Útskýringar á spá um snjóflóðahættu

Útskýringar á spá um snjóflóðahættu

Spárnar eru hugsaðar fyrir fjallendi

Snjóflóðaspár fyrir valin svæði

Lesa má um svæðisbundnar snjóflóðaspár í grein frá 2013.

Í svæðisbundinni snjóflóðaspá er snjóflóðahætta skilgreind í fimm stigum eftir alþjóðlegri skilgreiningu fyrir slíkar spár. Spáin er gerða fyrir stórt svæði og tekur bæði til snjóflóða af náttúrulegum orsökum og af mannavöldum. Það er tvennt sem er mikilvægt að hafa í huga varðandi snjóflóðaspárnar:

  • Snjóflóðaspáin þarf ekki að vera lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð
  • Snjóflóðaspáin kemur ekki í staðinn fyrir mat hvers og eins á aðstæðum þar sem ferðast er og skynsamlegt leiðarval.

Veðurstofan vaktar einnig snjóflóðahættu í byggð og fyrir það eru notuð samræmd hugtök sem nánar er lýst hér að neðan.

Fyrir hverja er svæðisbundin snjóflóðaspá?

Spáin er gerð með útivistarfólk í fjalllendi í huga, en getur þó gagnast fleirum. Hún veitir almenningi upplýsingar um snjó- og snjóflóðaaðstæður á ákveðnu svæði. Spáin er mjög almenn vegna takmarkaðra upplýsinga og nær yfir stórt svæði. Hún getur því aldrei komið í staðinn fyrir staðbundið mat hverju sinni, en hún er eitt af því sem einstaklingar geta nýtt sér til þess að meta sjálfir snjóflóðahættu á hverjum stað fyrir sig.

Snjóflóð eru ein helsta hættan sem fylgir ferðum um fjalllendi að vetrarlagi. Þegar menn lenda í snjóflóði í óbyggðum hefur fórnarlambið sjálft, eða samferðamaður þess, í flestum tilfellum sett snjóflóðið af stað. Í svæðisbundnu snjóflóðaspánni er komið á framfæri fyrirliggjandi upplýsingum um lagskiptingu snævar og fréttum um snjóflóð sem fallið hafa á viðkomandi svæði. Jafnframt er eðli snjóflóðahættunnar lýst og hvers konar staði ber helst að varast. Lagskipting og stöðugleiki snævar er gjarnan mjög mismunandi frá einum stað til annars og getur breyst hratt. Staðbundin snjóflóðahætta getur því verið víðar en spáin gefur til kynna og snjóflóð kunna að hafa fallið á fleiri stöðum en fréttir hafa borist um

Það ætti enginn að ferðast um brattar brekkur að vetrarlagi án þess að hafa kunnáttu til þess að meta snjóflóðahættu þar sem ferðast er og vanda leiðarval. (Hver ferðamaður og ferðahópur ber ábyrgð á sínu leiðarvali og þarf að leggja mat á aðstæður þannig að öryggis sé gætt. )Það má bæta öryggi umtalsvert með því að halda sig frá hlíðum þar sem bratti er 30° eða meiri. Ef slys hendir er mikilvægt að vera með réttan útbúnað til að geta fundið og bjargað félögum sínum úr snjóflóði: snjóflóðaýli, skóflu og stöng, og hafa kunnáttu til að nota slíkan búnað.

Snjóflóðaspásvæðin

Svæðisspáin er gefin út fyrir þrjú landsvæði: norðanverða Vestfirði, utanverðan Tröllaskaga og Austfirði. Ástæðan fyrir því að spáin er gerð fyrir þessi svæði er sú að þar starfa snjóathugunarmenn á vegum Veðurstofunnar sem aðstoða við vöktun byggðar. Þeir afla gagna um veður og snjóalög sem nauðsynleg eru við gerð snjóflóðaspár. Á þessum svæðum er líka stunduð mikil fjallaferðamennska að vetrarlagi. Vonir standa til þess að hægt verði að bæta við fleiri svæðum í framtíðinni, t.d. fjalllendinu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Hvenær er snjóflóðaspá gerð?

Spáin er gerð á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 16 en hún er uppfærð oftar ef þurfa þykir. Spáin er gerð fyrir þrjá daga í senn og er settur rammi utan um daginn í dag.

Nánar um snjóflóðaspána

Spáin er gerð að alþjóðlegri fyrirmynd og er notast við snjóflóðahættutöflu EAWS (European Avalanche Warning Services). Í maí 2018 var útliti og uppsetningu spárinnar breytt frá því sem áður var og er það einnig gert skv. stöðlum EAWS. Skilgreindar eru fimm gerðir „snjóflóðavanda“ (e. avalanche problem) sem geta átt við.

Á forsíðu birtist stytt útgáfa af spánni en ef smellt er á tengilinn „Nánar“ má finna nákvæmari spá. Í fróðleiksgrein er frekari umfjöllun um snjóflóðaforsíðuna og tilgang hennar.

Snjóflóðahættutafla

Hættustig  Tákn Stöðugleiki Líkur á snjóflóðum
5 - Mjög mikil hætta Snjóþekjan er almennt mjög óstöðug. Búast má við fjölmörgum stórum og oft á tíðum mjög stórum náttúrulegum snjóflóðum, jafnvel í tiltölulega litlum bratta*.
4 - Mikil hætta Snjóþekjan er víðast óstöðug í bröttum brekkum*. Líklegt er að snjóflóð falli víða í bröttum brekkum*, jafnvel við lítið álag** á snjóþekjuna. Við sérstakar aðstæður geta fallið fjölmörg miðlungsstór og oft á tíðum stór náttúruleg snjóflóð.
3 - Töluverð hætta Snjóþekjan er nokkuð víða óstöðug eða frekar óstöðug í bröttum brekkum*. Snjóflóð geta fallið við lítið álag** á snjóþekjuna sér í lagi í bröttum brekkum*. Við sérstakar aðstæður geta fallið miðlungsstór og einstaka stór náttúruleg snjóflóð.
2 - Nokkur hætta Snjóþekjan er almennt stöðug en í einstaka bröttum brekkum* er stöðugleikinn minni. Snjóflóð geta fallið við mikið álag** á snjóþekjuna, sér í lagi í bröttum brekkum*. Litlar líkur eru taldar á stórum náttúrulegum snjóflóðum.
1 - Lítil hætta Snjóþekjan er almennt stöðug og vel samanbundin. Snjóflóð geta fallið á afmörkuðum svæðum í mjög bröttum og hættulegum brekkum* við mikið álag** á snjóþekjuna. Einu náttúrulegu snjóflóðin sem geta fallið eru smáspýjur.
Engin spá í gildi

* Snjóflóðaaðstæðum er nánar lýst í texta sem fylgir snjóflóðaspánni (t.d. landslagi, svo sem hæð yfir sjávarmáli og viðhorfi fjallshlíða).

  • Tiltölulega lítill bratti: Halli minni en 30°.
  • Brattar brekkur: Halli meiri en 30°.
  • Mjög brattar og hættulegar brekkur: Halli meiri en 40°, t.d. neðan fjallsbrúna (þar sem mikil snjósöfnun eða hengjumyndun getur orðið) eða þar sem yfirborð er slétt og því lítið viðnám milli snjóþekju og undirlags.

** Álag/áraun:

  • Lítið: Stakur skíðamaður eða brettamaður sem rennir sér átakalítið án þess að detta; maður á snjóþrúgum; hópur sem ferðast með góðu bili á milli manna (lágmark 10 m).
  • Mikið: Tveir eða fleiri skíðamenn og/eða brettamenn sem ekki ferðast með góðu bili á milli manna; snjótroðari / snjóbíll / vélsleði; sprengingar; stakur göngumaður.

Stærð snjóflóða

Í gagnasafni Veðurstofu Íslands er stærð snjóflóða skráð skv. flokkun sem er upprunnin í Kanada. Flokkunin byggir fyrst og fremst á áhrifum flóðs, og það hefur verið lítillega staðfært. Í flokkuninni er einnig gefinn dæmigerður massi flóðs í hverjum flokki í tonnum.

Flokkur Lýsing Massi
1 Spýja, sem varla getur grafið mann (en það getur skapast hætta vegna falls) 10 tonn
2 Snjóflóð sem getur grafið mann 100 tonn
3 Snjóflóð sem getur grafið og eyðilagt fólksbíl, grafið vörubíl, skemmt hús eða eyðilagt minni byggingar 1000 tonn
4 Snjóflóð sem getur eyðilagt nokkur hús 10.000 tonn
5 Stærstu snjóflóð, geta eyðilagt mörg hús 100.000 tonn

Þessi stærðarflokkun snjóflóða er ekki alltaf auðveld en möguleg áhrif flóða er sá þáttur sem ræður flokkuninni. Oft eru þunn, tiltölulega kraftlítil flóð flokkuð í stærðarflokka 1–2 þó svo að massi þeirra sé meira en síðasti dálkur töflunnar gefur til kynna.

Snjóflóðavandi (e. avalanche problem)

European Avalanche Warning Services (EAWS) hefur skilgreint fimm megingerðir snjóflóðavanda og styðst Veðurstofa Íslands við þessar skilgreiningar. Skilgreining á snjóflóðavanda er tilraun til að lýsa dæmigerðum aðstæðum í snjó og í veðri sem geta leitt til þess að snjóflóð fellur. Hinar fimm gerðir snjóflóðavanda eru nýsnævi, skafsnjór, viðvarandi veik lög, votur snjór og snjóskrið og er helstu einkennum hvers vanda lýst í töflum hér að neðan.

Þegar snjóflóðaspáin er á stigi 2 (gulum) eða hærra er altaf skilgreind a.m.k. ein gerð af snjóflóðavanda fyrir viðkomandi svæði. Lagt er mat á það hvar vandann er helst að finna (hæð og viðhorf), líkur á að snjóflóð falli og líkleg hámarksstærð snjóflóða ef þau falla.

Tilgangurinn með skilgreiningu á snjóflóðavanda er að bæta og einfalda framsetningu á svæðisbundinni snjóflóðaspá og lýsa á einfaldan hátt varasömum snjóaðstæðum. Alltaf þarf að hafa í huga að spáin er mikil einföldun á raunveruleikanum og hættur geta leynst víðar en spáin tilgreinir.

Hér er hlekkur á EAWS um snjóflóðavanda (e. avalanche problems):

Mismunandi gerðir snjóflóðavanda

Nýsnævi
Hvað? Einkenni Snjóflóðavandinn tengist yfirstandandi snjókomu eða síðustu snjókomu. Það skiptir höfuðmáli hversu mikil þyngdaraukning verður vegna nýsnævis ofan á eldri snjó. Yfirborð eldri snævar og hitastig á meðan það snjóar hafa einnig mikil áhrif á hvort snjóflóðahætta skapast.
Tegundir snjóflóða
  • Þurr flekaflóð
  • Þurr lausaflóð
  • Náttúruleg flóð og flóð af mannavöldum
Hvar? Útbreiðsla Gjarnan útbreiddur vandi og oft í öllum viðhorfum.
Staðsetning veikra laga Oftast á lagmótum gamla og nýja snævarins, en stundum í nýsnævinu. Í sumum tilfellum getur veikleikinn verið dýpra í eldri snjónum.
Hvers vegna? Einkenni brots Þurr flekaflóð:
  • Þyngdaraukning vegna snjókomu veldur auknu álagi á veik lög.
Þurr lausaflóð:
  • Lítil samloðun milli snjókorna.
Hvenær? Tímabil Á meðan það snjóar og jafnvel í nokkra daga á eftir
Hvernig bregstu við? Greining snjóflóðavandans þegar ferðast er Frekar auðvelt er að þekkja nýsnævisvanda. Fylgjast þarf með hve mikið hefur snjóað og hvort nýleg snjóflóð hafa fallið. Athugið að vægar breytingar í veðri geta haft áhrif á nýsnævið.
Ferðaráð og leiðbeiningar Þurr flekaflóð:
  • Bíða þar til snjórinn verður stöðugri
Þurr lausaflóð:
  • Mikilvægara er að huga hættu og aflHættan á falli er mikilvægari en hættan á að grafast í snjóflóðinu. Hugið að afleiðingum falls í bröttum brekkum.


Skafsnjór
Hvað? Einkenni Snjóflóðavandinn kemur til vegna skafrennings. Vindur getur flutt til snjó hvort sem það er snjókoma eða ekki.
Tegundir snjóflóða
  • Þurr flekaflóð
  • Náttúruleg flóð og flóð af mannavöldum
Hvar? Útbreiðsla Mjög breytileg, en venjulega safnast snjór hlémegin í fjöllum, giljum og hvilftum. Vindflekar myndast líka gjarnan þar sem skörp skil eru á halla landslags, hlémegin við hryggi og þar sem skjól er fyrir hvössum vindi. Stundum meira afgerandi ofarlega í fjöllum.
Staðsetning veikra laga Oftast á lagmótum gamla og nýja snævarins en veikleiki getur einnig myndast í vindflekanum vegna breytileika t.d. í vindhraða og vindátt. Í sumum tilfellum getur veikleikinn verið dýpra í eldri snjónum.
Hvers vegna? Einkenni brots Álag á veik lög í snjónum eykst þegar vindfleki myndast í skafrenningi. Brot breiðast gjarnan auðveldlega út í stífum vindfleka.
Hvenær? Tímabil Vindflekar geta myndast á mjög skömmum tíma. Vandinn er yfirleitt viðvarandi á meðan á skafrenningi stendur og stundum í nokkra daga á eftir, en það fer eftir þróun snjóþekjunnar.
Hvað er hægt að gera? Greining snjóflóðavandans þegar ferðast er Þegar skafsnjór er ekki falinn undir nýsnævi er hægt að koma auga á vindfleka með þjálfun og í góðu skyggni. Takið eftir ummerkjum um vind og staðsetjið skafla og vindfleka. Dæmigerðar vísbendingar: Skaflar og vindflekar, nýleg snjóflóð, sprungur sem skjótast um flekann eða „vúmp“ hljóð og samfall í snjónum. Það getur þó oft verið erfitt að greina aldur ummerkja um vind og þau þurfa ekki endilega að þýða að snjóflóðavandinn sé til staðar (t.d. þegar ekkert veikt lag er).
Ferðaráð og leiðbeiningar Forðist vindfleka í brattlendi, sérstaklega þar sem þykkt snævar eða harka breytist.


Viðvarandi veik lög
Hvað? Einkenni Snjóflóðavandinn kemur til vegna viðvarandi veikra laga í eldri snjó. Veiku lögin innihalda venjulega kantaða kristalla, grafið yfirborðshrím eða djúphrím.
Tegundir snjóflóða
  • Þurr flekaflóð
  • Yfirleitt flóð af mannavöldum. Náttúruleg snjóflóð eru sjaldgæf og oftast tengd öðrum snjóflóðavanda.
Hvar? Útbreiðsla Vandinn getur verið útbreiddur eða staðbundinn. Hann getur verið til staðar í öllum viðhorfum, en er tíðari í skuggsælum brekkum og þar sem skjól er fyrir vindi.
Staðsetning veikra laga Hvar sem er í gamla snjónum, oft á talsverðu dýpi. Ef veika lagið er mjög djúpt er erfiðara að hafa áhrif á það og koma af stað snjóflóði.
Hvers vegna? Einkenni brots Snjóflóð fer af stað þegar þyngdaraukning verður meiri og hraðari en styrkur veika lagsins þolir.
Hvenær? Tímabil Veiku lögin geta verið í snjónum í nokkrar vikur eða mánuði. Stundum meirihluta vetrarins. Á Íslandi er þó ekki algengt að veik lög haldist í marga mánuði í snjónum vegna þess að þegar hlánar og snjór blotnar í gegn, þá eyðileggjast veik lög.
Hvernig bregstu við? Greining snjóflóðavandans þegar ferðast er Það getur verið mjög erfitt að greina viðvarandi veik lög. Vísbendingar um óstöðugleika eins og t.d. „vúmp“ hljóð eru dæmigerð en þurfa ekki að vera til staðar. Stöðugleikapróf geta hjálpað við að greina viðvarandi veik lög. Þekking á þróun snævarins yfir veturinn er mikilvæg og að fylgjast með opinberri snjóflóðaspá, sé hún til fyrir svæðið. Algengt er að sprungur í snjónum geti breiðst út langar vegalengdir og mögulegt er að koma af stað snjóflóði með fjarbroti.
Ferðaráð og leiðbeiningar Ferðist með varúð og forðist stórar, brattar brekkur. Hafið í huga hvernig veður og snjór hefur þróast á svæðinu. Farið sérstaklega varlega þar sem snjóþekjan er þunn og þar sem breytileiki er í þykkt þekjunnar. Víða erlendis eru viðvarandi veik lög algengasta orsök snjóflóða sem valda útivistarfólki fjörtjóni.


Votur snjór
Hvað? Einkenni Snjóflóðavandinn kemur til vegna þess að vatn í snjónum dregur úr styrkleika hans. Vatn sígur niður í snjóinn vegna bráðnunar eða rigningar.
Tegundir snjóflóða
  • Vot flekaflóð
  • Vot lausaflóð
  • Aðalega náttúruleg flóð
Hvar? Útbreiðsla Þegar sólargeislun er meginorsök bráðnunarinnar fer útbreiðsla vandans eftir viðhorfi og hæð yfir sjávarmáli. Í rigningu er snjóflóðavandinn óháður viðhorfi.
Staðsetning veikra laga Hvar sem er í snjóþekjunni.
Hvers vegna? Einkenni brots Vot flekaflóð:
  • Veiking veikra laga sem fyrir eru í snjónum, eða að vatn safnast fyrir á lagmótum.
  • • Ef það rignir verður einnig aukið álag á veik lög vegna þyngdaraukningar
Vot lausaflóð:
  • Skortur samloðun milli snjókristalla
Hvenær? Tímabil
  • Frá nokkrum klukkutímum upp í nokkra daga
  • Stöðugleiki snævar getur dvínað hratt
  • Hætta er mest þegar vatn seytlar í fyrsta sinn niður í gegnum snjóinn eftir að hann hefur hitnað upp í 0°C.
  • Náttúruleg snjóflóð geta verið líklegri á ákveðnum tíma dags, sérstaklega um eftirmiðdaginn (nema að rigning sé megin orsökin).
Hvernig bregstu við? Greining snjóflóðavandans þegar ferðast er Venjulega er auðvelt að greina vandann. Rigning, kögglahrun, lítil vot fleka- eða lausaflóð eru oft fyrirrennarar votra flekahlaupahrina. Mikil spordýpt er annað einkenni þess að snjór sé að blotna.
Ferðaráð og leiðbeiningar Næturfrost getur myndað skel á yfirborði að morgni þegar léttskýjað er og svalt og þá er hættan venjulega minni. . Þegar nætur eru hlýjar og skýjað er, þá er vandinn oft til staðar þegar um morguninn. Venjulega skapast þessar aðstæður nánast samstundis þegar það rignir ofan í nýsnævi. Góð tímasetning og skipulagning ferða skiptir miklu máli. Hafið í huga möguleg úthlaupssvæði snjóflóða.


Snjóskrið
Hvað? Einkenni Allur snjórinn skríður á yfirborði jarðar, venjulega á sléttri jörð s.s. grasbrekkum eða sléttum klöppum. Snjóflóð af völdum snjóskriðs (skriðflóð) tengjast venjulega þykkri snjóþekju með lítilli eða engri lagskiptingu. Slík flóð geta fallið bæði í köldum, þurrum snjó og votum snjó. Það er erfitt að spá fyrir um snjóflóð vegna snjóskriðs, en venjulega opnast þó sprungur áður en flóðið fellur. Skriðflóð eru fremur sjaldgæf á Íslandi.
Tegundir snjóflóða
  • Skriðflóð í köldum og þurrum snjó eða 0° C jafnheitum snjó.
  • Flóðin falla venjulega af náttúrulegum orsökum. Flóð af mannavöldum eru ólíkleg.
Hvar? Útbreiðsla Oftast á sléttri jörð og í öllum viðhorfum. Samt oftar í hlíðum sem vísa á móti suðri.
Staðsetning veikra laga Mörk snævar og yfirborðs jarðar.
Hvers vegna? Einkenni brots Skriðflóð falla þegar viðnám snjóþekjunnar við jörð minnkar.
Hvenær? Tímabil Nokkrir dagar upp í nokkra mánuði, mögulega allur veturinn. Flóðið getur fallið á hvaða tíma sólarhringsins dags sem er. Á vorin falla skriðflóð aðallega síðdegis.
Hvað er hægt að gera? Greining snjóflóðavandans þegar ferðast er Sprungur í snjónum vegna skriðs eru vísbending um skriðflóðahættu en tákna ekki endilega yfirvofandi hættu því það er nánast ómögulegt að spá fyrir um hvenær og hvort flóð fellur. Snjóflóð falla líka oft vegna snjóskriðs án þess að sprungur hafi myndast.
Ferðaráð og leiðbeiningar Forðist svæði nálægt snjóskriðssprungum.

Hæð

Í snjóflóðaspá Veðurstofunnar er fjöllum stundum skipt upp í tvö hæðarbil og þá er talað um snjóflóðavanda ofan eða neðan við tiltekna hæð. Mörk hæðarbilsins eru skilgreind í hvert sinn. Snjóflóðavandamál getur þannig t.d. verið talið að mestu bundið við hæðarbilið ofan 800 m eða neðan 500 m. Stundum er ákveðinn snjóflóðavandi talinn vera til staðar í öllum hæðarbilum, frá sjávarmáli upp á hæstu fjallatoppa. Eins og áður þá er verið að benda á hvar vandinn er talinn vera mest áberandi, en það útilokar ekki að hann sé til staðar á fleiri stöðum.

Viðhorf

„Viðhorf“ hlíðar segir til um í hvaða átt hlíðin vísar. Skíðamaður sem stendur á toppi fjalls og rennir sér niður hlíð til norðurs er því staddur í brekku með norðurviðhorf eða í N-vísandi brekku. Snjóflóðavandi er stundum bundinn að mestu við ákveðið viðhorf. Það þarf þó að gera ráð fyrir því að vandamálið fyrirfinnist víðar, þótt það sé algengast í ákveðnu viðhorfi.

Líkur

Fyrir hvern snjóflóðavanda eru skilgreindar líkur á að snjóflóð falli sem geta verið:

Ólíklegt, mögulegt, líklegt, mjög líklegt, fullvíst

Athugið að þetta er gróft mat og tekur til bæði flóða af mannavöldum og náttúrulegum orsökum. Líkur á flóðum af mannavöldum eru háðar því að einhver sé á svæðinu til að setja af stað flóð.


Almannavarnastig sem lýsa mögulegri snjóflóðahættu í byggð

Til eru samræmd hugtök sem notuð eru af almannavörnum í viðbúnaði við náttúruvá, jafnt fyrir snjóflóð, sjávarflóð, storma og annað sem getur skapað lífshættu eða valdið eignatjóni.

Óvissustig

Óvissustig vegna snjóflóðahættu felur í sér aukinn viðbúnað snjóflóðavaktar Veðurstofunnar og snjóathugunarmanna ásamt samráði við lögreglu og almannavarnir í héraði vegna snjóflóðahættu sem upp kann að koma í byggð.

Óvissustig felur ekki í sér yfirvofandi snjóflóðahættu í byggðinni heldur að hætta geti skapast. Óvissustigi er lýst yfir til þess að þeir sem koma að aðgerðum, sem getur þurft að grípa til, séu viðbúnir. Óvissustigi er lýst yfir fyrir heila landshluta en ekki tiltekna staði áður en ákvarðanir eru teknar um aðgerðir svo sem rýmingu húsnæðis. Oftast er einungis um að ræða hugsanlega snjóflóðahættu á einum eða fáum stöðum á viðkomandi svæði.

Hættustig

Hættustig er næsta stig viðbúnaðar. Fyrir þéttbýli felur hættustig í sér rýmingu húsnæðis á ákveðnum reitum sem skilgreindir hafa verið í rýmingaráætlun. Í dreifbýli eru oftast rýmd einstök hús.

Neyðarstig

Neyðarstigi er lýst yfir þegar orðið hafa slys á fólki og/eða tjón á mannvirkjum. Gripið er til tafarlausra aðgerða til þess að bjarga mannslífum; reynt er að afstýra fleiri slysum og koma í veg fyrir frekara tjón..


Snjóflóðahættutafla

Mjög mikil hætta
Mikil hætta
Töluverð hætta
Nokkur hætta
Lítil hætta

Nánar

Nýjar snjóflóðafréttir






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica