Veðurstofa Íslands 90 ára
Eiríksjökull
Eiríksjökull 2. nóvember 1990.

Jöklarannsóknir

Veðurstofa Íslands 90 ára

Oddur Sigurðsson 30.11.2010

Tilvist jökla er mjög háð veðurfari og því nýtast ýmsar niðurstöður jöklarannsókna við könnun á sögu og áhrifum veðurfarsbreytinga. Jafnframt eru veðurmælingar ómetanlegar við jöklarannsóknir.

Þetta var tveim helstu frumkvöðlum jöklarannsókna á Íslandi, þeim Sveini Pálssyni og Jóni Eyþórssyni, vel ljóst og stunduðu þeir því hvort tveggja af kappi.Jón hóf störf á Veðurstofunni 1926 og þegar árið 1930 kom hann á fót árlegum mælingum á stöðu jökulsporða. Umsjón þessara mælinga hefur alla tíð síðan verið á Veðurstofunni eða á Vatnamælingum Orkustofnunar, sem nú hafa sameinast Veðurstofunni í nýrri stofnun. Frá 1950 hafa sporðamælingarnar farið fram í nánu samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands og verður svo þar til jöklar eru horfnir af Íslandi.

Jón Eyþórsson lagði ennfremur grunn að afkomumælingum á íslenskum jöklum. Fyrstu mælingar af því tagi hérlendis fóru fram í sænsk-íslenska leiðangrinum á Vatnajökul, sem farinn var 1936 undir stjórn Jóns og sænska jöklafræðingsins Hans Ahlmann. Jón mældi einnig afkomu á öðrum jöklum en samfelldum afkomumælingum varð ekki komið á fyrr en alllöngu síðar. Ennfremur stýrði hann fleiri alþjóðlegum leiðöngrum á jöklum landsins í samvinnu við erlenda vísindamenn.

Að Jóni Eyþórssyni gengnum varð nokkurt hlé á jöklarannsóknum innan Veðurstofunnar. Þar var þó safnað gögnum um snjóflóð frá því á 8. áratugnum en þau fræði eru oft nefnd í sömu andrá og jöklafræði.

Bræðsluborun
Bræðsluborun
Bræðsluborun í Vestari Skaftárkatli 8. júní 2006. Snjór er bræddur í karinu til vinstri og bræðsluvatnið leitt inn í háþrýstidælu, þar sem það er hitað upp undir suðumark. Vatninu er síðan dælt með miklum þrýstingi gegnum slönguna og út um málmspjót, sem bræðir holu í ísinn. Þarna var borað gegnum 300 m þykka íshellu niður í 110 m djúpt lón undir katlinum. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Á Orkustofnun og áður Raforkumálaskrifstofunni voru starfræktar Vatnamælingar frá árinu 1947. Meðal mældra vatnsfalla voru margar af helstu jökulám landsins og söfnuðust því í tímans rás umfangsmikil gögn um afrennsli frá jöklum af völdum jöklaleysingar og flóða, einkum jökulhlaupa, sem tíðari eru hér á landi en annars staðar í veröldinni.

Á 7. áratug 20. aldar tók Orkustofnun að mæla aurburð í fallvötnum, einkum jökulám og sýna niðurstöður mikinn rofmátt jökla og jökulfljóta og stórfelldar breytingar á landinu af þeirra völdum. Veðurstofan hefur nú tekið við vatnafars- og aurburðarrannsóknum þeim, sem áður voru á hendi Orkustofnunar, auk umsjónar með gagnasöfnum. Starfsmenn stofnunarinnar taka þátt í vöktun eldstöðva undir jöklum og nýlega var efnt til sérstaks rannsóknarverkefnis í Skaftárkötlum í Vatnajökli. Var þá borað niður í lónin undir kötlunum til hitamælinga og sýnatöku, auk þess voru jökulhlaup þau sem fram koma í Skaftá með reglulegu millibili vöktuð betur.

Vatnamælingar Orkustofnunar tóku upp samfelldar mælingar á afkomu jökla árið 1988 og hafa þær staðið án hlés síðan, lengst af á Vatnamælingum en síðan á Veðurstofu Íslands eftir sameiningu stofnananna í upphafi ársins 2009. Niðurstöðum sporðamælinga og afkomumælinga er skilað árlega til World Glacier Monitoring Service í Sviss, sem safnar gögnum um jöklabreytingar um víða veröld.

Árið 2005 var í fyrsta sinn lokið kortlagningu á útlínum allra jökla landsins og þær lagðar fram hjá Landmælingum Íslands. Útlínurnar voru notaðar í Íslandsatlas sem út kom sama ár hjá Edduútgáfunni.

Í Vestari Skaftárkatli
Uppsetning masturs
Uppsetning mælistöðvar í Vestari Skaftárkatli að borun lokinni hinn 26. júní 2006.. Á stöðinni er GPS-tæki sem skráir hreyfingu íshellunnar yfir lóninu. Skráningartæki var einnig tengt við hita- og þrýstiskynjara, sem komið var fyrir á lónbotninum og voru gögn sótt í skynjarann um gervihnött. Þessi stöð var í gangi sumarið 2006. Í baksýn sjást íshamrar hringlaga sprungna, sem liggja umhverfis ketilinn. Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson.

Nú stendur yfir á vegum Veðurstofunnar viðamikil kortlagning á yfirborði allra helstu jökla landsins með svokallaðri LIDAR-tækni. Verkefnið hófst á alþjóðaári heimskautanna (2008) og er helsta framlag Íslendinga til rannsókna, sem tengjast þeim viðburði. Um þetta leyti hefur um helmingur alls flatarmáls jökla landsins verið kortlagður og er áætlað að verkinu verði lokið árið 2012.

Veðurstofa Íslands hefur frá árinu 2007 stýrt viðamiklu loftslagsrannsóknaverkefni með þátttöku allra Norðurlandaþjóða, auk Eystrasaltslandanna þriggja.Verkefnið ber heitið Climate and Energy Systems og miðar að því að kanna áhrif veðurfarsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa, t.d. vatnsorku og vindorku. Í verkefninu hefur m.a. verið unnið að fræðilegum rannsóknum á afrennsli frá jöklum landsins.

Ennfremur á Veðurstofan þátt að undirbúningi nýs alþjóðlegs samvinnuverkefnis, Global Cryosphere Watch (pdf 0.08 Mb) sem miðar að samþættingu vöktunar á öllum þáttum freðhvolfs jarðar; þ.e. snjóþekju, jöklum, lagnaðarís og hafís.

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica