Fréttir

Veðurhorfur um verslunarmannahelgina – lægð á leiðinni

31.7.2025


  • Ört dýpkandi lægð nálgast úr suðvestri og mun stýra veðrinu næstu daga. 

  • Gul viðvörun vegna vinds á Suðurlandi og miðhálendinu annað kvöld og fram á aðfaranótt laugardags. 

  • Aðstæður geta verið varasamar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og tjöld geta fokið. 

  • Hætta á grjóthruni, yfirborðsskriðum og farvegabundnum aurskriðum við brattar hlíðar, einkum sunnan- og vestanlands. 

  • Ferðalangar eru hvattir til að fylgjast með:  

  • Bjart með köflum norðaustantil og dregur úr vindi þar um helgina. 

Veðurdagatal 

Föstudagur 1. ágúst 
Á morgun nálgast ört dýpkandi lægð landið úr suðvestri og mun hún stýra veðrinu næstu daga. Þá er útlit fyrir vaxandi suðaustanátt, 8-15 m/s seinnipartinn og dálítil rigning með köflum, en að mestu bjart á norðaustanverðu landinu.  

Um kvöldið ganga skil frá lægðinni yfir landið. Þá hvessir enn frekar á suðvestanverðu landinu, suðaustan 10-18 m/s þar og gul viðvörun vegna vinds tekur gildi kl. 21:00 á Suðurlandi og miðhálendinu fram á aðfaranótt laugardags. Þetta eru varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og tjöld geta fokið. Einnig er útlit fyrir talsverða úrkomu sunnan- og suðaustantil á landinu fram á laugardagsmorgun.  

Laugardagur 2. ágúst 
Á laugardag er útlit fyrir suðlæga átt, 8-15 m/s og rigningu með köflum, en síðdegis hvessir heldur vestanlands. Bjart með köflum á Norðausturlandi og dregur smám saman úr vindi austanlands þegar líður á daginn.  

Sunnudagur 3. ágúst 
Á sunnudag er útlit fyrir suðvestan 5-13 m/s og skúrir, en áfram bjartara norðaustantil. Hægari og úrkomuminna á sunnudagskvöld. Hiti yfirleitt á bilinu 10 til 20 stig, hlýjast á Norðausturlandi. 


Skjamynd-2025-07-31-145039

Úrkomuspá – laugardagur kl. 00:00

Viðvaranir – grjóthrun og skriður  

Í ljósi þess að um er að ræða eina fjölförnustu ferðahelgi ársins, er ástæða til að vara við hættu á grjóthruni, yfirborðsskriðum og farvegabundnum aurskriðum við brattar hlíðar í kjölfar úrkomu. Forðist að tjalda undir bröttum hlíðum, þar sem grjóthrun getur orðið lífshættulegt.  

Sýnið aðgát við akstur á vegum sunnan- og vestanlands og fylgist með upplýsingum um aðstæður á vef Vegagerðarinnar: umferdin.is. Einnig er hægt að fylgjast með stöðunni á vef Veðurstofunnar og nýjustu uppfærslum frá skriðuvakt.  

Veðurstofan heldur úti skriðuvakt og fylgist grannt með aðstæðum næstu daga. Ef þú verður var við grjóthrun eða skriður, er mikilvægt að tilkynna það: skriduvakt@vedur.is 
eða í gegnum tilkynningaform á vedur.is 
Gott er að láta fylgja með myndir, nákvæma staðsetningu og tímasetningu. 

Ferðafólk er hvatt til að fylgjast með: 

  • veðurviðvörunum Veðurstofunnar á vedur.is   

  • og skoða upplýsingar um færð og aðstæður á vef Vegagerðarinnar umferdin.is

Staða eldgossins og gasdreifing 

Gosið er enn virkt með stöðugum hraunflæði til austurs frá gígnum. Hraunjaðrar færast hægt til suðurs og norðurs meðfram Fagradalsfjalli og breiðan heldur áfram að þykkna. Það eykur líkur á framhlaupi við jaðrana, sem getur reynst lífshættulegt þeim sem standa of nærri. 

Í dag, fimmtudag, er vestlæg átt og því getur gasmengun borist víða um Suðurland. Þegar líður á nóttina snýst í suðaustlæga átt, og á föstudag má reikna með að gas berist til norðvesturs – meðal annars í átt að Vogum, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá Veðurstofunnar.  

 

 






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica