Fréttir
Í svæðisbundinni snjóflóðaspá er snjóflóðahætta skilgreind í fimm stigum eftir alþjóðlegri skilgreiningu fyrir slíkar spár. Spáin er gerða fyrir stórt svæði og tekur bæði til snjóflóða af náttúrulegum
Snjóflóðaspá fyrir SV-hornið eins og hún birtist á vef Veðurstofunnar

Veðurstofan birtir nú snjóflóðaspá fyrir SV-hornið

Tilraunaverkefni fram á vor

4.3.2019

Frá og með deginum í dag birtir Veðurstofan svæðisbundna snjóflóðaspá fyrir SV-hornið. Um er að ræða tilraunaverkefni fram á vor. Spáin verður sambærileg þeirri sem nú þegar er gerð fyrir norðanverða Vestfirði, utanverðan Tröllaskaga og Austfirði. Um er að ræða fjalllendið austur af höfuðborgarsvæðinu frá Bláfjöllum í suðri að Hvalfirði í norðri.

Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavöktunar Veðurstofunnar, segir að með þessu sé verið að bregðast við aukinni þörf á snjóflóðamati vegna mikillar fjölgunar útivistarfólks sem ferðast um fjalllendi að vetrarlagi. „Snjóflóð eru ein helsta hættan sem fylgir ferðum um fjalllendi að vetrarlagi og þá sérstaklega snjóflóð af mannavöldum. Yfir 90% þeirra sem lenda í snjóflóði í óbyggðum hafa sett flóðið af stað sjálfir eða einhver í þeirra hópi“, segir Harpa.

Ofanflóðavakt Veðurstofunnar er með snjóathugunarmenn víða um land þar sem hætta er talin vera á snjóflóðum í þéttbýli. Gögn frá snjóathugunarmönnunum nýtast einnig í svæðisbundið mat á aðstæðum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur nú verið ráðinn snjóathugunarmaður fyrir þetta tilraunaverkefni og er það fyrsti snjóathugunarmaðurinn sem er sérstaklega ráðinn til þess að fylgjast með snjóflóðahættu í óbyggðum.

Snjóflóðaspá aðeins eitt af mörgu sem þarf að skoða til að bæta öryggi í fjallaferðum að vetrarlagi

Harpa segir mikilvægt að taka fram að svæðisbundin snjóflóðaspá er gerð fyrir stórt svæði, en innan þess svæðis getur verið mikill breytileiki í stöðugleika snævar. Spáin getur því aldrei komið í staðinn fyrir staðbundið mat hverju sinni, en hún er eitt af því sem einstaklingar geta nýtt sér til þess að meta sjálfir snjóflóðahættu á hverjum stað fyrir sig. „Það ætti enginn að ferðast um brattar brekkur að vetrarlagi án þess að hafa kunnáttu til þess að meta snjóflóðahættu þar sem ferðast er og vanda leiðarval. Hver ferðamaður og ferðahópur ber ábyrgð á sínu leiðarvali og þarf að leggja mat á aðstæður þannig að öryggis sé gætt. Það má til að mynda bæta öryggi umtalsvert með því að halda sig frá hlíðum þar sem bratti er 30° eða meiri“, segir Harpa.

Samstarf við fjallaferðalanga á landinu er Veðurstofunni mikilvægt

„Til þess að spáin verði sem best er mikilvægt fyrir snjóflóðavakt Veðurstofunnar að fá upplýsingar um aðstæður frá fólki sem er á ferðinni og það gildir reyndar um allt landið, hvort sem formleg spá er gerð fyrir viðkomandi svæði eða ekki“ segir Harpa að lokum og hvetur ferðalanga til að koma upplýsingum til ofanflóðavaktar Veðurstofunnar með því að hringja í síma 522 6000 og biðja um snjóflóðafræðing á vakt, eða senda tölvupóst í netfangið snjoflod@vedur.is.

Hér eru leiðbeiningar um það hvernig spáin virkar: https://www.vedur.is/ofanflod/snjoflodaspa/utskyringar/





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica