 20 stig allvíða á landinu. Hitabylgjan er sú útbreiddasta á landinu þegar litið er til síðustu tíu ára (síðan í hitabylgjunni í júlílok 2008). Hæstur mældist hitinn 24,7 stig á Patreksfirði sem er jafnframt hæsti hiti mánaðarins og hæsti hiti sem mælst hefur á árinu til þessa. Tvö ný árshitamet voru slegin í hitabylgjunni, á Súðavík mældust 22,4 stig sem er það mesta frá upphafi mælinga þar árið 1995 og á Bjargtöngum mældust 21,6 stig sem er mesti hiti sem þar hefur mælst, frá 1994.

Mesta frost í mánuðinum mældist -0,9 stig á Brúsastöðum og í Litla Skarði þ. 17. 

Úrkoma

Úrkoma var yfir meðallagi um nær allt land og var mánuðurinn víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið.

Úrkoma í Reykjavík mældist 62,3 mm sem er 20% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 72,8 mm. Það er meira en tvöföld meðalúrkoma júlímánaðar. Aðeins þrisvar sinnum áður hefur mælst eins mikil úrkoma á Akureyri í júlímánuði, síðast árið 2014. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 74,9 mm sem er um 75% umfram meðallag og það mesta í júlí frá 1977. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 109,7 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 16, sex fleiri en í meðalári. Alveg þurrir dagar voru aðeins 5 í Reykjavík, þeir voru jafnfáir árið 1982 en aðeins þrír árið 1955. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 17 daga mánaðarins, 10 fleiri en í meðalári og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi mælinga.

Ný júlíúrkomumet voru sett á Grímsstöðum (116 mm), Litlu Ávík (159 mm) og Hænuvík (106 mm).

Sólskinsstundafjöldi

Sólarlítið var í Reykavík í júlí. Sólskinsstundirnar mældust 89,9, sem er 81 stund undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Ekki hefur verið eins sólarlítið í júlímánuði í Reykjavík síðan árið 1989. Á Akureyri mældust 122,5 sólskinsstundir, 36 færri en í meðalári.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var í meðallagi. Vestlægar áttir voru ríkjandi fyrstu 3 vikur mánaðarins, en eftir þann 22. skipti yfir í austlægar áttir. Hvassast var þ. 9. í suðvestanátt. Einnig fylgdi norðaustan hvassviðri hitabylgjunni þ. 29.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1005,8 hPa og er það 4,3 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1023,4 hPa á Höfn í Hornafirði þ. 10. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 985,6 hPa í Surtsey þ. 30.

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins var 4,7 stig, sem er 0,6 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 38. sæti á lista 148 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,7 stig sem er 1,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 12. sæti á lista 138 ára.

Úrkoma hefur verið 45% umfram meðallag í Reykjavík og um 30% umfram meðallag á Akureyri. Úrkomudagar í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins hafa aldrei verið fleiri frá upphafi mælinga.

Skjöl fyrir júlí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2018 (textaskjal).
Daglegtyfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica