Kortlagning uppleystra efna
Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að kortlagningu á dreifingu uppleystra efna og basavirkni í straumvötnum á Íslandi. Kortlagningin var gerð með aðstoð landfræðilegra upplýsingakerfa og var megintilgangur hennar að kanna og túlka vensl efnafræði straumvatna, berggrunns, vatnafars, gróðurþekju og vistkerfa. Kortlögð voru basavirkni, uppleystu efnin kísill, flúor og molybdenum, og hlutfall uppleysts, ólífræns niturs og uppleysts, ólífræns fosfórs (DIN/DIP).
Niðurstöður sýna að hlutfall allra efnanna nema DIN/DIP var hæst innan gosbeltisins og að nokkur straumvötn utan beltisins höfðu háan styrk uppleystra efna. Þessi hái styrkur er ýmist tilkominn vegna jarðhita- eða mýraráhrifa sem er að finna innan vatnasviða þessara straumvatna. Kortlagningin leiðir þannig í ljós augljósan mun á styrk uppleystra efna í straumvötnum innan gosbeltisins og straumvötnum sem hafa afrennsli af elsta Tertíera-berginu. Dreifing uppleystra efna og basavirkni var borin saman við vatnafarsflokkun sem gerð var á Orkustofnun árið 2006 (Freysteinn Sigurðsson o.fl., 2006) en samanburðurinn var ekki marktækur þar sem gildi uppleystra efna fyrir hvern vatnafarsflokk var of breytilegt.
Frekari rannsókna er þörf, þá sér í lagi á straumvötnum sem staðsett eru mitt á milli Tertíera-berggrunnsins og gosbeltisins annars vegar og hins vegar á straumvötnum sem falla eingöngu í einn vatnafarsflokk. Með slíkri sýnatöku væri hægt að fá enn betri mynd af dreifingu uppleystra efna í straumvötnum.
Verkefnið var styrkt af Rannís og unnið í samstarfi við Orkustofnun og Háskóla Íslands.