Maí var hlýrri en að meðallagi um allt land, sérstaklega á norðaustan- og austanverðu landinu. Það var sólríkt og þurrt á Norðaustur- og Austurlandi en óvenju þungbúið og úrkomusamt á vestanverðu landinu. Aldrei hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í maímánuði í Reykjavík og þar mældist meira en tvöföld meðalmaíúrkoma. Nokkuð var um hvassviðri síðari hluta mánaðar, en þá voru suðvestlægar áttir ríkjandi.
Útgefnar viðvaranir vegna veðurs síðastliðinn vetur voru 325 talsins og er sá fjöldi í meðallagi. Mun fleiri viðvaranir voru gefnar út veturinn 2019 – 2020 og 2021 – 2022, en þá var fjöldi útgefinna viðvarana 439 og 426. Flestar viðvaranir voru gefnar út í febrúar, 16 appelsínugular og 64 gular samtals 80 viðvaranir sem eru tæplega þrjár viðvaranir á dag að meðaltali.
Lesa meiraVetrarafkoma Hofsjökuls var mæld í 35. skipti í leiðangri Veðurstofu Íslands í síðustu viku aprílmánaðar. Við boranir kom fljótt í ljós að veturinn hafði verið óvenju snjóléttur, einkum á sunnanverðum jöklinum. Snjóþykkt mældist 0.5 m í um 800 m hæð neðst á jöklinum en mest um 5.8 m á hábungu jökulsins í tæplega 1800 m hæð. Meðalþykkt vetrarlagsins á Hofsjökli öllum er áætlað 2.7 m og vatnsgildi þess er um 1.3 m, sem jafngildir þá vetrarafkomu jökulsins. Er það um 75% af meðaltali áranna 1989-2022 og eru varla dæmi um jafn litla ákomu á jökulinn frá upphafi mælinganna. Þó mældist hún ívið lægri í vorferðum 2001 og 2010.
Lesa meiraÞegar veðurfræðingar gera spár byggja þeir á reikniniðurstöðum veðurfræðilíkana og nýjustu veðurathugana, hvort sem þær koma frá fjarkönnun (veðurtunglum, veðursjám o.s.frv.) eða mælingum veðurstöðva. Nútíma veðurspálíkön nýta öll þau eðlisfræðilögmál sem ráða hreyfingum og orkuskiptum andrúmsloftsins. Þau eru sett fram sem stærðfræðijöfnur á tölvutæku formi í flóknu forriti sem er yfirleitt kallað veðurspálíkan. Veðurfræðilíkön þróuðust á síðari hluta 20. aldar og fleygði fram samfara því sem tölvur urðu öflugri. Á síðustu árum hefur verið mikil þróun í að nota gervigreind til að bæta úrvinnslu veðurgagna, m.a. til þess að bæta veðurspár úr veðurspálíkönum. Nýjustu rannsóknir benda til þess að nú sé þeim áfanga náð að með aðstoð gervigreindar verði spár nákvæmari en með hefðbundnum aðferðum.
Lesa meiraUppfært kl. 11:40
Mælingar benda til þess að virknin í Kötluöskju teljist nú til eðlilegrar bakgrunnsvirkni eldstöðvarinnar. Fluglitakóðinn fyrir Kötlu hefur verið færður aftur niður á grænan. Óvissustig Almannavarna er áfram í gildi og náið verður fylgst með þróun mála í Mýrdalsjökli.
Lesa meira